Launamál
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég sé ástæðu til að taka þátt í þessari umræðu til að koma að nokkrum atriðum sem snerta frv. það sem hér er til meðferðar í 2. umr. og víkja að fáeinum atriðum sem tengjast þessu máli. Ég tel þörf á að þau séu rædd hér á Alþingi því þau varða stjórnskipun landsins. Það hefur legið fyrir að ég er efnislega andvígur þeim bráðabirgðalögum sem sett voru sl. sumar og ég er mótfallinn því að unnið sé að málum eins og gert var í aðdraganda þeirra og við setningu þeirra. Þetta hefur ítrekað komið fram hér í þinginu af minni hálfu, m.a. við 1. umr. þessa frv. 23. okt. sl. svo og í tilkynningu sem ég flutti sameinuðu þingi 3. des. sl. Það er engin breyting á þessari afstöðu minni. Ég hef aldrei lýst því yfir hér í þinginu eða opinberlega að ég ætlaði ótvírætt að greiða atkvæði gegn frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum. Það hefur ekki komið fram af minni hálfu þó fjölmiðlar og fleiri hafi eðlilega dregið þær ályktanir að líklegt væri að ég greiddi atkvæði gegn frv. til staðfestingar þessara laga. En ég hef sagt það og ítrekað það að þingmenn eiga ekki að ráðstafa atkvæði sínu fyrir fram og gera það auðvitað ekki. Það er alrangt að ég hafi breytt skoðun minni á því máli sem hér er til umræðu. Svo er ekki. Ég er áfram andsnúinn þeirri málsmeðferð sem við var höfð en mun af ástæðum sem ég hef gert grein fyrir hér í þinginu sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Ég er andvígur þeim rökstuðningi sem fram kemur í áliti meiri hl. fjh.- og viðskn. um þetta frv. Ég tel að hann sé jafnhaldlítill og allur málflutningur sem rökstyður setningu þessara bráðabirgðalaga og gæti haft um það mörg orð. Það ætla ég ekki að gera nú. Ég ætla hins vegar að fjalla hér í nokkrum orðum um veigamikil atriði sem snerta stjórnskipun landsins og sem ástæða er til að menn íhugi og taki á í framhaldi af þessu máli og í tengslum við það. Sá lærdómur sem ég tel að við hér á Alþingi Íslendinga þurfum að draga af þessu máli og öðrum hliðstæðum, sem vissulega má finna svipuð fyrr á tíð þó þetta sé sérstætt mál að mjög mörgu leyti, er einkum þrennt sem ég vil nefna í þessu samhengi.
    Ég tel að þingið, vonandi þetta þing sem nú situr, beri gæfu til þess að afnema deildaskiptingu Alþingis. Deildaskipting Alþingis er mikil tímaskekkja og hún varðar þetta mál m.a. vegna þess að eins og skipan þingsins er háttað getur það gerst að meirihlutavilji á Alþingi njóti sín ekki í málum vegna þess hvernig menn raðast tilviljanakennt í deildir þingsins. Leiddar hafa verið líkur að því að það sé meiri hluti fyrir þessu frv., hafi verið meiri hluti fyrir því áður en ég lýsti minni afstöðu hér 3. des. sl., ef þingið hefði gert málið upp í einni deild. Ég tel það í senn lýðræðislegt og eðlilegt að meirihlutavilji fái að njóta sín á Alþingi Íslendinga. Afnám deildaskiptingar þingsins er þar fyrir utan afar brýnt mál vegna starfshátta á Alþingi. Ég er þeirrar trúar að það mundi margt breyta hér verulega um svip í störfum þingsins og í ásýnd þingsins út á við ef menn næðu saman um það

að sameina þingið í eina málstofu. Ég veit að um þetta mál er nú fjallað í þingskapanefnd, sem svo er kölluð og í eiga sæti formenn þingflokka. Og ég vona það sannarlega að þingið nái saman um afgreiðslu þessa máls fyrr en seinna.
