Öflun gagna um veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 10. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Er mál rétt tekið upp ef óskað er að fá að gera athugasemd undir liðnum um þingsköp ef þingmaður telur að þingnefnd sé synjað um upplýsingar? Ber að taka það upp undir þingsköpum? ( Forseti: Hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur rætt það efni eins og öllum hv. deildarmönnum er kunnugt undir liðnum þingsköp í Sþ.) Ég tek svar hæstv. forseta svo að málið sé rétt upp tekið.
    Þannig standa sakir að ég kom að máli við hæstv. sjútvrh. og bað hann um að fá upplýsingar um það hvaða aflaheimildir einstakir eigendur smábáta hefðu fengið sendar eða skrá yfir þær aflaheimildir sem búist var við að einstakir eigendur smábáta mundu fá á næsta ári. Hæstv. sjútvrh. synjaði mér um það. Af þeim sökum bað ég um fund í sjútvn. Ed. þar sem ég skýrði frá því að ráðherra hefði synjað mér um upplýsingarnar.
    Þannig standa sakir að listar og skrár voru sendir út um landið til einstakra eigenda smábáta, auðvitað með fyrirvara um það að skekkjur kynnu að leynast á listanum og með fyrirvara um það að þeir yrðu leiðréttir ef athugasemdir bærust fyrir 15. des. Á þessum fundi voru mættir fulltrúar sjútvrh. og ítrekuðu þeir það sem ráðherra hafði áður sagt, að ráðuneytið treysti sér ekki til þess að láta sjútvn. Ed. í té þessar upplýsingar.
    Það olli mér miklum vonbrigðum að formaður sjútvn. sá ekki ástæðu til þess að einstakir nefndarmenn fengju þessar skrár í hendur. Á hinn bóginn tók ég það svo að meiri hl. nefndarmanna, eða a.m.k. var vilji fyrir því í nefndinni að fá þessar upplýsingar og almennur skilningur á mikilvægi þess fyrir þingmenn að þeir gætu haft slík gögn undir höndum vegna síns starfs. Þingmenn töldu með öðrum orðum að það væri ekki einkamál sjútvrh. hvernig staðið væri að úthlutun á aflakvóta fyrir smábáta.
    Nú er það beiðni mín, herra forseti, að hann beiti sér fyrir því að nefndarmenn í sjútvn. fái umbeðnar skrár sem trúnaðarmál þannig að þeir geti unnið störf sín í þingnefndum.