Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, en frv. þetta felur í sér breytingu á 94. gr. laga nr. 86/1988, um stimpilgjald. Í frv. er lagt til að ekki sé greitt stimpilgjald af neinum félagslegum íbúðum, hvorki af lánasamningum sem gerðir eru við framkvæmdaraðila vegna byggingar eða kaupa á félagslegum íbúðum né af skuldabréfum sem framkvæmdaraðili gefur út í verklok.
    Það frv. sem varð að lögum nr. 70/1990 til breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins á síðasta þingi fól í sér ýmsar breytingar sem m.a. gerðu ráð fyrir nokkurri kostnaðarhækkun fyrir lántakendur. Þar á meðal var hækkun vaxta á framkvæmdalánum. Á móti var hins vegar ákveðið að fella niður stimpilgjöld af félagslegum íbúðum en áður höfðu einungis afsölin verið stimpilfrjáls en ekki skuldabréf. Breytingin sem gerð var með lögum nr. 70/1990 fólu í sér réttlætismál. Með því móti var unnt að gefa út nýtt skuldabréf fyrir íbúð í stað þess að gefa út bréf fyrir þeim mismun sem nýr kaupandi greiðir eins og gert var áður vegna kostnaðarins. Slíkt leiddi af sér að nýr kaupandi naut ekki afborgunarlausa ársins.
    Eftir að lög nr. 70/1990 voru afgreidd frá Alþingi komu aðrir framkvæmdaraðilar til sögunnar en sveitarfélögin. Á þeim tíma þegar unnið var að frv., sem varð að lögum nr. 70/1990, tíðkaðist ekki að framkvæmdalánasamningi skyldi þinglýst og stimpilgjald var ekki greitt. Við samningu frv. var því ekki fjallað sérstaklega um stimpilgjöld vegna framkvæmdalánasamninga þar sem nægilegt átti að vera að kveða afdráttarlaust á um að ekki skyldi greiða stimpilgjöld af skuldabréfum félagslegra íbúða.
    Með tilkomu annarra framkvæmdaraðila en sveitarfélaga við byggingu félagslegra íbúða, svo sem ýmissa félagasamtaka, hefur húsnæðismálastjórn hins vegar, eftir að þessi lög voru samþykkt á síðasta þingi, krafist raunverulegra trygginga fyrir framkvæmdaláni en það var eftir setningu laganna, eins og áður sagði, sl. vor sem farið var því að þinglýsa framkvæmdalánasamningum og því kom þá fram krafan um að skuldabréf væru
stimpilgjaldsskyld.
    Fjmrn. og félmrn. hafa fjallað um þetta mál og orðið sammála um að leggja til þetta frv. sem hér er mælt fyrir. Óumdeilt er að vilji löggjafans var sá að félagslegar íbúðir skyldu ekki bera stimpilgjald, hvorki skuldabréf vegna þeirra né afsöl. Eina undantekningin eru almennar kaupleiguíbúðir sem bera stimpilgjald.
    Frv. sem ég mæli fyrir kveður skýrt á um að ekki skuli greiða stimpilgjöld af framkvæmdalánasamningi.
     Í 2. gr. frv. er kveðið á um það að fjmrh. sé heimilt að endurgreiða stimpilgjald af skjölum þeim sem um getur í 1. gr. og stimpluð voru eftir 1. júní 1990. Fjmrn. og félmrn. eru sammála um að leggja til slíkt ákvæði, enda er það í samræmi við vilja Alþingis sem fram kom í þeim lögum sem voru samþykkt

sl. vor.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.