Launamál
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Frsm. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. (Friðrik Sophusson) (frh.) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að hér eru komnir í salinn þrír ráðherrar, hver úr sínum flokki, en eins og flestir muna þá varð að gera hlé á þessari ræðu vegna þess að enginn hæstv. ráðherra var viðstaddur. Ég skal þó taka fram að hæstv. forsrh. hafði leyfi, hann var á sjúkrahúsi að því er okkur var tjáð, og ég vil sérstaklega bjóða hann velkominn hér í salinn. Ég ætlaði að fara að segja að hans hefði verið sárt saknað fyrir helgina og ég held að óhætt sé að orða það þannig, jafnvel þótt það sé sagt með þessum hætti. En það er ánægjulegt að sjá hæstv. forsrh. hér kominn til þess að standa fyrir sínu máli. Á sama hátt fagna ég því að hæstv. fjmrh. skuli sjá sér fært að koma hér og taka þátt í þessum umræðum. Það er afskaplega dýrmætt að þeir aðilar sem settu þessi endemis bráðabirgðalög í sumar séu þess fúsir að koma hér og hlýða á umræðu og taka síðan þátt í þeim. Eins og hæstv. forseti sagði á fimmtudaginn var er það auðvitað sjálfsagt mál að hæstv. ráðherrar, og sérstaklega hæstv. fjmrh., sé viðstaddur umræðuna.
    Þegar ég flutti ræðu með nál. 2. minni hl. á fimmtudeginum hafði ég rakið hvernig staðið var að samningi við BHMR á sínum tíma, hverjir voru þar að verki og hvaða skuldbindingar þeir tóku á sig. Ég hafði rifjað upp samkomulag aðila vinnumarkaðarins frá 1. febr. sl. en það samkomulag hefur verið kallað þjóðarsátt. Ég benti sérstaklega á að hæstv. ríkisstjórn tók að sér strax á þeim tíma að koma í veg fyrir að BHMR-samningurinn næði efnislega fram að ganga. Þannig ætlaði hæstv. ríkisstjórn að tryggja það í raun að BHMR tæki þátt í þjóðarsáttinni.
    Ég benti á að hæstv. ríkisstjórn aðhafðist ekkert í málinu lengst af, þrátt fyrir fjölda aðvarana, þar á meðal frá Vinnuveitendasambandi Íslands, frá borgarstjóra og frá fleiri aðilum sem sáu hvert stefndi.
    Ég rifjaði það upp að mál þetta fór í Félagsdóm þegar hæstv. ríkisstjórn ákvað að greiða ekki umsamdar launahækkanir til BHMR. Félagsdómur féll á þann veg að hann staðfesti skilning BHMR á kjarasamningnum með samhljóða niðurstöðu. Ég tek það fram þegar ég segi samhljóða niðurstöðu að það er dálítið sérstakt vegna þess að hæstv. ríkisstjórn skipar einn dómarann í Félagsdóm.
    Þá rifjaði ég upp og reyndar höfðu aðrir gert það á undan mér að sýndarviðræður fóru fram í kjölfar Félagsdóms og síðan voru sett bráðabirgðalög þau sem nú er lagt til að staðfesta með framlögðu frv. sem hér er til umræðu.
    Ég hafði enn fremur greint frá því í minni ræðu að ekki var nægur meiri hluti til staðar hér í hv. deild til þess að málið næði fram að ganga. Og ég rifjaði upp og skýrði frá hvaða hugmyndir hefðu verið uppi hjá hæstv. ríkisstjórn um að hundsa þingræðisregluna, þ.e. að rjúfa þing, en þá hefðu bráðabirgðalögin að sjálfsögðu úr gildi fallið, og síðan að setja sömu lög eða a.m.k. lög með nákvæmlega sömu efnisatriðum þrátt fyrir það að enginn nýr meiri hluti hefði myndast.

Þetta er auðvitað þvert á þingræðisregluna því auðvitað hefði hæstv. ríkisstjórn átt að vera ljóst að henni bar annaðhvort að segja af sér og fá öðrum stjórnartaumana eða að reyna að ná meiri hluta við bráðabirgðalögin, óbreytt eða breytt, og standa þannig á þeim lýðræðisvenjum sem gilda hjá þeim þjóðum sem kallaðar eru lýðræðisþjóðir.
    Það er ástæðulaust að fara mörgum orðum um þessa upprifjun. Ég bendi á, og það kemur fram í nál. 2. minni hl., að frá upphafi var ljóst að um verulega hækkun var að ræða í BHMR-samningnum enda var bókstaflega talað um það að 4,5%, þessi refsiprósent, ,,kæmu upp í væntanlega hækkun``, svo ég fari orðrétt með.
    Ég minni á það jafnframt að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir í málgagni sínu að hin beina þátttaka hæstv. ríkisstjórnar í samningagerðinni gæfi auðvitað til kynna að ríkisstjórnin teldi sig pólitískt og persónulega skuldbundna til að vinna það verk sem fram undan væri í einlægni og byggja upp trúnaðartraust á nýjan leik. Með þessum orðum er auðvitað alveg ljóst að hæstv. ráðherrar tóku að sér að efna samninginn sem best þeir gátu.
