Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 10. desember 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Þetta mál er nú stærra og viðameira en svo að hægt sé að segja mikið um það á tveimur mínútum. Ég held að þessi mál séu orðin þannig að það sé alveg útilokað annað en endurskoða þau lög sem eiga að taka gildi nú um áramótin. Ég ætla mér ekki að ræða það neitt hér. Ég mun reyna að koma því hér inn á þing öðruvísi ef ég sé að þessu máli, eins og það lítur út í dag, verður sýnt það tómlæti að það verði ekki rætt á annan veg eða skoðað en undir þessum stutta tíma sem er hér til umráða. Það er ófriður um allt land. Það er óánægja um allt land. Við höfum ekki einu sinni frið um helgar ef við erum heima og verðum jafnvel að flýja frá símanum til þess að komast í ró út af þessum málum. Ég held því að það þurfi nú að taka á þessum málum og ég skora á hæstv. sjútvrh. að beita sér fyrir því. Það er ekkert gaman að standa í illindum við ríkisstjórnina út af þessum málum og það er ekkert gaman fyrir hann eða þegnana í landinu að búa við þetta ófriðarástand eins og nú er.