Stjórn fiskveiða
Mánudaginn 10. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Það er ekki rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði hér að almenn samstaða hafi verið um það að sóknarmarksskipin, þau sem minnstan afla höfðu, fengju ekki umþóttunartíma. Þetta er ekki rétt. Þvert á móti var það sérstaklega tekið upp af okkur sjálfstæðismönnum í sjútvn. Ed. hvort eitthvað þýddi að ræða við fulltrúa ríkisstjórnarinnar um það mál á nefndarfundi. Svarið var skýrt og gott frá formanni nefndarinnar, að meiri hlutinn hefði fengið fyrirmæli um það uppi í ráðherrabústað hvernig frá frv. eða lögunum um stjórn fiskveiða yrði gengið. Það vill svo heppilega til að það var gripið fram í fyrir mér við umræðu málsins þar sem það kemur skýrt fram sem ég segi núna og var ekki gerð athugasemd við af formanni sjútvn. þá. Það er því ekki rétt hjá hæstv. sjútvrh. að almenn samstaða hafi verið um það að ganga jafnnærri sóknarmarksskipunum og gert hefur verið.