Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 10. desember 1990


     Jón Sæmundur Sigurjónsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á því að ég hef heimild hæstv. forseta, hæstv. sjútvrh. og hv. málshefjanda í þessari umræðu, Kristins Péturssonar, til að víkja aðeins út frá efninu. Það varðar þó sjávarútvegsmál.
    Ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á sameiginlegri ályktun bæjarstjórna Akureyrar og Siglufjarðar, bæjarstjórans í Bolungarvík og hreppsnefndar Raufarhafnar til sjútvrh. hér í gær. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Bæjarstjórnir Akureyrar og Siglufjarðar, bæjarstjórinn í Bolungarvík og hreppsnefnd Raufarhafnar vilja með ályktun þessari vekja athygli sjútvrh. á því að það veldur mikilli röskun í atvinnumálum þessara byggðarlaga og verulegum rekstrarerfiðleikum hjá loðnuverksmiðjum þessara staða að loðnuveiðum skuli nú vera hætt. Bræðsla loðnu ásamt ýmissi þjónustu við loðnuflotann er mikilvægur þáttur í atvinnulífi þessara staða. Bæjarfélög eru því í hópi hagsmunaaðila eins og útgerðarmenn og sjómenn.``
     Og enn fremur segir: ,,Nú er upplýst að ekki verður fylgst með loðnugöngu fyrir Norðurlandi fram yfir áramót en áður hefur það sýnt sig að skjótt skipast veður í lofti í þessum efnum. Þess vegna skora ofanritaðar sveitarstjórnir á þig sem sjávarútvegsráðherra að þú beitir þér fyrir því að nú þegar verði rannsóknaskipum haldið úti og jafnframt verði 3 -- 4 loðnuveiðiskip styrkt til áframhaldandi leitar á miðunum fyrir Norðurlandi það sem eftir lifir til áramóta.`` Nú hefur það komið fram hjá forstjóra Hafrannsóknastofnunar, Jakobi Jakobssyni, í viðtali við Sjávarfréttir að hann er mjög óánægður með fjárveitingar til fiskirannsókna yfirleitt.
    Ágústmælingar á loðnustofninum hafa gefið í skyn að '89-árgangurinn sé lélegur en hann ætti að vera burðarásinn á næstu vertíð. Það er mat Hafrannsóknastofnunar að hrygningarstofninn sé aðeins um 370 þús. lestir og ástandið mjög svipað og þegar stofninn hrundi fyrir tæpum áratug. Það er eins og menn gleymi því að stofninn var mældur innan við 100 þús. lestir á sama tíma í fyrra en þá voru gefnar út yfirlýsingar að hann væri hruninn. (Forseti hringir.) Ég heyri að tími minn er á þrotum en það sem ég hefði viljað koma á framfæri er að það er fyllsta ástæða til þess að vel sé fylgst með loðnugöngum fyrir Norðurlandi. Það hefur komið fram í ályktunum sveitarstjórna fyrir Norðurlandi, frá Bolungarvík til Raufarhafnar, og ég hefði viljað leggja til og spyrja sjútvrh. hvað honum finnist um þá hugmynd að viðkomandi loðnuverksmiðjur fái að tilnefna loðnuskip til leitar á þessum tíma og að það verði fjármagnað af loðnuverksmiðjunum sjálfum, eða eins og segir í ályktunum fiskiþings og aðalfundar LÍÚ að ,,2% af tekjum af heildarloðnuafla verði veitt til þess að styrkja útgerðarfyrirtæki til að taka þátt í þessari loðnuleit.``