    Ég minni á jafnframt að í málgagni hæstv. ráðherra komu fram mjög skýr sjónarmið um þessi atriði. Þar á meðal sagði orðrétt, hinn 2. febr. eða daginn eftir að samningar voru undirritaðir, ,,að það væri banabiti verkalýðshreyfingarinnar ef hún ætlaði sér að fá samningi BHMR rift og varla hægt að ætla neinum slíkt brot á grundvallarmannréttindum``.
    Ég minnti á hvernig hæstv. fjmrh. hundsaði aðvaranir Einars Odds Kristjánssonar, formanns VSÍ, og gekk svo langt að segja nánast að formaður Vinnuveitendasambandsins væri ekki læs, hann hefði ekki kynnt sér kjarasamninginn. Síðar kom auðvitað annað í ljós.
    Þegar síðan gengið var til þess verks að undirbúa bráðabirgðalögin var ljóst að það stóð talsvert í þingmönnum Alþb. að samþykkja hvernig fara skyldi að. En alþýðubandalagsráðherrarnir og nokkur hluti þingflokksins beit á það agn að í raun og veru væri ekki annað að gerast en það að binda með lögum þá samninga sem þegar væri búið að gera en aðrir samningar væru lausir. Eða eins og hæstv. menntmrh. orðaði það í Þjóðviljanum þá var það að hans áliti þannig að hægt væri fyrir þá sem hefðu lausa samninga að semja sig frá þjóðarsáttinni. Orðrétt sagði hann: ,,En það grundvallaratriði verða menn að hafa í huga að allir sem á annað borð hafa lausa samninga geta, ef þeir ná til þess stöðu, samið sig frá þessu þannig að mannréttindaákvæði laga, stjórnarskrár og leikreglna í þjóðfélaginu eru á sínum stað, hvort sem um er að ræða rétt til uppsagnar, samninga og verkfalla. Pólitískt séð fyrir Alþýðubandalagið er þetta meginatriði í mínum huga.``
    Þetta er orðrétt haft eftir hæstv. menntmrh. í Þjóðviljanum þegar bráðabirgðalögin höfðu verið sett.
    Þetta gefur auðvitað tilefni til þess að álíta að hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér ekki að gera neitt ef þeir sem hefðu lausa samninga hefðu samið um allt annað en það sem í þjóðarsáttinni stendur. Auðvitað hefur annað komið á daginn. Það er ljóst að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki og mun ekki og ætlaði sér aldrei að þola það að nokkur aðili gengi á svig við þjóðarsáttina.
    Ég minni á að dómur Félagsdóms var ákaflega skýr. Í honum var undirstrikuð sú staðreynd að áhrif samningsins voru þekkt frá upphafi og hlutu að hafa sams konar áhrif hvort sem þjóðarsáttin svokallaða var gerð eða ekki. Og eins er bent á þann sjálfsagða hlut að leitað verði samkomulags áður en annar aðili að þessum samningi tekur einhliða ákvarðanir um efnisatriði.
    Áður en ég vík að framhaldi míns máls og fylgi eftir því sem kemur fram í nál. langar mig til þess að drepa á örfá atriði sem fram hafa komið, bæði í umfjöllun um nál. sem voru rædd hér á síðasta fundi, og eins úti í þjóðlífinu eftir að ég flutti fyrri part ræðu minnar. Ég minni á að í meirihlutaálitinu er byggt á tveimur atriðum. Annars vegar er birt greinargerð ríkislögmanns, sem er vörn ríkislögmanns fyrir hæstv. ríkisstjórn í dómsmáli sem er rekið fyrir bæjarþingi Reykjavíkur. Síðan er látið að því liggja, bæði hér í ræðu á Alþingi og eins í umfjöllun í dagblöðum, þar á meðal í málgagni Framsfl., að hér sé komin álitsgerð ríkislögmanns. Þetta er auðvitað alrangt. Staðreyndin er nefnilega sú, og það skiptir afar miklu máli að við gerum okkur öll grein fyrir því og vænti ég þess að hæstv. forsrh. leggi hlustirnar við, hann hefur stundum haldið því fram að hann væri bara verkfræðingur, en ekki lögfræðingur eins og faðir hans og forveri hér í stól, en þar sem hæstv. forsrh. er bara verkfræðingur er kannski kominn tími til þess fyrir hann að átta sig á því hver er munurinn á greinargerð verjanda í máli og álitsgerð lögfræðinga þegar um er beðið. Munurinn er þessi:
    Þegar lögfræðingur, þar á meðal ríkislögmaður, er beðinn um álitsgerð setur hann niður á blað það sem hann telur vera sannast og réttast um lög og rétt eða réttarfylgjur,
áhrif af einhverjum tilteknum atburðum eða því sem fyrir liggur. Það heitir álitsgerð og það má kannski, fyrir þá sem þekkja ekki mikið til slíkra mála, líkja því við það að viðkomandi lögfræðingur, hvort sem það er ríkislögmaður eða einhver annar, setur sig í dómarasæti. Hann hugsar sem svo: Hvernig mundi ég fara að væri ég dómari?
