Öflun gagna um veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 10. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Mér heyrist sem formaður sjútvn. Ed., Stefán Guðmundsson, sé hér að efna til málefnalegrar umræðu um sjávarútvegsmál sem ekki var mín hugmynd. Ég hafði kvatt mér hljóðs um þingsköp til þess að vekja athygli á afgreiðslu hæstv. sjútvrh. á málinu og sinnuleysi hæstv. forseta fyrir því að þingmenn fái nauðsynleg gögn í hendur. Ég ítreka það sem ég sagði áðan. Ég hef beðið um það í sjútvrn. að fá send gögn. Því hefur verið synjað en á hinn bóginn hefur mér verið boðið það að hlaupa upp í ráðuneyti í hvert skipti ef ég þarf á upplýsingum að halda og þar má ég lesa yfir bakið á ráðuneytismönnum einhverja pappíra sem þeir leggja fyrir mig. Er það einhver afgreiðsla á þingnefndum? Ekki þykir okkur það, þeim sem hugsa á svipuðum nótum og ég. En ég veit að formaður sjútvn. gegnir mjög ötullega því erindi sem hæstv. sjútvrh. hefur falið honum, að reyna að koma í veg fyrir að nefndarmenn fái þær upplýsingar sem þeir þurfa á að halda.