Jarðalög
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Stefán Valgeirsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Herra forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. forseta þingsins. Það hefði þótt, fyrr á árum a.m.k., dálítið merkilegt ef forseti deildarinnar úrskurðaði ekki um svona mál. Þessi mál eru þannig að á þessum 23 árum sem ég er búinn að vera í þinginu, og ég hef lesið söguna lengra aftur, hafa þau alltaf farið til landbn. Þetta er kannski ekkert aðalatriði. En við höfum vanið okkur á það að vera nokkuð fastir í gömlum siðum hér og ég er eiginlega hættur að botna nokkuð í því hvað sumir hv. þm. eru að fara. Því er verið að skipta í landbn. o.s.frv.? Hvers vegna er það? Er ekki einhver ástæða fyrir því? Eða halda menn að það eigi bara að vera einhver geðþóttaákvörðun hvers og eins sem flytur frv. hvert á að vísa því?
    Það er auðvitað hæstv. forseti sem á að úrskurða í þessu máli. Það hefur verið gert áður og ég held að forsetar þingsins þurfi að fara að athuga sín mál betur og enn fremur að athuga það hvernig menn mæta hér á þingfundi. Það er þinginu til skammar hvernig hefur til tekist á undanförnum dögum. Og það er áreiðanlegt að það þyrfti að skoða það eitthvað betur. Ef þetta hefði verið í venjulegri vinnu, þá hefðu menn verið hýrudregnir miðað við þær mætingar sem hér eru, bæði þingmenn og ráðherrar.