Launamál
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir mjög einstæðu pólitísku upphlaupi í tengslum við þetta mál og þá ákvörðun þingflokks sjálfstæðismanna að greiða atkvæði gegn því staðfestingarfrv. bráðabirgðalaga sem hér er til umræðu. Þegar svo stóð á að fylgismenn hæstv. ríkisstjórnar treystu sér ekki til þess að lýsa því yfir hér á Alþingi, allir saman, að þeir ætluðu að styðja þetta mál sem ríkisstjórnin sjálf hafði gert að fráfararatriði og hæstv. forsrh. hafði lýst yfir að hann hefði fyrir fram kannað að meirihlutavilji væri fyrir á Alþingi, þá greip hæstv. ríkisstjórn til þess að gefa út yfirlýsingar, þegar hennar eigin liðsmenn voru að hlaupast á brott, um að hún ætlaði sjálf að fella bráðabirgðalögin úr gildi með því að rjúfa þing og setja svo bráðabirgðalög að nýju þegar Alþingi hefði verið sent heim, þingmenn sviptir umboði sínu og landið að því leyti þinglaust. Hér var um að ræða hótun um pólitískt gerræði, ögrun við stjórnskipun landsins. Og við svo búið hlutu landsmenn að leggja allt traust á forseta Íslands, sem menn að öðru jöfnu óska ekki eftir að blandi sér í stjórnmáladeilur, til þess að koma í veg fyrir að slíkt gerræði yrði unnið gegn stjórnskipun landsins. Það eru þessi atriði sem hafa verið upphlaupsatriði í þeim umræðum sem átt hafa sér stað um þetta lagafrv. síðustu daga. Það er þetta atriði, það er þessi hótun hæstv. ríkisstjórnar um gerræðisleg vinnubrögð, sem sett hefur þessa umræðu í óvenjulegt ljós. Ég tel að þessi hótun sé mjög einstæð í íslenskri stjórnmálasögu og vanhugsuð að öllu leyti.
    Það hefur líka komið á daginn þegar skoðanakannanir eru virtar, sem gerðar voru þegar best stóð á fyrir hæstv. ríkisstjórn í áróðursstríðinu, að stjórnarflokkarnir sem ætluðu að leika mikla leikfléttu með þessum gerræðislegu hótunum hefðu, ef skoðanakannanir gengju eftir, ekki fengið tilskilinn meiri hluta á nýju Alþingi. Þjóðin virtist sem sagt ekki vera tilbúin til að fylgja þeim eftir.
    Það sem er svo makalausast í málflutningi hæstv. ríkisstjórnar er að bera ásakanir á borð í garð sjálfstæðismanna um það að þeir hafi með afstöðu sinni til vinnubragða ríkisstjórnarinnar lýst andstöðu við baráttu gegn verðbólgu og þá markverðu tilraun sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu fyrr á þessu ári þegar þeir tóku fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni við stjórn efnahagsmála. Þetta er alger fjarstæða. Hér er um tvö aðgreind mál að ræða. Annars vegar baráttu við að ná niður verðbólgu og hins vegar spurninguna um það að verja lög og rétt og almennt siðgæði í landinu. Það hefur enginn sýnt fram á, og síst af öllu hæstv. ríkisstjórn, að það sé nauðsynleg forsenda þess að berja niður verðbólgu að sniðganga lög og rétt og almennar siðareglur í landinu. Þvert á móti hygg ég að flestir hljóti að vera á einu máli um að það sé forsenda fyrir því að varanlegur árangur náist í baráttu við verðbólgu og til þess að tryggja jafnvægi í efnahagsmálum að stjórnvöld fylgi almennt viðurkenndum leikreglum, fari að lögum, virði samninga og virði almennar siðareglur í landinu. Um þetta atriði hafa farið fram miklar umræður síðustu daga.
    Á fundi sem félag laganema efndi til í gær komst Sigurður Líndal prófessor svo að orði að þetta mál í heild sinni væri vitnisburður um veilu í stjórnskipun okkar sem ráða yrði bót á. Hér talar maður sem ekki verður sakaður um það að fara fram með pólitískar ásakanir eða í þeim tilgangi að draga taum eins stjórnmálaflokks á kostnað annars heldur virtur prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Það þótti ástæða til þess að efna til almenns borgarafundar um siðgæði í íslenskum stjórnmálum í tilefni af ákvörðunum sem hæstv. ríkisstjórn er að leita hér samþykktar á. Á slíkum fundi sem haldinn var í gær talaði Eiríkur Tómasson hæstaréttarlögmaður, kunnur lögmaður. Ég hygg að enginn saki hann um að bera sérstakan kala í brjósti til Framsfl. En hann komst svo að orði að bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar væru gróft dæmi um siðferðisbrest í stjórnmálum, að vísu ekki eina dæmið um siðferðisbrest en gott dæmi þar um. Það kæmi mér á óvart ef þessi mæti hæstaréttarlögmaður hefði aldrei verið kallaður til skrafs og ráðagerða um lagasetningu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. En þetta var hans dómur.