    Þá er það annað atriðið sem ég vildi nefna hér og einnig er mikilsvert og liggur fyrir þinginu í tillöguformi. Það er að afnema stjórnarskrárbundnar heimildir til setningar bráðabirgðalaga. Setning bráðabirgðalaga og heimild í stjórnarskrá þar að lútandi er fullkomlega nauðsynjalaus og alger tímaskekkja á árinu 1990. Það voru aðrir tímar þegar þetta var sett í stjórnskipan landsins fyrir rösklega heilli öld, árið 1874. Þá voru aðstæður enn svipaðar og á landnámstíð þegar það tók 17 daga að jafnaði að komast frá Austurlandi, svo dæmi sé tekið, til Alþingis, þó að Árni Oddsson ynni það afrek á sínum tíma 1662 að komast þessa vegalengd á þremur dögum og er síðan rómað í Íslandssögunni. En nú tekur það ekki lengri tíma fyrir þingmenn að komast til þings en það tekur Stjórnarráðið og ráðherrana að undirbúa setningu bráðabirgðalaga. Það frv. sem þingmenn Kvennalistans hafa flutt hér í hv. deild eigum við því að samþykkja fyrr en seinna og þá er þeim áhyggjum af mönnum létt að ríkisvaldið sé með bráðabirgðalagavald uppi í erminni og beiti því með jafnóskynsamlegum hætti og gert var sl. sumar og óvarkárum hætti miðað við þær leikreglur sem eiga að gilda í okkar samfélagi.
    Þriðja atriðið sem varðar stjórnskipun landsins er þingrofsrétturinn í hendi forsrh. Ég tel óeðlilegt og ólýðræðislegt í raun að einn maður, einn ráðherra í ríkisstjórn landsins, hafi það vald í hendi að rjúfa þingið og skipa því heim, senda það heim. Ég tel miklu farsælla fyrir vinnubrögð hér á Alþingi og stjórnarfar í landinu að Alþingi sé kosið með reglubundnum hætti til tiltekins tíma, fjögurra ára eins og nú er eða skemmri tíma ef menn vildu, án þess að fyrir liggi réttur til þess að rjúfa þingið. Eða a.m.k. að til slíkra aðgerða að efna til kosninga þess á milli þyrfti samþykkt Alþingis, samþykki meiri hluta hér á Alþingi. Það er bent á svipaða skipan mála erlendis, í Bretlandi, í Danmörku, varðandi þingrofsrétt. En það er ekki til fyrirmyndar. Og aðstæður hérlendis að þessu leyti eru t.d. aðrar en í Bretlandi þar sem er fjöldi flokka og samsteypustjórnir sem ríkjandi form um stjórnarfar eins og skipan þingsins hefur verið lengi. Þetta er mjög viðkvæmt vald sem þarna er í hendi forsrh. landsins samkvæmt stjórnarskrá nú. Og menn hafa það fyrir sér hvernig hugmyndir voru um að beita þessu valdi nú fyrir skemmstu. Það getur verið mönnum til íhugunar einmitt um það hvort ekki sé réttmætt að afnema þennan rétt með þeim hætti sem hann nú er í stjórnarskrá.
    Ég fagna því að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir hér á þinginu, nú síðast í dag, að hann telji ekki sjálfur, núv. hæstv. forsrh., að það eigi að beita þessum rétti nema mjög brýna nauðsyn beri til. Ég met það við hæstv. forsrh. að lýsa því hér yfir. En við skipum ekki stjórnarskrá eftir því hver situr í stóli hans.

Og ég er að tala um þetta hér í almennu samhengi. Ef við næðum saman um þessar þrjár meginbreytingar í okkar stjórnskipan þá teldi ég að þingið hefði stigið farsæl og mikilvæg skref. Ég vona að menn nái saman um slíkar breytingar fyrr en seinna. Ég er reiðubúinn að taka þátt í afgreiðslu þeirra, ekki endilega saman heldur í áföngum ef það er leiðin til sátta og árangurs í þessu efni.
    Jafnhliða þessu eigum við að nota stjórnarskrárbundinn rétt til þjóðaratkvæðagreiðslu í mikilvægum málum í allt öðrum mæli en tíðkast hefur, dæmin eru raunar engin sem við höfum í þessu. Þann rétt eigum við að nota. Við beittum honum áður en við stofnuðum lýðveldið með árangursríkum hætti en í sögu þess höfum við ekki notað þennan rétt stjórnarskrárinnar svo sem eðlilegt hefði verið í þýðingarmestu málum. Og það eigum við að taka upp, t.d. um spurningar um breytingu á stjórnarskrá landsins í staðinn fyrir að vera að þvæla slíkum breytingum saman við almennar kosningar og þurfa til þess upptöku mála tvívegis, þ.e. þing eftir þing.