    Þegar hins vegar sami lögfræðingur, hvort sem það er ríkislögmaður eða einhver annar, er beðinn um að taka að sér vörn í einhverju máli, eða sókn, setur hann sig í allt aðrar stellingar. Það er grundvallaratriði í okkar lögum að slíkir verjendur finni allt sem tiltækt er til að verja viðkomandi aðila eða til að sækja mál fyrir viðkomandi aðila. Og það gengur meira að segja svo langt í íslenskum rétti að þegar saksóknari á í hlut er óheimilt að dæma á grundvelli málsástæðna sem ekki koma fram í sókn málsins. Ef dómararnir sjá það út að það er eitthvað athugavert og þeir vilja gjarnan dæma vegna þess að það liggur fyrir eitthvað sem þýðir að sök sé sönnuð, eða það sé

sök í málinu, má því ekki dæma nema saksóknarinn hafi lagt það til í sínum málflutningi og það sama á við um alla lögfræðinga: Þegar þeir sækja í máli eða verjast í máli draga þeir allt tiltækt til. Þar á meðal ber þeim, ef þeir eru að verja t.d. nauðgara eða morðingja, að finna allar tiltækar ástæður sem geta dregið úr því að maðurinn sé dæmdur samkvæmt þyngstu refsingu. Þetta er skyldan í okkar lýðræðislandi, okkar réttarríki, þar sem sakborningar og aðrir eiga rétt á því að leita til dómstóla og fá öll sjónarmið upplýst.
    Nú gengur hæstv. ríkisstjórn svo langt í þessu máli að kalla greinargerð verjanda síns álitsgerð. Svo langt er gengið. Ég staðhæfi hér og nú: Það hefur aldrei verið leitað álits ríkislögmanns í þessu máli og því miður hefur það ekki verið gert því að hefði það verið gert er ég sannfærður um að ekki hefði farið svo illa fyrir hæstv. ríkisstjórn eins og nú hefur sannast, að þurfa að grípa til þess óyndisúrræðis, eftir að félagsdómur er fallinn, að setja bráðabirgðalög í þessu landi. Hefði það gerst fyrr eða hefði hæstv. ríkisstjórn lagt fram frv. á Alþingi hefði málið horft allt öðruvísi við. Á þetta vil ég leggja áherslu. Þetta er annað atriðið sem kemur fram í þeirri málsvörn sem heitir meirihlutaálit nefndarinnar í þessu máli.
    Hitt atriðið er það að birtur er spádómur Þjóðhagsstofnunar og síðan er sagt: Ef bráðabirgðalögin falla, þá stendur þjóðarvá fyrir dyrum. Verðbólgan rýkur upp í 20%, 40% og eitthvað þaðan af verra. Þetta er síðan tekið sem einhver sannleikur. Ef menn lesa nú fskj. I sem fylgir meirihlutaálitinu kemur í ljós að Þjóðhagsstofnun hefur sjálf verulega fyrirvara. Þjóðhagsstofnun segir sjálf: Í fyrsta lagi er túlkun kjarasamnings BHMR ekki vafalaus. Í öðru lagi er ýmislegt óljóst um viðbrögð annarra aðila vinnumarkaðarins og í þriðja lagi er álitamál hvaða gengisforsendur skuli leggja til grundvallar. --- Síðar er sagt: ,,Þann almenna fyrirvara verður að gera um útreikninga af þessu tagi, að hér er reiknað með fullkominni sjálfvirkni milli verðlags annars vegar og launa og gengis hins vegar.`` Og að lokum er sagt: ,,Rétt er hins vegar að leggja áherslu á að þetta eru ekki ótvíræðar niðurstöður því óvissuatriðin eru mörg í þessum dæmum.``
    Svo gerist það að hagfræðideild Seðlabankans sem getur gert sams konar spádóma kemst að annarri niðurstöðu vegna þess að hún gefur sér aðrar forsendur. Hún gefur sér þær forsendur að hér sitji í landinu ríkisstjórn sem láti ekki allt yfir sig ganga og hér séu í landinu aðilar á vinnumarkaðinum sem muni grípa til viðeigandi ráðstafana áður en verðbólgan verði 1.000 eða 200.000% eða hvað hún mundi verða ef þessu héldi áfram. Og þá gerist það allt í einu að það er hringt niður í Seðlabanka. Einn af hæstv. ráðherrum hringir og segir: Þetta gengur ekki upp. Við viljum fá nýtt álit.
    Síðan hefjast umræður um það að í áliti Seðlabankans sé að finna einhvern dónaskap gagnvart öðrum stofnunum þjóðfélagsins og sérstaklega því áliti sem kom frá Þjóðhagsstofnun. Nú vill svo til að Þjóðhagsstofnunarálitið er dagsett 3. des. en Seðlabankaálitið er dagsett 30. nóv., eða fjórum dögum áður en hitt álitið er gefið. Samt sem áður er því haldið fram að þarna sé Seðlabankinn að ráðast á Þjóðhagsstofnun. Vera má að Seðlabankinn hafi haft í huga það sem Þjóðhagsstofnun gerði í sumar 22. júní, en þetta er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá að hæstv. ríkisstjórn þolir ekki að fá annað álit, fá annan spádóm sem byggir á öðrum forsendum en þeim sem hún sjálf vill gefa. Hún gengur svo langt að virða ekki sjálfstæði Seðlabankans, heldur er einn af ellefu hæstv. ráðherrunum sendur, gerður út af örkinni, sendur niður í kastalann undir Svörtuloftum og látinn segja: Þetta var ekki gott álit hjá ykkur, strákar mínir. Þið verðið að skrifa annað álit og helst að biðjast afsökunar. --- Þetta gerði Seðlabankinn, blessuð sé minning sjálfstæðis hans, og þar með ætlar ríkisstjórnin að hreinsa sig af þessu máli.