    Það er um þessi atriði sem verið er að fjalla þegar hæstv. ríkisstjórn kemur nú og biður Alþingi um viðurkenningu á sínum vinnubrögðum. Það er hlutverk Alþingis að fjalla um slík atriði í störfum framkvæmdarvaldsins. Það er skylda Alþingis að taka þau atriði til umfjöllunar og taka afstöðu til ríkisstjórnarinnar á grundvelli þess hvernig hún hefur unnið með tilliti til þessara atriða. Og það er fáránlegt og í engu rökréttu samhengi að ætla að blanda því saman við afstöðu manna til baráttu gegn verðbólgu.
    Alþingi hefur hér miklu hlutverki að gegna. Sjálfstfl. hefur alla tíð og mun líta svo á að það sé skylda hans sem stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar að standa vörð um lög og rétt og almennt siðgæði í landinu. Og þegar svo stendur á að almennt er viðurkennt, jafnt af stuðningsmönnum sem andstæðingum ríkisstjórnarflokkanna, að vinnbrögð hæstv. ríkisstjórnar hafi gengið á svig við réttar leikreglur og almennar siðareglur, þá er það skylda stjórnmálaflokkanna á Alþingi að taka þau mál til meðferðar og veita viðkomandi ríkisstjórn hæfilegt aðhald.
    Inn í þessa umræðu hafa blandast hugleiðingar um svokallaða þjóðarsátt. Menn tala um þessa þjóðarsátt í göfugum ræðum. Hún var markverð tilraun af hálfu forustumanna launamanna og atvinnurekenda til þess að brjóta niður efnahagsstefnu núv. ríkisstjórnar. Stundum virðist mér á hinn bóginn að menn líti á þá kjarasamninga eins og vængjum prýdda veru er svífi frelsandi um þjóðfélagið. Þjóðarsáttin sem hér um ræðir er í eðli sínu framkvæmd á launastefnu, alkunn aðferð við stjórn efnahagsmála. Hún hefur mörgum sinnum verið reynd hér á landi og meðal annarra þjóða. Við sjálfstæðismenn höfum bæði í ríkisstjórn og utan ríkisstjórnar verið beinir þátttakendur í tilraunum af þessu tagi. Á síðari árum hafa hagfræðingar borið fram harðari gagnrýni en áður á það að launastefna í slíkum samningum með þátttöku ríkisvalds beri varanlegan árangur, fyrst og fremst vegna þess að í framkvæmd slíkrar launastefnu er fólgin mikil miðstýring sem ekki tekur tillit til þess fjölbreytta þjóðfélags sem við byggjum. Gildir þá einu á hvaða sviði við lítum atvinnureksturinn sjálfan eða kjarasamningana eða önnur atriði. Þess eru einnig of mörg dæmi að með framkvæmd launastefnu hafi stjórnvöldum verið sniðinn of þröngur stakkur til þess að beita almennum nauðsynlegum aðgerðum við stjórn efnahagsmála. Fyrir vikið hafa vandamál of oft safnast upp í stíflu og valdið meiri sprengingu á endanum en til stóð að koma í veg fyrir.
    Þetta er hin almenna gagnrýni á framkvæmd launastefnu af því tagi sem hér var ákveðið að reyna í byrjun þessa árs. Og satt best að segja er ýmislegt sem bendir til þess að á þeim umþóttunartíma sem skapaðist hafi slíkum vandamálum verið safnað upp í stíflu. Þegar í þessari umræðu hafa ýmis dæmi verið færð fram því til sönnunar. Eigi að síður þótti okkur sjálfstæðismönnum rétt og skylt ekki aðeins að styðja þessa tilraun heldur að hvetja til þess að hún yrði gerð. Fyrir lá að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar samkvæmt spá hennar sjálfrar mundi leiða til mjög vaxandi verðbólgu á þessu ári. Og fyrir lá að ríkisstjórnin stefndi að því að kaupmáttur rýrnaði fimm sinnum meir en hæstv. ríkisstjórn áætlaði að rýrnun þjóðartekna á þessu ári yrði. Það var því mjög eðlilegt að forustumenn launamanna og atvinnurekenda freistuðu þess að gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að brjóta þessa efnahagsstefnu á bak aftur. Það verður að segja þá sögu eins og er að með þeim kjarasamningum sem gerðir voru tókst að skapa a.m.k. tímabundið svigrúm til að ná þeim markmiðum. Að því leyti var hér um að ræða mjög markverða tilraun. En ég rifja hér upp að forustumenn þessara aðila sögðu sjálfir: Það hefur enginn sigur verið unninn. Það hefur aðeins eitt skref verið stigið og eftirleikurinn byggist á því hvernig stjórnvöld halda á efnahagsmálunum.
