Launamál
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykv. hélt því fram í ræðu sinni áðan að ég og ríkisstjórnin hefðum haft óeðlileg afskipti af málefnum Seðlabankans með því að óska eftir því að bankastjórnin gerði grein fyrir skoðunum sínum á álitsgerð sem einn af starfsmönnum hagfræðideildarinnar í bankanum hafði samið um verðbólguáhrif hugsanlegs afnáms bráðabirgðalaganna sem hér eru til umræðu. Hæstv. forsrh. vék nokkrum orðum að þessu máli hér áðan en ég vil, virðulegi forseti, víkja að því líka nokkrum orðum.
    Eins og kunnugt er hafði hv. 1. þm. Reykv. borist þetta álit í hendur og hann látið það fylgja sínu minnihlutanefndaráliti. Hv. 1. þm. Reykv. taldi, og það kom fram í máli hans, að Seðlabankinn og bankastjórn hans hefðu verið beitt því sem hann kallaði þrýstingi í þessu máli. Það er kunnugt að bankastjórn Seðlabankans hefur lýst því opinberlega yfir í sérstakri fréttatilkynningu að bankastjórnin sé alls ekki sammála því áliti sem fram kemur á fskj. IX á þskj. 245 sem er nál. frá 2. minni hl. hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar. Þetta skjal, sem hv. 1. þm. Reykv. hefur ítrekað kallað álit Seðlabankans, lýsir því alls ekki áliti bankastjórnarinnar. Bankastjórnin hefur þvert á móti lýst þeirri skoðun að mikil hætta væri á verðbólguskrúfu ef bráðabirgðalögin væru úr gildi numin. Hv. 1. þm. Reykv. lætur að því liggja að ósk mín um að fá fram opinbert álit bankans á málinu sé á einhvern hátt ógnun við sjálfstæði Seðlabankans og beri keim af ritskoðun. Þetta er auðvitað fjarstæða. Það er í alla staði eðlilegt og reyndar nauðsynlegt að skoðun bankans á þessu mikilvæga máli komi fram þar sem þetta vinnuskjal eins starfsmanns bankans var kynnt á þinginu sem álit bankans. Þetta sem ég er nú að segja, að óska eftir áliti bankans á málinu, er í fullkomnu samræmi við seðlabankalögin. Í 4. gr. þeirra segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í öllu starfi sínu skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstjórnina og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Sé um verulegan ágreining við ríkisstjórnina að ræða er seðlabankastjórn rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar. Hún skal engu að síður telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því að sú stefna sem ríkisstjórnin markar að lokum nái tilgangi sínum. Seðlabankinn skal eigi sjaldnar en tvisvar á ári senda ráðherra greinargerð um þróun og horfur í peningamálum, greiðslujafnaðar- og gengismálum.``
    Í þessari lagagrein kemur skýrt fram hvernig samstarfi ríkisstjórnar og bankastjórnar Seðlabankans skal vera háttað. Það er að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir því að einstakar deildir bankans eða starfsmenn hans séu að senda álitsgerðir sínar út og suður í opinberum málum eins og hér er um að tefla, en það var einmitt það sem gerðist í þessu máli. Þegar slíkt kemur upp og það er fram borið af einhverjum aðilum utan bankans sem opinber skoðun hans er alveg nauðsynlegt að fá fram opinbert álit bankastjórnarinnar.

Það álit kom fram og í ljós kom að bankastjórnin var í öllum meginatriðum sammála ríkisstjórninni um matið á verðbólguhættunni sem fylgja mundi afnámi bráðabirgðalaganna. Þetta er kjarni málsins og allar dylgjur um það að þetta fari á einhvern hátt í bága við lög og réttar reglur um framkvæmd seðlabankamálefna er fjarstæða.
    Það er reyndar ekki laust við að gæti nokkurs tvískinnungs í málflutningi þeirra hv. 1. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Suðurl. þar sem því er haldið fram í einu orðinu að alvarlegar afleiðingar af þeirri launaskrúfu sem fylgt gætu kjarasamningum sem gerðir voru á liðnu ári, annars vegar á hinum almenna vinnumarkaði og hins vegar milli BHMR og starfsmanna innan þeirra vébanda og ríkisins, hafi lengi legið ljósar fyrir. Svo er því aftur haldið fram í hinu orðinu að þessi bráðabirgðalög sem við ræðum hér skipti engu máli í þessu sambandi. Hvort er nú það sem rétt er? Sannleikurinn er sá að framganga Sjálfstfl. í málinu er með hræsnisyfirbragði.