Búfjárhald
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um búfjárhald. Frv. er ætlað að koma í stað þeirra ákvæða búfjárræktarlaga, nr. 31/1973, sem enn eru í gildi og varða lausagöngu gripa og forðagæslu. Einnig er þessu frv. ætlað að koma í stað laganna um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum, nr. 44/1964, en framkvæmd þeirra laga hefur verið á hendi félmrn.
    Frv. þetta er að stofni til samið af nefnd þriggja manna sem skipuð var 1. nóv. 1989 í framhaldi af samþykkt Alþingis á nýjum búfjárræktarlögum.
    Eins og einhverjum hv. alþm. er vafalaust kunnugt var ákveðið að skipta þessum lagaákvæðum upp í tvenn lög, þ.e. annars vegar lög um búfjárrækt þar sem sameinuð væru öll lagaákvæði um starfsemi hins opinbera á því sviði og hins vegar lög um búfjárhald. Hér er sem sagt á ferðinni seinni hluti þessarar heildarendurskoðunar lagaákvæða um þessi málefni.
    Nefnd þá sem að samningu frv. starfaði skipuðu Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur sem var formaður nefndarinnar, Ólafur R. Dýrmundsson ráðunautur og Sigurður Sigurðarson dýralæknir.
    Nefndin skilaði tillögum að frv. til laga um búfjárhald í byrjun mars á þessu ári og kemur fram í bréfi nefndarinnar til landbrn. að samráð var haft við félmrn. um þá þætti frv. er varða búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum og jafnframt við menntmrn. um þau ákvæði sem snerta dýravernd þannig að reynt var að vinna þá hluti í nánu samráði við viðkomandi ráðuneyti.
    Frumvarpsdrög þessi voru send búnaðarþingi og þeim var síðan breytt til samræmis við ábendingar búnaðarþings sem fram koma í bréfi frá búnaðarþingi, dags. 21. mars sl., eftir því sem fært þótti og samrýmdist að öðru leyti uppbyggingu frv. og efni.
    Frv. það sem hér liggur fyrir skiptist í sex kafla sem fjalla um í fyrsta lagi markmið frv. og yfirstjórn, í öðru lagi takmörkun búfjárhalds, vörslu búfjár, aðbúnað og meðferð búfjár, forðagæslu og svo eftirlit og talningu búfjár. Einnig eru refsiákvæði og gildistökuákvæði í lokakafla frv. undir heitinu ýmis ákvæði.
    Fyrir utan þá mikilvægu kerfisbreytingu sem felst í að færa framkvæmd lagaákvæða um búfjárhald á eina hendi, þ.e. að sá málaflokkur sé vistaður í einu ráðuneyti en ekki tveimur svo sem nú er, má nefna það nýmæli sem frv. felur í sér í 7. gr. um heimild til landbrh. til að gefa út reglugerðir um aðbúnað og meðferð einstakra búfjártegunda. Þar er að finna mikilvægt ákvæði um leyfisveitingu til búfjárhalds og er gert ráð fyrir að unnt sé að tengja slíkt leyfi framleiðslustýringu.
    Þá má nefna að í kaflanum um forðagæslu sem að meginefni er óbreyttur er kveðið á um mun virkara eftirlit með búfjárhaldi og forðagæslu. Það nýmæli er í frv. að gert er ráð fyrir heimild einstakra sveitarfélaga til að innheimta gjald af búfjáreigendum í þéttbýli til að standa undir kostnaði við framkvæmd eftirlits.

    Frv. mun ekki hafa í för með sér neinn kostnaðarauka fyrir ríkissjóð samkvæmt mati þar til kallaðra manna á þeim þætti málsins.
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um efni þessa frv. Ég hygg að það skýri sig bærilega sjálft með lestri og þeim athugasemdum sem því fylgja. Ég legg á það áherslu að hér er á ferðinni síðari hluti þessarar heildarendurskoðunar laga um búfjárrækt og búfjárhald sem staðið hefur yfir síðastliðin ár og ég hygg að verði í öllum greinum til verulegra bóta frá því sem áður var.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég svo til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn. deildarinnar.