    Á það hefur verið bent af virtum fræðimönnum eins og prófessor Guðmundi Magnússyni nú nýlega að ekki sé allt sem skyldi í þessu efni, að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki nýtt þann umþóttunartíma sem forustumenn launamanna og atvinnurekenda sköpuðu til þess að reyta verðbólguarfann upp með rótum. Arfinn hafði að vísu verið reyttur en ræturnar eru enn á sínum stað. Fyrir þessari fullyrðingu eru færð mörg rök. Á það hefur verið bent að þrátt fyrir margra milljarða skattahækkanir er enn um verulegan hallarekstur að ræða í ríkisfjármálum. Á það hefur verið bent að stór hluti af ríkisfjármálavandanum hefur einfaldlega verið færður til í bókhaldinu á milli A - og B - hluta án þess að nokkur kostnaður hafi verið færður niður til þess í raun að geta blekkt með tölum. Öll þessi vinnubrögð skara eld að verðbólgunni. Á það hefur verið bent að peningamagn í umferð hefur verið að aukast á þessu ári langt umfram almennar verðlagsbreytingar. Það skarar eld að verðbólgunni. Og á það hefur verið bent að hæstv. ríkisstjórn ætli nú að auka skatta og kostnað atvinnurekstrarins í landinu þannig

að stríði gegn forsendum kjarasamninganna. Það skarar eld að verðbólgunni.
    Lítum aðeins á þessi þrjú meginatriði þar sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að vinna gegn markmiðum kjarasamninganna sem kenndir hafa verið við þjóðarsátt. Hvers vegna hefur peningamagn í umferð aukist miklu meir en almennar verðlagsbreytingar? Hvaða ráðstafanir hefur hæstv. ríkisstjórn gert til þess að koma í veg fyrir það? Ég óska eftir því að hæstv. forsrh. geri grein fyrir því hér. Hvaða tilmælum hefur hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. beint til Seðlabankans til þess að koma í veg fyrir að svo mætti verða? Ef þetta er alfarið sök Seðlabankans, eins og hæstv. ráðherrar láta í veðri vaka, í hverju er þá ágreiningurinn fólginn milli hæstv. ríkisstjórnar og Seðlabankans? Hæstv. ríkisstjórn getur aldrei vikið sér undan því að á þessu ber hún ábyrgð. Og þetta er að brjóta niður forsendur kjarasamninganna og þjóðarsáttarinnar.
    Það hefur verið tímabundið logn á lánamarkaðinum. En Seðlabankinn var að gefa út nýja skýrslu í byrjun þessa mánaðar, dagsetta 4. des. að ég hygg. Í þeirri skýrslu segir að það logn sé að öllum líkindum svikalogn. Hvers vegna er það svikalogn? Er það vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur litið á kjarasamningana sem svikalogn og ætli að láta stíflurnar bresta eða láta skeika að sköpuðu um það þegar kosningar eru afstaðnar? Hvað hefur hæstv. ríkisstjórn gert til þess að koma í veg fyrir að jafnvægið á lánamarkaðinum, sem skapaðist vegna vaxtafrelsisins að áliti Seðlabankans, verði svikalogn? Það er harður áfellisdómur sem Seðlabankinn kveður upp í þessari skýrslu, að þetta grundvallaratriði sé svikalogn. Eða á kannski að lýsa því yfir með einhliða yfirlýsingu að þessi niðurstaða og þessi dómur Seðlabankans sé ekki til? Á að beita þeirri aðferð einu sinni enn?
    Það var veigamikill þáttur við gerð kjarasamninganna að stefnt yrði að lækkun vaxta og menn ætluðust til þess að efnahagsstefnan stuðlaði að því. Menn töldu að sá árangur sem náðst hafði vegna frjálsræðis á lánamarkaði gæti tryggt viðvarandi jöfnuð á lánamarkaðinum og menn væntu þess að í kjölfarið gætu vextir farið lækkandi. En í skýrslu sem Seðlabankinn var að gefa út kemur fram að raunvextir hafa verið að hækka mjög verulega á þessu ári.
Það er staðreyndin. Það er það sem menn hafa uppskorið á þessu ári að raunvextir hafa verið að hækka og mest á óverðtryggðum lánum sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að berjast fyrir að væru einu lánin sem lántakendur gætu fengið, um 4% á þeim lánum en 1 -- 2% á öðrum lánum, ef ég man rétt. Þetta er niðurstaða í skýrslu Seðlabankans sem var að birtast, afleiðing af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Um áramót hygg ég að vextir af spariskírteinum ríkissjóðs hafi verið um 6%. Fjmrh. lofaði hér margsinnis að þeir yrðu á miðju ári komnir niður í 5% en þeir hafa ekki lækkað úr 6% niður í 5% heldur hækkað úr 6% í rúmlega 7%.
