Tímabundin lækkun tolls af bensíni
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Frsm. fjh. - og viðskn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér nál. frá fjh. - og viðskn. um frv. til laga um tímabundna lækkun tolls af bensíni.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund Snorra Olsen, skrifstofustjóra í fjmrn., og Guðrúnu Ástu Sigurðardóttur, deildarstjóra í fjmrn.
    Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingu sem flutt er tillaga um á þskj. 250.
    Breytingin er annars vegar við 1. gr. um að í stað orðanna ,,frá 1. október 1990`` í 2. mgr. komi: vegna innflutnings frá 6. október 1990 og vegna birgða sem til voru í landinu á þeim tíma. Þessi breyting skýrir sig sjálf. Hins vegar er breyting við 2. gr. um að í stað orðanna ,,31. desember 1990`` komi: 28. febrúar 1991. Þetta þýðir að hin tímabundna lækkun tolls framlengist til 28. febrúar 1991.
    Matthías Bjarnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Undir nál. rita Páll Pétursson, Ragnar Arnalds, Guðmundur G. Þórarinsson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Friðrik Sophusson og Jón Sæmundur Sigurjónsson.