Öflun gagna um veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 10. desember 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Ég hef ekki blandað mér í þær umræður sem farið hafa fram í hv. Sþ. að undanförnu, síðustu tíu dagana eða svo, og ætla ekki að fara langt út í þá sálma. Hér er borin fram mjög einföld spurning, hvort hæstv. forseti vilji hlutast til um það að sjávarútvegsnefndarmenn í þessari hv. deild fái ákveðnar upplýsingar. Ég sé ekki annað en hann hljóti að gera það, hæstv. forseti, að ræða við formann sjútvn., hv. þm. Stefán Guðmundsson, eða hann sjálfur komi hér upp og upplýsi það skýrt og skorinort án allra deilna að hann muni hlutast til um það að sjávarútvegsnefndarmenn í þessari hv. deild fái refjalaust upplýsingar, í trúnaði ef því er að skipta, en ég skora á hv. þm. Stefán Guðmundsson og hæstv. forseta að hlutast til um að að þetta gerist og gerist strax og sé ekki meira um málalengingar og tímasóun.