    Þetta er staðreyndin um afraksturinn af vinnu ríkisstjórnarinnar til þess að standa við þjóðarsáttina. Og

geta hæstv. ráðherrar gefið skýringar hér á? Hvað voru þeir að gera í þeim tilgangi að standa við forsendur þjóðarsáttar sem forustumenn launamanna og atvinnurekenda gerðu? Efnahagsstefna þeirra hefur á flestum sviðum stangast á við öll þessi markmið. Fyrir liggur að hæstv. ríkisstjórn hefur tekið ákvarðanir um að hækka skatta um meira en tvo milljarða kr. á atvinnulífinu í landinu, þar á meðal launatengda skatta. Hver er munurinn á því að auka kostnað atvinnufyrirtækjanna með hærri launum eða sköttum sem leggjast ofan á launin? Hver er munurinn á verðbólguáhrifunum af því að auka kostnað atvinnufyrirtækjanna með þessum hætti eða að hækka launin og leyfa fólkinu í landinu að njóta þess? Ég hygg að kostnaðaraukinn hafi nákvæmlega sömu verðbólguáhrif. Fyrir liggja verðbólguútreikningar, byggðir á sömu forsendum og hæstv. ríkisstjórn hefur viljað viðhafa í þeim efnum, að af hennar hálfu verði ekkert gert til þess að spyrna við fótum, veita gengisaðhald eða annað aðhald við stjórn efnahagsmála og að fullkomið ábyrgðarleysi verði sýnt. Ef þær forsendur eru fyrir hendi sem hæstv. ríkisstjórn hefur sjálf kosið að efnahagssérfræðingar gangi út frá mundi slík skattahækkun a.m.k. leiða til þess að verðbólgan yrði fljótlega á næsta ári tvöfalt meiri en kjarasamningarnir gerðu ráð fyrir. Bara vegna þeirra áformuðu skattahækkana sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að tala um.
    Og svo koma þessir háu herrar og reyna að telja öðrum trú um að þeir sem hafa varað við og þeir sem hafa mælt gegn þessari efnahagsstefnu beri ábyrgð á því ef hlutir gangi úrskeiðis í þessu þjóðfélagi. Ég hygg að í annan tíma hafi önnur eins öfugmæli ekki verið borin fram í sölum Alþingis og í þjóðmálaumræðunni í landinu. Það er ástæða til þess að hæstv. forsrh. svari því hér og nú: Verða þessir skattar upp á rúmlega tvo milljarða kr., sem atvinnufyrirtækin í landinu hafa lýst yfir að brjóti forsendur þjóðarsáttarinnar, lagðir á eða verða þeir ekki lagðir á? Alþingi á rétt á því að fá skýr svör við þeirri spurningu hér í umræðunni. Verði fallið frá þeim, á hvern veg ætlar þá hæstv. ríkisstjórn að leysa fjármálavanda ríkissjóðs án þess að það leiði til aukinnar spennu á lánamarkaði og hækkandi vaxta? Það er líka rétt að hæstv. ríkisstjórn svari í þessari umræðu þeirri spurningu. Það eru þessi atriði sem máli skipta. Ef menn ætla að fara út í umræðu um það hvernig hér eigi að tryggja varanlegt jafnvægi til frambúðar, ef menn ætla að fara út í umræðu um það hvernig stjórnvöld geta tekið á móti markverðri viðleitni aðila vinnumarkaðarins til að stuðla að jafnvægi, þá eru það þessi atriði sem máli skipta. En í öllum þeim greinum hefur hæstv. ríkisstjórn brugðist og stuðlað að því að kynda undir verðbólgubálinu, að hlaða vandamálum upp í stíflu á þann veg að hún bresti með meiri þunga en ella hefði orðið. Það er þetta sem er ámælisvert varðandi þá umræðu á hvern veg menn ætla að standa við þau fyrirheit sem gefin voru í byrjun þessa árs þegar aðilar vinnumarkaðarins tóku fram fyrir hendurnar á hæstv. ríkisstjórn.
