Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 10. desember 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Það væri ástæða fyrir mig að segja ýmislegt við þessa umræðu miðað við það sem hér hefur komið fram en ég skal þó reyna að takmarka mál mitt við það sem beint hefur verið spurt um.
    Að því er loðnuveiðarnar varðar voru það váleg tíðindi þegar rannsóknir á loðnustofninum leiddu það í ljós að stofninn væri mjög lélegur. Það var kallaður saman fundur og það voru ekki gerðar athugasemdir við það hjá hagsmunaaðilum að við færum fram á það við loðnuflotann að hann hætti veiðum sem allra fyrst. Það var gert og jafnframt var fljótlega ákveðið að senda eitt af rannsóknarskipunum til þess að fylgjast með ástandinu á miðunum. Sú tillaga að senda loðnuskip til aðstoðar á miðunum er ekki talin nauðsynleg á þessu stigi máls. Ég vil taka það fram að það er mjög líklegt að fá loðnuskip á miðunum gætu veitt nokkuð vel en búast má við þegar allur flotinn kemur til veiðanna að loðnan tvístrist og lítið aflist.
    Við teljum ekki rétt að taka mikla áhættu í þessu máli og viljum fá frekari upplýsingar áður en nokkuð verður meira aðhafst. Við munum meta þetta mál þegar Árni Friðriksson hefur lokið sínum rannsóknum og taka ákvörðun um næsta skref. Alla vega verða tvö rannsóknarskip send út um áramótin. Það verður þá jafnframt metið áður, eftir að Árni Friðriksson hefur lokið sinni rannsókn, hvort allur flotinn fer til veiða eða hluti hans.
    Að því er varðar spurningu hv. þm. Málmfríðar Sigurðardóttur, 7. þm. Norðurl. e., þá er það svo að sóknarmark skipanna var lagt niður og ákveðin ný skipting á milli skipanna vegna þessa. Þau skip sem minnst höfðu í flotanum fengu hlutfallslega meiri bætur en önnur skip og var um það almenn samstaða. Að öðru leyti erum við að sjálfsögðu tilbúnir að upplýsa hv. þm. um það dæmi sem hún nefndi en ég ætla ekki að gera það hér beint úr ræðustól.