    Það er aðeins eitt sem stendur eftir og það er það að það skiptir öllu máli hvaða forsendur menn gefa sér þegar þeir eru að fá spádóma út og það skiptir þess vegna öllu máli að átta sig á því að allir þessir spádómar, hvort sem þeir koma frá Seðlabankanum, Þjóðhagsstofnun, hæstv. ríkisstjórn eða hverjum öðrum, eru auðvitað ekkert algildir, eru enginn sannleikur. Þetta eru spádómar sem byggjast á forsendum sem menn gefa sér. Í raun og veru hefur Þjóðhagsstofnunin sjálf sagt það sem þarf að segja með öllum þeim fyrirvörum sem hún hefur í þessu máli. Það er hins vegar til skammar fyrir hæstv. ríkisstjórn að hún skuli æpa upp yfir sig út af þessum málum og segja: Nú fer allt í bál og brand, nú fer allt til fjandans, því það er ekki svo nema hæstv. ríkisstjórn reikni með að hún grípi til engra aðgerða í kjölfar þess að bráðabirgðalögin falla. Nú skulu menn hafa það í huga að það getur vel verið að dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að bráðabirgðalögin séu löglaus. Þá þýðir ekkert að hringja í Þjóðhagsstofnun og þá þýðir ekkert að hringja í Seðlabankann --- eða hvað? Getur kannski verið að hæstv. ríkisstjórn hugsi sér í framhaldi af slíkri dómsniðurstöðu enn á ný að misnota vald sitt?
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi hér strax fram. Þetta varðar málflutning hæstv. ríkisstjórnar og þess manns, hv. 1. þm. Norðurl. v., sem hefur tekið að sér að verja hæstv. ríkisstjórn hér í þingsölunum með því að birta ræður verjanda og spádóma Þjóðhagsstofnunar sem ég nú hef gert að umtalsefni.
    En það hefur til viðbótar gerst ýmislegt. Þar á meðal hafa tveir mætir lögfræðingar, hæstaréttarlögmenn, sagt álit sitt á þessum bráðabirgðalögum og í málgagni Alþb. og hæstv. fjmrh. er sagt frá þessu í dag með þessum orðum, með leyfi forseta: ,,Bráðabirgðalögin á kjarasamning BHMR eru eitt hörmulegasta dæmið í langan tíma um siðlausan framgang stjórnmálamanna, sagði Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur m.a. á ráðstefnu um siðferði stjórnvalda sem haldin var í gær á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna.`` Síðan er vitnað í Eirík Tómasson hæstaréttarlögmann, en það er sami maðurinn og áður var aðstoðarmaður dómsmrh., en þá sat í sæti dómsmrh. fyrrv. formaður Framsfl. Ólafur Jóhannesson. ,,Eiríkur Tómasson lögfræðingur tók í sama streng og Jóns Steinar og sagði bráðabirgðalögin vera gróft dæmi um siðferðisbrest í íslenskum stjórnmálum.``
    Ég hirði ekki um að lesa meira, en þeir sem vilja kynna sér þetta geta lesið Þjóðviljann í dag.
    Með öðrum orðum: Þetta eru ekki neinar pólitískar ofsóknir á hendur hæstv. ríkisstjórn. Það eru menn framarlega í flokki hæstv. forsrh. sem gefa þessar einkunnir og nú síðast í gær.
    Nú hverf ég að því, virðulegi forseti, þar sem frá var horfið í framsöguræðu minni sl. fimmtudag. Ég var kominn að því að ræða um það að hæstv. ríkisstjórn væri mesti ógnvaldur þjóðarsáttarinnar og það var einmitt þá sem ég bað um að hæstv. fjmrh. yrði viðstaddur. --- Varla er hann núna í heimsókn uppi á spítala því hæstv. forsrh. er mættur í salinn. Það liggur við, virðulegi forseti, að það verði að biðja um tjóðurband á virðulega ráðherra. En til að tefja ekki enn einu sinni vegna fjarveru hæstv. fjmrh. held ég áfram. Og ég er að fjalla hér um það að þjóðarsáttin svokölluð snerist auðvitað ekki eingöngu um það að launþegar í þessu landi ættu að taka á sig 15% kjaraskerðingu og það ætti að ná niður verðbólgu. Ein helsta ástæða fyrir því að menn tóku höndum saman, í öllum stjórnmálaflokkum, hygg ég, og sögðu: Við erum tilbúin að taka þetta á okkur og fyrirtækin voru tilbúin til að hagræða hjá sér, var sú að við héldum að hæstv. ríkisstjórn mundi nota tímann og tækifærið til þess að koma með lausnir sem gætu verið lausnir til frambúðar, gætu tekið til í þjóðarbúskapnum með þeim hætti. Það er nú öðru nær. Hæstv. ríkisstjórn hefur í raun og veru gert hið þveröfuga. Hún hefur, að segja má, sjálf verið að grafa undan þessari þjóðarsátt.