    Hvernig er nú ferill þessa máls sem hér um ræðir og hver hefur verið afstaða einstakra manna og flokka frá því að það hófst í kjarasamningum í maímánuði 1989? Þá gerði hæstv. ríkisstjórn þann samning sem hún telur nú vera mesta vágest í íslensku efnahagslífi. Hún undirritaði þann samning eigin hendi. Þeir undirrituðu þann samning, þeir bjuggu hann til og hafa verið að hæla sér af því hver hafi nú búið til hin þjóðhættulegu ákvæði samningsins. Þeir hafa verið að keppast við, hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh., að eigna sér heiðurinn af því að hafa búið þessi ákvæði til. Þeir skrifuðu undir þennan samning í maí 1989 með eigin hendi, með eigin pennum, og koma svo í dag og segja: Þetta er það sem þjóðinni er hættulegast. En hvað sögðu þeir þegar samningurinn var gerður? Fjmrh. talaði enn einu sinni um tímamót. Hann talaði um að nú ætti að leggja hinn farsæla grunn að góðum, traustum samskiptum stjórnvalda og starfsmanna þeirra. Nýr tími í samskiptum ríkisstjórnar og opinberra starfsmanna væri hafinn. Eitthvað á þá leið var talað. Og hæstv. forsrh. hafði þau ummæli að nú loksins gæti hann efnt loforðin stóru sem hann í mörg ár hafði gefið um að hækka laun opinberra starfsmanna til samræmis við það sem háskólamenntaðir menn höfðu úti á almennum vinnumarkaði. Þegar hann var að því spurður hvers vegna hann hefði ekki efnt loforðin fyrr lét hann að því liggja að ástæðan væri sú að fjmrh. Sjálfstfl. hefðu legið þar á fleti fyrir. Þetta var nú reisnin í þeim svörum. Það er býsna algengt að stjórnarandstöðuflokkar kyndi frekar undir þegar launakröfur eru gerðar og gagnrýni a.m.k. ekki þegar launafólk fær hækkanir í kjarasamningum. En að þessu sinni brá öðruvísi við.
    Af hálfu okkar sjálfstæðismanna var bent á það strax daginn eftir að þessi samningur var gerður að hann skorti efnahagslegar forsendur. Af minni hálfu var því lýst yfir að engu væri líkara en að ríkisstjórnin ætlaði að standa við hann með innistæðulausum ávísunum. Öllu þessu var vísað á bug, gott ef ekki var látið að því liggja að sjálfstæðismenn væru í fýlu af því að þeir væru ekki í ríkisstjórn og þess vegna töluðu þeir svona. Þau ummæli féllu daginn eftir að hæstv. ráðherrar skrifuðu undir þennan samning.
    Svo fóru vinnuveitendur að vara við og tala um tímasprengju. Þá gerði hæstv. ríkisstjórn enn meira grín að forustumönnum vinnuveitenda og sakaði þá jafnvel um að kunna ekki að lesa. Svo leið heilt þing og hæstv. ríkisstjórn sá ekki ástæðu til að aðhafast neitt. Síðan voru gerðir kjarasamningar í byrjun febrúar þessa árs. Ein forsenda þeirra var sú að aðrir launamenn fengju ekki hækkanir umfram það sem þar var samið um. Hæstv. ríkisstjórn var innt eftir því hvort atbeina Alþingis þyrfti við til þess að tryggja þá forsendu og því var svarað neitandi. En þegar Alþingi var farið heim var tekin um það einhliða ákvörðun að framkvæma ekki samninginn, sem er einsdæmi að því er varðar samskipti aðila sem gera með sér kjarasamning, og mátti öllum vera ljóst að gat ekki staðist almennar lagareglur um samningagerð og kjarasamninga í landinu. Enda var það svo að þeir aðilar

sem stóðu að kjarasamningum í febrúar höfðu varað ríkisstjórnina við og bent henni á að vinnubrögð af þessu tagi stæðust ekki. Af hálfu stjórnarandstöðunnar var á það bent fyrir fram að svona vinnubrögð stæðust ekki. Af hálfu næststærsta vinnuveitanda opinberra starfsmanna, Reykjavíkurborgar, var á það bent að þessi vinnubrögð stæðust ekki.
    Það hefur komið hér fram að hæstv. ríkisstjórn leitaði ekki einu sinni álits ríkislögmanns áður en þessi ákvörðun var tekin. Samt var farið út í það sem öllum var ljóst að hlaut að stangast á við lagareglur í landinu, að ákveða einhliða að framkvæma ekki samninginn. Það mál gekk eðlilega fyrir dóm, Félagsdóm, sem hæstv. ráðherrar hafa reynt að gera lítið úr en er þó hæstiréttur í ágreiningsefnum um túlkun kjarasamninga. Þessi dómur komst að samhljóða niðurstöðu um það að ríkisstjórnin hefði farið ranglega að. Ákvarðanir hennar og aðgerðir stönguðust á við þær réttarreglur sem gilda um samninga. Ríkisstjórnin var dæmd brotleg í málinu og hefði þegar á þeim tímapunkti og þegar af þeirri ástæðu átt að fara frá. En þá var gripið til þess ráðs að setja bráðabirgðalög. Áður höfðu tveir ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn Íslands lýst því yfir að ekki væri unnt að grípa til bráðabirgðalagaúrræðis ef dómur gengi í málinu og í óhag ríkisstjórninni. Færi málið fyrir dóm, þá yrði það að vera niðurstaðan. Þetta voru ummæli hæstv. starfandi forsrh. á þeim tíma og hæstv. fjmrh. Samt var gripið til þessa ráðs.
