Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka eindregið undir orð hv. 6. þm. Reykn. að sem flestir í þessu samfélagi eigi að geta eignast þak yfir höfuðið á eigin spýtur og án þess að fá aðstoð til. Ég lít nú samt þannig á að fé almennings að það sé sameign okkar allra, líka þeirra sem njóta þess og þar af leiðandi er þetta engin ölmusa. Ég er alveg sammála skoðun hv. þm. en meðan lágmarkslaun í þessu landi eru slík hungurlús sem þau eru þá get ég ekki séð að þessi draumur, sem við eigum sameiginlegan, við hv. 6. þm. Reykn., að allir geti eignast þak yfir höfuðið án þess að þurfa að leita einhverra sérstakra fyrirgreiðslna, á meðan svo er ekki sé ég ekki aðra leið en gegnum félagslega kerfið. En svo sannarlega vildi ég gjarnan að kaup væri þannig í þessu landi að fólk þyrfti ekki að leita neinnar sérstakrar aðstoðar til þess að eignast þak yfir höfuðið.