    Í fyrsta lagi hefur hæstv. ríkisstjórn ekki tekist að ná valdi á útgjöldum ríkisins. Síþensla ríkisútgjalda heldur áfram þótt nú sé reynt með bókhaldsbrögðum að fela útgjaldaaukninguna. Eigið fé sjóða er látið rýrna með því að skera niður ríkisframlög án þess að fjárhagur þeirra sé efldur með öðrum hætti. Stórfellt tap sjóða, svo sem Byggðasjóðs, Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs, er falið. Framlög ríkissjóðs til lífeyrisskuldbindinga vegna opinberra starfsmanna eru þurrkuð út. Hvergi kemur fram í ríkisbókhaldi að lántaka Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins á sínum tíma hafi fallið á ríkissjóð. Á hverju hausti kynnir síðan hæstv. fjmrh. nýtt tímamótafrv., sem hann kallar það gjarnan, til fjárlaga, ,,hornstein að stöðugleika í efnahagsmálum`` held ég að hann hafi sagt síðast. En þegar upp er staðið og málið kannað kemur í ljós að afkoma ríkissjóðs er um 6 -- 7 milljörðum króna verri en þessi tímamótaplögg hæstv. fjmrh. gerðu ráð fyrir og það er öllum ljóst að slíkur hallarekstur á ríkissjóði er verðbólguhvetjandi.
    Síðan hefur hæstv. ríkisstjórn sífellt verið að hækka skattana. Ég ætla ekki að telja upp alla þá skatta sem hafa verið hækkaðir á undanförnum árum, en nýjasta dæmið er það að hæstv. ríkisstjórn áformar nú að hækka skattana um tvo milljarða.
    Það er kannski ástæða til þess að láta reikna það

út hvaða verðbólguáhrif það mundi hafa ef skattarnir mundu hækka eins og hæstv. fjmrh. vill. Ég er nefnilega hræddur um að verðbólguáhrifin af slíkum skattahækkunum yrðu meiri en ef bráðabirgðalögin féllu úr gildi en ríkisstjórnin og aðrir brygðust við með þeim hætti sem eðlilegt væri.
    Í þriðja lagi, og það er óþarfi að vera langorður um það, má benda á að peningamagn í umferð hefur aukist talsvert umfram verðbólgutölur að undanförnu. Á þetta hefur rækilega verið minnt. Þar á meðal hefur dr. Guðmundur Magnússon háskólaprófessor gert það eftirminnilega á spástefnu Stjórnunarfélagsins. Þetta er út af fyrir sig í lagi á meðan fyrirtækin eru að bæta sína skuldastöðu og sparnaðurinn vex, en það eru samt sem áður gífurleg hættumerki í þessum málum, ekki síst vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki séð peningamálin í friði, m.a. vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur með handafli verið að hafa áhrif á bankaráð ríkisbankanna þannig að vextir hækki ekki eðlilega þegar þrýstingurinn vex á fjármagnsmarkaðnum, aðallega fyrir tilstilli hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég minni á að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að hann hafi talað við bankaráðsmenn sína og sagt þeim að koma í veg fyrir hækkun vaxta. --- Óskaplega hlýtur nú maðurinn að vera góður, segir fólkið í landinu. Hæstv. forsrh. ætlar að koma í veg fyrir að vextir hækki. --- En þetta er bara ekki svona einfalt. Það er nefnilega þannig að ríkissjóður þarf peninga og ríkissjóður þarf miklu meiri peninga en áætlað hafði verið og þá peninga þarf ríkissjóður að sækja til þeirra sem leggja til hliðar fjármuni. Ef nægir fjármunir eru ekki til þarf að hvetja fleiri til að spara. Hvernig er það gert? Það er gert með hærri vöxtum. Og hverjir standa fyrir hæstu vöxtunum? Það er ríkissjóður sjálfur. Bæði hann beinlínis og eins þeir sem gefa út húsbréfin eða ábyrgjast þau.
    Þannig er að hæstv. forsrh. þykist vera að lækka vextina en svo er púkanum í ríkisstjórninni, hæstv. fjmrh., sem hæstv. forsrh. sífellt kennir um þegar einhver mistök verða, síðast í þessum bráðabirgðalagamálum, kennt um. Og hann tekur því af stakri karlmennsku því að hann veit að hann hefur ekki úr háum söðli að detta.
    Þessu til viðbótar hefur hæstv. ríkisstjórn verið að safna vandamálum og sérstaklega í kjaramálunum. Það kann, virðulegi forseti, að vera athygli vert að fylgjast með því hvað stéttarfélögin eru að hugsa um þessar mundir.
    Nýlega kom út blaðið Lögreglumaðurinn og í Formannshorninu, en það er lítil grein sem formaður Landssambandsins skrifar, segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Landssambands lögreglumanna hefur undanfarið rætt það ítarlega hvað við muni taka þegar samningur okkar og annarra stéttarfélaga rennur út í ágústmánuði á næsta ári. Eitt er víst og það er að lögreglumenn munu ekki, að öllu óbreyttu, taka þátt í neins konar samfloti og hið sama hygg ég að gildi um önnur stéttarfélög. Félögunum hefur ekki gefist kostur á neinum raunhæfum viðræðum um sérmál sín um

langt skeið og því munu þau ekki una lengur. Svo mikið hefur safnast saman af margvíslegum málefnum að þegar stíflan opnast verður flóð.