    Í dómi Félagsdóms er skýrt tekið fram að allar þær efnahagslegu afleiðingar sem ríkisstjórnin bar fyrir sig hefði mátt sjá við undirritun samningsins, enda bentu mjög margir og nánast allir aðrir en hæstv. ríkisstjórn á þá hættu þegar þeir samningar voru gerðir. Í dómi Félagsdóms er einnig að því vikið að það hefði verið rétt og skylt ef annar samningsaðili leit svo á að forsendur væru brostnar að óska eftir viðræðum um breytingar vegna brostinna eða breyttra forsendna. Því hafði hæstv. ríkisstjórn hafnað. Það var frá öndverðu skoðun okkar sjálfstæðismanna að engin önnur viðbrögð væru réttlætanleg af hálfu stjórnvalda eftir að febrúarsamningurinn var gerður en að þau óskuðu eftir viðræðum um breytingar á þessum samningi þannig að hann samrýmdist þeim markmiðum sem þar voru sett. Og öll önnur skref hlutu að byggjast á niðurstöðum slíkra viðræðna. En þær fóru ekki fram og enginn getur því sagt fyrir um það á hvern veg þær hefðu farið. Hæstv. forsrh. hefur oftar en einu sinni viðurkennt að þetta sjónarmið okkar sjálfstæðismanna og þetta sjónarmið sem Félagsdómur bendir svo rækilega á hefði hann einnig sjálfur haft en það hafi ekki notið stuðnings eða hljómgrunns í hæstv. ríkisstjórn. Og hann hefur viðurkennt hér á hinu háa Alþingi að það var fjmrh. sem kom í veg fyrir að þessu eina löglega úrræði yrði beitt sem upphafsaðgerð af hálfu stjórnvalda í málinu. Með öðrum orðum, það hefur gerst hér að það var Alþb. í ríkisstjórn sem kom í veg fyrir að einu löglegu upphafsaðgerðinni sem kostur var á yrði beitt í þessu máli, sem ekki aðeins stjórnarandstaðan var að benda á heldur Félagsdómur hefur komist að niðurstöðu um. Það er hlutverk Alþb. að hafa hindrað þetta í ríkisstjórn. En hæstv. forsrh. mat meir að halda Alþb. í ríkisstjórn en fara á þann veg fram með þetta mál sem hann sjálfur taldi rétt. Hann tók með öðrum orðum þessa einkennilegu hagsmuni Alþb. fram yfir hagsmuni réttra vinnubragða sem hefðu verið í anda þeirra sem kjarasamninginn gerðu í byrjun febrúar. Hann var reiðubúinn að fórna þeim hagsmunum í þágu Alþb. Þetta eru staðreyndir um feril málsins.
    Auðvitað liggur það ljóst fyrir á hvern veg átti að hefja þetta mál. Og það liggur líka ljóst fyrir að ef sú leið hefði ekki dugað þá var nægur tími til þess að leggja málið fyrir síðasta þing áður en því var slitið í vor sem leið. En hæstv. ríkisstjórn hafði kosið að fara að ólögum og er þess vegna í þeim ógöngum sem hún stendur nú frammi fyrir. Hún lenti þess vegna í því að hluti af hennar stuðningsliði hikaði við að fylgja henni eftir í málinu.
    Þegar mikilvægar opinberar ákvarðanir eru teknar skiptir auðvitað sköpum að þær séu í samræmi við lög og rétt og almennt viðurkenndar siðferðilegar reglur í þjóðfélaginu. Það hefur verið upplýst nú nýlega að vinnuveitendur handsöluðu við hæstv. forsrh. samkomulag um að samningur BHMR yrði ógiltur. Þetta handsal var gert í kjölfar febrúarsamninganna. Alþingi var ekki greint frá því að slíkt samkomulag hefði verið handsalað milli hæstv. ríkisstjórnar og vinnuveitenda, handsal sem fól í sér að hæstv. ríkisstjórn lofaði einum samningsaðila að brjóta samning sem hún hafði gert við annan. En var það ekki skylda hæstv. ríkisstjórnar að greina frá því að slíkt samkomulag hefði verið handsalað? Hlaut það ekki að hafa áhrif á það á hvern veg þetta mál ætti að koma fyrir löggjafarsamkomu þjóðarinnar?
