Öflun gagna um veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 10. desember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldór Blöndal hefur lýst hér því sem um var fjallað í sjútvn. Ed. þar sem við nokkrir þingmenn fórum fram á það að fá gögn sem fyrir okkur voru lögð í nefndinni til þess að hafa þau milli handanna sem trúnaðarmál þannig að við gætum sinnt þingmannsskyldu okkar þegar hringt væri í okkur og spurt um framkvæmd þeirra laga sem samþykkt voru hér á síðasta vori og hvernig að því ætti að standa. Eftir umræður í hv. sameinuðu Alþingi hefur svar virðulegs forseta Sþ. því miður verið á þann veg að forseti geti ekki beitt sér fyrir því að þessir hlutir komi í okkar hendur. Ég vil ítreka ósk hv. þm. Halldórs Blöndals um það að forseti þessarar virðulegu deildar beiti sér fyrir því að við fáum þessi gögn í hendur.
    Það er næstum því ómögulegt að sinna þeirri sjálfsögðu skyldu okkar að geta gefið fólki úti á landi upplýsingar um stöðu þessara mála ef við höfum ekki þessi gögn í höndum. Upplýsingar sem við getum fengið með því að lesa þessi gögn á fundi eða í ráðuneytinu eru alls ekki fullnægjandi vegna þess að það er alveg útilokað fyrir okkur að muna hina almennu stöðu hvers einstaklings upp úr þessu plaggi, en algengast er að þær fyrirspurnir sem fyrir okkur eru bornar séu um það hvað hinn eða þessi annar hafi fengið úthlutað, ég hef fengið þetta. Það er því nauðsynlegt fyrir okkur, með öllum fyrirvara um það að þessir hlutir séu ekki réttir og það séu væntanlegar leiðréttingar á þeim, en nauðsynlegt fyrir okkur til þess að geta sinnt því sem er ætlast til af okkur að við fáum að hafa þessi gögn í höndum, ekki síst þegar sú umræða, sem nú er orðin og komin af stað, ekki síst eftir það þegar hæstv. sjútvrh. jafnar hafnargerð í Grímsey við það hvaða kröfugerð er komin upp í þessum málum.