Krafist verður hækkunar á launum og lausn fjölda mála af miklum þunga. Því munum við vafalaust fara fram einir og sér, rétt eins og aðrir.`` Og síðar í þessari grein segir: ,,Ekki þurfa menn að búast við árangri í þeim samningum sem fram undan eru ef þeir búa sig ekki undir aðgerðir. Þær verða harðar, enda fullreynt að ríkisvaldið gefur ekki eftir fyrr en í fulla hnefana. Það mun skáka í því skjólinu að lögreglumenn hafi ekki verkfallsrétt. Það er vissulega rétt en fleiri leiðir eru til og þær verða farnar, hver á fætur annarri og samhliða, eftir því sem nauðsyn krefur. Þannig bætum við okkur upp missi verkfallsréttarins, þær verða jafngildi hans.``
    Hér er verið að segja að safnast hafi saman á tímabili þessarar hæstv. ríkisstjórnar mikið af vandamálum sem landssamböndin, verkalýðsfélögin, munu sækja af miklu kappi þegar þjóðarsáttinni lýkur. Ég sagði þjóðarsáttinni lýkur, því hæstv. forsrh. hefur sagt að hitt og þetta gerist þegar þjóðarsáttinni ljúki. Í sumar lögðu hæstv. fjmrh. og hæstv. starfandi forsrh. til að kauphækkuninni sem átti að renna til BHMR yrði frestað. Í raun og veru er það ein af meginspurningunum hvernig hæstv. ríkisstjórn sér framhaldið eftir 1. sept. nk.
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Sjálfstfl. hafa margoft lýst stuðningi sínum við meginmarkmið kjarasamninganna sem hlotið hafa nafnið þjóðarsátt. Ólögmætar aðgerðir, bráðabirgðalög á dómsniðurstöðu og siðlaus framkoma ríkisstjórnar gagnvart viðsemjendum sínum geta hins vegar aldrei orðið hluti af þjóðarsátt. Hæstv. ríkisstjórn tók að sér að tryggja aðild BHMR að þjóðarsáttinni svokölluðu þegar aðilar vinnumarkaðarins skrifuðu undir kjarasamning sinn 1. febr. Þrátt fyrir margar aðvaranir lét ríkisstjórnin undir höfuð leggjast að ræða við BHMR um samstarf á þeim grundvelli. Þannig hafnaði hæstv. ríkisstjórn því að fara lögmætar leiðir til að fá BHMR til þátttöku. Hún valdi einhliða samningsrof í stað samningsumleitana. Hún neytti ekki þess úrræðis að grípa til löggjafarvaldsins á meðan þing sat og enn voru tækifæri. Hún kaus að beita bráðabirgðalögum eftir að æðsti dómstóll hafði kveðið upp sinn dóm. Slíkt er af mörgum talið stjórnarskrárbrot. Á slíkum aðgerðum getur Sjálfstfl. ekki tekið ábyrgð. Það gildir einu þótt slík afstaða gegn lögleysu og óréttlæti kunni að kosta óvinsældir um stundarsakir. Í þeirri stöðu sem upp kom á Alþingi þegar ljóst var að hæstv. ríkisstjórn hafði misst meiri hluta sinn jafngilti hjáseta Sjálfstfl. því að hann tryggði framgang frv. og bæri ábyrgð á bráðabirgðalögunum. Þess vegna hlaut þingflokkur sjálfstæðismanna að taka þá ákvörðun að greiða atkvæði gegn frv. Þess vegna mun ég, virðulegi forseti, leggja til að frv. verði fellt.
    Það skal tekið fram að annar tveggja fulltrúa Sjálfstfl. í hv. fjh. - og viðskn., hv. þm. Matthías Bjarnason, 1. þm. Vestf., var veikur við afgreiðslu málsins og er það reyndar enn.

    Ég vil benda þingheimi á þau fylgiskjöl sem fylgja með nál. því að ég tel að þau upplýsi ótal margt um þetta mál. Það er vissulega fróðlegt að lesa orð sem sögð hafa verið í tengslum bæði við kjarasamninginn við BHMR og ekki síður tilurð og aðdraganda bráðabirgðalaganna. Þar er mikið talað um ábyrgð, frjálsan samningsrétt og siðgæði. En þegar Páll Halldórsson, formaður BHMR, er að tala við flokksbróður sinn, hæstv. fjmrh., þá minnir hann flokksbróður sinn á það að hann hafi á sínum tíma, þegar hæstv. ráðherra var í stjórnarandstöðu, hvatt til ólögmætra verkfalla. Á meðan þetta stendur svart á hvítu verður það að teljast satt vera meðan hæstv. ráðherra neitar því. Það er einnig athygli vert að lesa viðtal við hæstv. forsrh. þar sem hann lýsir því yfir að hann ætli að standa við samkomulagið við BHMR og hann hafi áður lýst því yfir að hann vilji gera það.
    Ég bendi á að í fylgiskjölunum eru greinar eftir tvo hæstaréttarlögmenn. Ég bendi sérstaklega á lokaorð Árna Grétars Finnssonar og lokaorð í II. kafla í grein Jóns Steinars Gunnlaugssonar. Ég birti hér grein hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar frá því í sumar. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um það sem þar kemur fram. Ég minni á að BSRB hefur allan tímann verið á móti því að sett hafi verið bráðabirgðalög þótt sumir hafi látið í annað skína. Ég bendi á lagarökin sem koma fram hjá þeim sem eru sækjendur í því dómsmáli sem nú hefur verið hafið. Og ég bendi á að í bréfi frá Vinnuveitendasambandinu sem var sent til mín kemur fram með skýrum hætti að Vinnuveitendasambandið telur að ekki megi undir nokkrum kringumstæðum auka skattheimtuna án þess að það sé brot á svokallaðri þjóðarsátt. Þetta verður auðvitað til þess að ekki verður hægt að hækka skatta frá því sem þeir nú eru með þeim afleiðingum að gatið á fjárlögunum fyrir næsta ár hlýtur að stækka til mikilla muna, nema ríkisstjórnina geri það sem henni bæri að gera ef hún vill standa fyrir sitt leyti að þjóðarsáttinni, að skera niður ríkisútgjöldin.