    Öll áhrif þessara samninga voru kunn frá upphafi. Engum gat dulist hvaða efnahagslegu áhrif gátu hlotist af þessum samningi. Það er líka ljóst að öll lagaleg atriði varðandi einhliða uppsögn eða einhliða ákvörðun um að framkvæma ekki samninginn voru ljós og kunn. Hæstv. ríkisstjórn átti að geta gert sér grein fyrir því hver sú staða var vegna þess að henni hafði verið gerð grein fyrir þeim atriðum fyrir fram. Það er því ekki hægt eftir á að bera fyrir sig að þau mál hafi verið óljós eða þau ekki kynnt fyrir hæstv. ríkisstjórn. Það liggur líka fyrir, m.a. í dómsorði Félagsdóms, að rétt upphafsaðgerð hefði verið að óska eftir viðræðum og það hefur hæstv. forsrh. viðurkennt en lét aðra beygja sig til þess að fara ranglega að í málinu. Og það liggur líka fyrir að þó að bráðabirgðalögin séu ekki að formi til lög á dómsniðurstöðuna, þá eru þau það í reynd. Allt þetta stríðir svo alvarlega gegn
almennum siðareglum og settum lögum og óskráðum lögum um samninga að athafnir hæstv. ríkisstjórnar eru með öllu óverjandi.
    Lagaíhlutun í kjarasamninga hefur lengi tíðkast og með ýmsu móti en yfirleitt þó á þann veg að ríkisstjórnir hafa verið að koma í veg fyrir að vísitölubætur sem samið hefur verið um kæmu til framkvæmda

eða þá þær hafa verið takmarkaðar vegna ókomins tíma og stundum hafa þær verið afnumdar með öllu, en ávallt vegna ókomins tíma. Í annan stað hafa menn gripið til lagaúrræða til þess að framlengja lausa kjarasamninga og í þriðja lagi hafa menn gripið til lagaúrræða í þeim tilgangi að setja niður alvarlegar vinnudeilur þegar annar aðili eða báðir hafa boðað til verkfalls og verkbanns og veruleg almenn hætta hefur stafað af. Þá hefur oftast verið gripið til þess ráðs að setja gerðardóm til að kveða upp úr um þrætuefni. En í þessu falli er tekin til baka launahækkun sem hafði komið til framkvæmda. Í þessu falli eru sett lög sem afnema víxlverkunarákvæði í einum kjarasamningi en ekki öðrum. Þessi lagasetning er því um margt mjög sérstæð og einstök að því er varðar lagaíhlutun í gerð kjarasamninga.
    Að undanförnu hefur allmikið verið um það rætt hvort bráðabirgðalögin standist stjórnarskrána. Það eru einkum þrjú atriði sem þar hafa komið til álita. Í fyrsta lagi hafa menn bent á að skort hafi formskilyrðið um brýna nauðsyn. Ljóst er að hæstv. ríkisstjórn átti að vita þegar frá upphafi hvaða afleiðingar kjarasamningurinn gæti haft. Ljóst var að hún hafði ráðrúm allt síðasta þing til þess að grípa til lagaúrræða eða leggja þau til við Alþingi. Og ljóst var, a.m.k. eftir að hún hafði með svo sérstökum hætti handsalað samkomulag við atvinnurekendur um að afnema tiltekin ákvæði í þessum kjarasamningum, að hún hafði nægan tíma til þess að bera það mál upp við Alþingi. Að þessu leyti er nokkuð ljóst að formskilyrðið um brýna nauðsyn var ekki fyrir hendi.
    Á það er einnig að líta að það þurfti meira til en þennan kjarasamning til þess að hinar alvarlegu efnahagslegu afleiðingar hlytust af eins og þeim er til að mynda lýst í spádómum Þjóðhagsstofnunar. Til þess að þeir spádómar gætu orðið að veruleika þurftu víxlverkunarákvæði í öðrum kjarasamningum fyrst að hafa komið til framkvæmda og síðan þessi og þau öll saman síðan koll af kolli og að hæstv. ríkisstjórn hefði í öllum efnum gefið eftir hvar sem var við stjórn efnahagsmála. Að vísu hafði komið fram tilkynning um að vinnuveitendur ætluðu sér að framfylgja sambærilegu víxlverkunarákvæði í sínum samningum ef þetta samningsákvæði næði fram að ganga hjá BHMR. En slíkur gjörningur hafði ekki verið gerður. Sú staðreynd leiðir enn rök að því að mjög vafasamt sé að skilyrðið um brýna nauðsyn hafi verið fyrir hendi.
