Jarðalög
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson (um atkvæðagreiðslu) :
    Herra forseti. Til að fyrirbyggja þann misskilning að það sé einhver ákveðin nefnd í þinginu sem fjalli um lögfræðileg málefni vil ég vekja athygli á því að hver einasta nefnd sem tilheyrir deildunum fjallar um frv. sem stefnt er að af einhverjum aðila að verði að lögum og þar með fjalla menn um lögfræðileg málefni. Hitt er hreinn og klár útúrsnúningur að það sé einhver ein nefnd í þinginu sem fjalli um lögfræðileg málefni. Ég hef ekki heyrt öllu meiri vitleysu í rökstuðningi héðan úr ræðustóli svo að ég segi nú eins og er og er þá miklu til jafnað.
    Ég hef áður varað við því að menn láti sér detta það í hug að menn fari að kjósa sér nefndir. Það væri alveg furðuleg niðurstaða ef það ætti að snúa svo vinnubrögðum þingsins að það væru engar hefðir hvert málum bæri að vísa heldur ættu menn að kjósa sér nefndir eftir geðþótta. Þá mundu menn trúlega safna einhverjum sérstökum aðilum í einhverja ákveðna nefnd og reyna svo að vísa bara öllum málum þangað --- ef mönnum dytti þetta í hug í alvöru.
    Þess vegna geri ég tillögu um að þetta mál fari til landbn., eins og þingsköp og venjur mæla fyrir um.