    Með nál. er enn fremur birt ræða Guðmundar Magnússonar um þjóðarsáttina og loks er skjalið frá Seðlabankanum sem fyrir helgina varð til þess að hæstv. viðskrh. taldi sig þurfa að hafa samband við Seðlabankann. Sú aðgerð hefur verið fordæmd í blöðum. Skal ég ekki hafa fleiri orð um það því ég tel að hæstv. ráðherra hljóti að koma hér í ræðustól síðar í þessari umræðu og gera hreint fyrir sínum dyrum. Annað væri varla hægt eftir því sem hann hefur gert í því máli.
    Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherrar komi hér og hlýði á mál mitt því að nú er komið senn að lokum míns máls og mig langar til að varpa örfáum fyrirspurnum til þeirra. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að hæstv. forsrh. og fjmrh. komi hér í salinn en þeir munu ekki vera langt undan og eru væntanlegir von bráðar.) Ég þakka, virðulegi forseti, en ég skil það hins vegar mætavel að þeir vilji sem minnst á mál mitt hlýða. Það skil ég mætavel. Það er oft erfitt fyrir þá sem hafa staðið jafnilla að málum og hæstv. ráðherrar að þurfa að láta

rifja upp fyrir sér sannleikann. En sannleikurinn hleypur ekki frá þessu máli. ( Utanrrh.: Og er hann ekki sagna bestur?) Undir það tek ég, hæstv. utanrrh.
    Virðulegi forseti. Það er reyndar stórkostlegt að þetta skuli geta gerst. Á fimmtudeginum var fundi frestað vegna ráðherraskorts og nú hendir það, loks þegar þessari umræðu er fram haldið, að þá skortir enn á að ráðherrarnir mæti. Ég tek það líka fram að það var mikil pressa á okkur lögð um að skila nál. og hafa þessa umræðu fyrir helgi og aftur í dag. ( Forseti: Ráðherraskortur svokallaður er ekki með öllu óþekkt fyrirbæri hér í þinginu, en hæstv. fjmrh. var bundinn áðan í umræðum í hv. Ed. þar sem hann mælti fyrir frv. Ég veit ekki annað en hann sé væntanlegur og sömuleiðis hæstv. forsrh. til starfa hér í deildinni.) Virðulegi forseti. Ég hef mátt þola það að ráðherrar hafi verið hér á ferð og flugi og látið það átölulaust. En nú er komið að lokaorðum og ég ætlaði að leyfa mér að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra og taldi að möguleiki væri að fá a.m.k. annan þeirra hér í salinn. ( Forseti: Forseti hefur þær fregnir réttastar að fjmrh. sé nú væntanlegur. Forsrh. mun bundinn í símtali við útlönd. Þarna kemur fjmrh. sjálfur í salinn og er þá ekki ástæða til að fresta fundi.)
    Virðulegi forseti. Það er nú senn komið að því að ég ljúki máli mínu. Ég vil í lokin spyrja örfárra spurninga sem ég óska eftir að hæstv. ráðherrar svari. Í fyrsta lagi vil ég spyrja að því hvort það sé enn stefna hæstv. ríkisstjórnar að aðilar með lausa samninga megi semja sig frá þjóðarsáttinni, eins og hæstv. menntmrh. hefur orðað það. Ber að skilja þau ummæli hæstv. menntmrh. á þá leið að hæstv. ríkisstjórn hyggist ekki grípa til aðgerða ef samningar verða með þeim hætti að þeir stangist á við svokallaða þjóðarsátt?
    Í öðru lagi, og það er kannski fyrst og fremst fyrirspurn til hæstv. fjmrh.: Hvað þýðir það þegar hæstv. fjmrh. segir að ráðherrarnir sem tóku þátt í kjarasamningagerðinni við BHMR væru persónulega og pólitískt skuldbundnir af niðurstöðu kjarasamningsins? Þetta er óvenjulegt orðalag en miðað við það sem á eftir kom finnst mér vera full ástæða til þess að spurt sé: Hvað þýðir þetta orðalag, sem er beint upp úr ummælum hæstv. fjmrh. þegar hann hafði samið við BHMR í fyrra?
    Í þriðja lagi til þeirra beggja eða annars hvors þeirra. Af hverju var ríkislögmaður ekki inntur álits um það hvort beita þyrfti lögum eða að leita samninga við BHMR á tímabilinu frá 1. febr. til 3. júlí? Mér er kunnugt um það að 3. júlí fékk ríkislögmaður til sín stefnuna sem kom frá BHMR en ég tel, eða a.m.k. hefur annað hvergi komið fram, að ríkislögmaður, sem er lögfræðilegur ráðunautur hæstv. ríkisstjórnar, hafi aldrei verið inntur álits allan þennan tíma.