    Sumir hafa litið svo á að það sé alfarið á valdi bráðabirgðalöggjafans að kveða upp úr um brýna nauðsyn. Eigi að síður er það réttarregla að dómstólar eiga úrskurðarvald um það hvort lög stangast á við stjórnarskrá og það er eðlilegt í þessu efni að ætlast til þess að dómstólar leggi þar nokkurt mat á, ekki síst þegar svo gild rök hafa verið færð fram fyrir því að fram hjá þessu ákvæði hafi verið gengið. Í annan stað hefur því verið haldið fram að hér hafi stofnast eignarréttur sem bætur verði að koma fyrir samkvæmt almennum reglum. Ýmis veigamikil lagarök hafa verið færð fram þessari fullyrðingu til stuðnings. Og í þriðja lagi hefur verið bent á að með því að víxlverkunarákvæði í einum samningi hafi verið numið úr gildi en ekki öðrum, þá stangist það á við almenna jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Einnig hafa verið færð lagarök til stuðnings þessari fullyrðingu. Þannig er ljóst að a.m.k. þrjú alvarleg álitaefni eru uppi um það hvort þessi lög standast ákvæði stjórnarskrárinnar.
    Niðurstaðan af öllu þessu er augljós. Það fer ekki á milli mála og er býsna almenn skoðun, bæði á meðal stuðningsmanna og andstæðinga hæstv. ríkisstjórnar, að hún hafi þverbrotið almennt viðurkenndar siðferðisreglur við framkvæmd stjórnarathafna og samskipti við starfsmenn ríkisins. Og í annan stað liggur fyrir að að ýmsu leyti er vafasamt að bráðabirgðalögin standist stjórnarskrána.
    Ég hef heyrt því haldið fram að í afstöðu okkar sjálfstæðismanna séum við að hengja hatt okkar á atriði í liðinni tíð, á atriði sem heyri fortíðinni til. Einkanlega hef ég heyrt nokkra blaðamenn gera athugasemdir af þessu tagi við okkar málflutning. En hvað er það sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja hér fyrir Alþingi? Hún er að óska eftir því að allur þessi hrakfallabálkur, sem hér hefur verið rakinn, hljóti staðfestingu og viðurkenningu á Alþingi. Og það sæmir ekki Alþingi Íslendinga að gefa hæstv. ríkisstjórn syndakvittun fyrir vinnubrögð af þessu tagi sem hér hafa verið rakin. Fortíð þessa máls er ekki meiri en svo að hæstv. ríkisstjórn er að óska eftir því að Alþingi staðfesti hennar gjörðir á umliðnum mánuðum í þessu máli.
    Ég held að það fari ekki á milli mála að það er rétt mat hjá Sigurði Líndal, prófessor í lögum, að þetta mál í heild sinni sé vitnisburður um veilu í stjórnskipan okkar sem ráða verði bót á og sú bót verður ekki ráðin með því að meiri hluti Alþingis viðurkenni þessi vinnubrögð með því að staðfesta þessi bráðabirgðalög. Auðvitað eru það fleiri en Alþingi sem koma við sögu í þessu efni. Hér hafa dómstólar auðvitað hlutverki að gegna, enda þetta mál þegar farið einu sinni fyrir dóm og er nú öðru sinni fyrir dómi og ekki ætla ég á þessu stigi að hafa uppi neinar getsakir um það hvert líklegt dómsorð verður í því efni.
    Það hefur líka verið á það bent að þegar stjórnskipuninni er ögrað með þeim hætti sem hér hefur verið gert, þá kunni forseti Íslands að gegna ákveðnu öryggishlutverki. Ég ætla ekki að draga forseta Íslands á þessu stigi inn í þessar pólitísku þrætur.
    En í þriðja lagi hefur Alþingi hlutverki að gegna. Og þó að varpa megi ábyrgð að hluta yfir á dómstóla og forseta Íslands til þess að koma fram réttum aga og réttum eðlilegum viðbrögðum gagnvart þeim vinnubrögðum sem hér hefur verið lýst, þá getur Alþingi sjálft ekki skorist úr leik í því efni og verður að dæma vinnubrögðin í því ljósi sem lýst hefur verið og menn almennt eru sammála um. Jafnvel hæstv. ráðherrar hafa hvað eftir annað viðurkennt að þeim hafi orðið á alvarleg mistök en leyfa sér samt að ætlast til þess að hið háa Alþingi samþykki þessa hrakfallasögu.
    Hæstv. ráðherrar hafa verið iðnir við að búa til

samlíkingar af ýmsu tagi í umræðum síðustu daga. Ég skal velja eina samlíkingu og til þess að vera sanngjarn taka hana úr vopnabúri þeirra sjálfra. Þeir hafa dregið þá samlíkingu upp að verðbólgueldar brenni eða geti kviknað og að brennuvargar séu á ferð. Hver er brennuvargurinn í þessu máli? Getur hann verið annar en sá sem er höfundur og undirskriftaraðili að þeim kjarasamningum sem ríkisstjórnin sjálf hefur kveðið upp þann dóm um að séu verðbólguhvetjandi? Er brennuvargurinn nokkur annar en sá sem undirritaði þennan samning? Og getur það þá skapað nokkurn trúnað og nokkurt traust að láta brennuvarginn sitja áfram í stóli slökkviliðsstjóra?