Öflun gagna um veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 10. desember 1990


     Stefán Guðmundsson :
    Já, ég hef reynt að halda mig við þingskapaumræðuna. Ég kem hér aftur til að mótmæla því sem kom fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal. Ég hef ekki
gengið erinda sjútvrh. í þessu máli. Ég hef aðeins reynt að gegna skyldu minni sem formaður nefndar og verða við óskum Halldórs Blöndals um það að kalla sjávarútvegsnefndir deildanna saman til fundar til þess að skoða þessi mál og athuga. Og ég vil endurtaka að ef Halldór Blöndal er orðinn svo fótafúinn að hann komist ekki upp í ráðuneyti þá stendur það enn til boða hjá þessum mönnum, sem eru ekki bara starfsmenn ráðuneytisins heldur þeir sem unnu þetta starf á vegum ráðuneytisins og voru fulltrúar Félags smábátaeigenda, Fiskifélags Íslands og sjútvrn., að þeir eru tilbúnir að koma hér niður í Alþingi og fara yfir þessi gögn með okkur þar sem við höfum okkar vinnuaðstöðu úti í Þórshamri. Þetta stendur öllum til boða, ekki bara okkur sjávararútvegsnefndarmönnum, heldur öllum þingmönnum. Og það er margbúið að koma hér fram.