    Í þessu sambandi vil ég minna á að hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefán Valgeirsson hefur lagt fram fyrirspurn um þetta efni. Þetta er sáraeinfalt. Það er að hér komi fram upplýsingar um það við 2. umr. málsins, mér finnst það vera langeðlilegast, upplýsingar um það

til hverra var leitað. Hvaða skriflegar álitsgerðir lágu fyrir um þetta mál? Ég minni á að hæstv. forsrh. hefur sagt það hér og sagði við 1. umr. málsins að ríkislögmaður hefði ekki verið spurður. Hann minnti hins vegar á að hann hefði leitað álits hjá sínum aðstoðarmanni, Jóni Sveinssyni, sem er lögfræðingur. En hann sagði, svo að ég stílfæri hans orðalag, að í raun hefði hæstv. ríkisstjórn trúað á það sem hæstv. fjmrh. sagði og hengdi þannig bjölluna á köttinn. Þess vegna finnst mér ástæða til þess að hæstv. fjmrh. fái tækifæri til að verja hendur sínar.
    Þá vil ég spyrja að því: Telja hæstv. ráðherrar --- og ég tel ekkert óeðilegt að forustumenn Alþfl., þeir tveir hæstv. ráðherrar sem hér eru staddir, taki þátt í umræðunni, segi sitt álit á því --- það samrýmast þingræðisreglunni að rjúfa þing og setja á ný bráðabirgðalög sem ekki hafa notið meiri hluta á þinginu og urðu orsök þess að um þingrof var að ræða? Telja þeir þetta byggjast á góðum lýðræðisvenjum og telja þeir þetta í fullu samræmi við þingræðisregluna?
    Þá langar mig til að spyrja hæstv. forsrh., og ég býst við að hæstv. viðskrh. vilji fá þá spurningu líka, en hún er þessi: Er það algengt og er það títt hjá þessari hæstv. ríkisstjórn að einstakir ráðherrar hringi eða gangi á fund seðlabankastjórnar og biðji hana að leiðrétta álit sem sent hefur verið frá bankanum? Ef það er algengt, þá séu nefnd dæmi um slíkt.
    Þá langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh. að því: Hefur hæstv. ríkisstjórn tekið upp viðræður við BHMR um launamál og hefur hæstv. ríkisstjórn verið að undirbúa jarðveginn, undirbúa það sem koma skal þegar þjóðarsátt lýkur? Þetta er nú svo smekklega orðað hjá hæstv. forsrh. stundum. Og þá í beinu framhaldi af því: Hvað tekur við þegar þjóðarsáttinni lýkur? Við hvað ætla hæstv. ráðherrar að standa þá? Það kemur nefnilega í ljós að hæstv. ráðherrar hafa lofað BHMR ákveðnum launahækkunum umfram aðra. Þeir hafa lýst því yfir að um frestsaðgerð sé að ræða, þeir lýstu því yfir í sumar að það væri frestun á hækkuninni, eða eru þeir enn bundnir af loforðinu gagnvart Vinnuveitendasambandinu og Alþýðusambandinu? Nú stangast þessi loforð á. Það kann að vera framlag til þessa máls að átta sig á því núna því að auðvitað er hæstv. ríkisstjórn ábyrg fyrir framkvæmd þjóðarsáttarinnar. Við hvort loforðið ætlar hæstv. ríkisstjórn að standa, loforðið gagnvart aðilum vinnumarkaðarins eða loforðið gagnvart BHMR? Þau ganga alveg í gagnstæðar áttir. Ég vildi gjarnan heyra það hvort loforðið þeir ætla að svíkja því að loforðin eru ósamrýmanleg. Ég býst nú raunar við að það verði svarið að þeir ýti þessu til næstu ríkisstjórnar, þeir eru vanir því, hafa ýtt öllum vandamálum fram yfir næstu kosningar.
    Virðulegi forseti. Með þessum fyrirspurnum tel ég mig hafa lokið við að fara yfir nál. 2. minni hl. Ég hef gert ítarlega grein fyrir okkar sjónarmiðum enda full ástæða til. Þetta mál hefur vakið mikla athygli. Ég hef bent á það hvernig að þessum málum hefur verið staðið. Ég tel mig hafa sýnt fram á að um siðlausa aðgerð var að ræða. Ég tel að það sé útilokað fyrir

stjórnarandstöðuna, a.m.k.
tala ég þar fyrir mig, að við greiðum atkvæði á þann veg að ætla megi að við vildum bera ábyrgð á þessari gerð. Það hefðum við gert ef það hefði staðið eins og á stóð í síðustu viku eða vikunni þar áður þegar ljóst var að stjórnin hafði misst meiri hluta sinn í þessu máli.
    Ég vænti þess enn fremur að hæstv. ráðherrar, og ég fagna því að þeir hafi séð ástæðu til þess að vera viðstaddir hér í dag, taki þátt í þessari umræðu og svari greiðlega þeim fyrirspurnum sem til þeirra hefur verið beint. Þetta mál er þannig vaxið að það þarf að fara mjög rækilega ofan í saumana á því. Þetta er mál sem getur orðið fordæmi í okkar þjóðfélagi. Þetta er mál sem er þannig vaxið að sumir hafa talið að með því væri gengið svo langt að það yrði að breyta stjórnarskránni í framhaldi af því til að slíkt komi ekki upp aftur. Það er a.m.k. ljóst frá mínum bæjardyrum séð að hér hefur átt sér stað árás á réttarríkið, árás á þau gildi sem réttarríkinu er ætlað að verja. Og í slíkri árás mun ég ekki taka þátt.