Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 10. desember 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Við fengum hér ákaflega skýr svör hjá hæstv. ráðherra. Ég þakka honum fyrir þau. Eftirlitsmaðurinn kannast ekki við að þetta sé rétt sem eftir honum er haft í Þjóðviljanum, á forsíðu þess ágæta blaðs, og ráðherrann kannast þar af leiðandi ekki við málið sjálfur. Þetta er svarið. Fréttin er þá sem sagt röng. Þá stendur það náttúrlega eftir að fréttamaðurinn sanni sitt mál. En því miður hafa þessar sögur um yfirvigt gengið í meira en eitt ár. Menn eiga náttúrlega ekki að fara eftir sögum. Ég taldi, hæstv. forseti, að þessi frétt væri staðfesting vegna þess að þetta er haft eftir eftirlitsmanni hins háa ráðuneytis. En ég spyr: Af hverju þarf þá að breyta reglum um vigtun frystitogara núna? Hvaða forsenda var þá fyrir því að breyta þeim núna? Það þarf að gefa út nýja reglugerð um breytingu á vigtun afla og það á að vigta allan afla af frystitogurum þegar hann kemur í land. Allt á að fara upp á löggilta hafnarvog og vigtast þar. Hvaða ástæða var þá fyrir því að gefa út nýja reglugerð ef þetta var allt í svona fínu lagi?
    Ég vil svo ítreka það hér að það er hlutverk okkar alþingismanna að reyna að semja almennileg lög. Lög um takmörkun á atvinnufrelsi eins og þessi lög eru mjög alvarleg löggjöf. Mér finnst satt að segja að það hafi verið mikil lífsreynsla að starfa sl. vor í þessari hv. deild. 42 þingmenn fengu 24 klukkutíma til þess að fjalla um þetta mál. Í hv. Nd. Alþingis fengum við 24 klukkutíma til að afgreiða 14 mál og þetta var eitt þeirra. Hvernig eiga alþingismenn að gera skyldu sína og búa til almennileg lög þegar hrossakaupin eru með þessum hætti og hlutunum rutt hér út úr deildinni?
    Það kom líka fram í umræddri frétt að fiski væri hent. Ég lét gera skoðanakönnun á því í vetur hvað miklum fiski væri hent. Ekki var fyrr búið að birta þá könnun en alls konar spámenn fóru að gera vart við sig og segja að þetta væri allt saman rangt. Það kom fram fjöldi manna sem sögðu það. En hversu margir báðu um að fá að skoða umrædda könnun? Ég hafði hugsað mér að nota þessa könnun m.a. til þess að fá að vinna málið hér í Nd. Alþingis. Hversu margir báðu um að fá að skoða umrædda könnun? Enginn einasti maður hefur beðið um að fá að líta á þessa könnun. Þá varðar ekkert um það hvernig hún var unnin.
    Hæstv. sjútvrh. segir að við verðum að fara í Ríkisendurskoðun til þess að fá þessi plögg varðandi tilraunaúthlutun smábátakvóta. Það finnst mér dálítið langt en það má þá reyna það. Það er mikið verk fram undan hjá umboðsmanni Alþingis. En ég ítreka það að það eru skyldur alþingismanna að semja almennileg lög svo að borgararnir geti búið við sæmileg lög og borið virðingu fyrir þeim lögum sem eru í gildi. Ég vil að síðustu segja, hæstv. forseti, með lögum skal land byggja en ólögum eyða.