    En það er ýmislegt fleira sem þarf að gá að í tengslum við mál af þeim toga sem hér er rætt og varðar samskipti m.a. ríkisvaldsins og þingsins og ríkisvaldsins og stofnana lýðveldisins og opinberra stofnana. Ég hef m.a. í huga það sem hér liggur fyrir í sambandi við álitsgerðir frá stofnunum sem dregnar eru inn í þetta mál, Þjóðhagsstofnun og hagfræðideild Seðlabanka Íslands og bankastjórn Seðlabanka Íslands. Auðvitað á að tryggja að þessar stofnanir starfi sem mest óháðar og ekki undir þrýstingi, hvað þá valdboði frá Stjórnarráði. Slíkt ómerkir slík álit. Það er afskaplega lítils virði finnst mér að vera að reiða fram slíka pappíra eins og hefur verið gert í sambandi við þetta mál, eins og að málum er staðið og eins og að þessum stofnunum er búið. Hvaða vit er í því að ráðherrar í stjórn lands séu að halda embættum og tryggja sér að vera yfirmenn opinberra stofnana sem ætlað er að gefa álit hér í málum sem jafnvel varða þá sjálfa? Hvaða skynsemi er í slíkri skipan mála? Auðvitað á það að vera útilokað með öllu að slíkar aðstæður séu skapaðar. Auðvitað ómerkir slíkt með öllu álitsgerðir frá opinberum stofnunum ef þannig er haldið á málum. Ráðherrar eiga ekki að sinna öðrum störfum eða skipa önnur embætti en ráðherrastörf þegar þeir eru í ríkisstjórn. Allt annað er óeðlilegt að mínu mati. Þannig eru það fjölmargir þættir sem ástæða er til að rifja upp vegna þess að þetta mál snertir leikreglur í samfélaginu, undirstöður lýðræðis í þessu samfélagi. Við eigum að nota þetta mál til þess að hreinsa til og breyta til bóta, lýðræðinu til styrktar og þinginu til styrktar.
    Ég ákvað, virðulegur forseti, að sitja hjá við afgreiðslu þessa máls, m.a. til að koma í veg fyrir að þingið yrði rofið og efnt yrði til kosninga í skyndi um hina svokölluðu þjóðarsátt sem ég hef bent á og vikið að að er býsna gloppótt og ótrygg þegar litið er til framtíðar.
    Ég hef einnig gert það til þess að koma í veg fyrir að ríkisvaldið beitti enn á ný bráðabirgðalögum í

þessu máli í kjölfar þingrofs því að það teldi ég síst skárri gjörning en þann sem unninn var sl. sumar nema síður væri, raunar að bíta höfuð af skömm. Og ég hef einnig gert það til að eiga hlut að því að ríkisstjórn landsins hafi tækifæri til þess að treysta hina svonefndu þjóðarsátt með því að leita sátta og samninga við þá sem eru þolendur þeirra bráðabirgðalaga sem sett voru sl. sumar, þ.e. BHMR. Fleiri þætti mætti þar taka með sem varða sáttargjörð í samfélaginu, jafnræði í samfélaginu, og þyrfti þá margt til að tína. Og af minni hálfu er það einnig ekki síst að ég sit hjá við afgreiðslu þessa máls að unnt megi verða að leggja traustari grunn að jafnvægi í efnahagsmálum en nú er, litið til lengri tíma. Því að þjóðarsáttin svokallaða í samhenginu jafnvægi í efnahagsmálum fer ekki saman við þær ráðagerðir sem hluti af ríkisstjórninni hefur unnið að um langan tíma, að ætla að efna hér til efnahagslegrar kollsteypu með fjárfestingum í áður óþekktum mæli í samfélaginu, fyrst og fremst tengt höfuðborgarsvæðinu, suðvesturhorni landsins, sem mun kollvarpa öllu því sem heitir jafnvægi í efnahagsmálum og setja allt í bál fyrir nú utan þau áhrif sem það hefði á byggðir landsins. Ríkisstjórnin hefur tækifæri til að leiðrétta stefnu sína að þessu leyti og renna stoðum undir raunverulegt jafnvægi hér og sátt til lengri tíma. En til þess þarf vissulega að verða breyting frá því sem ráðgert hefur verið af sumum þeim sem nú skipa ríkisstjórn landsins.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni, þó vert væri, hlut Sjálfstfl. í þessu máli. Um það mætti margt segja. Það er raunaleg staða sem Sjálfstfl. er staddur í. Það er hörmulegt að sjá hvernig stærsti stjórnmálaflokkur landsins er sundurþykkur í þessu stóra máli og í mestu vandræðum að gera það upp gagnvart sjálfum sér, hvað þá gagnvart þjóðinni. Ég skil það afar vel að staða hans og forusta flokksins er veik um þessar mundir. Það er að sjálfsögðu ekki harmsefni fyrir mig en ég segi jafnframt: ég met allan stuðning, hvaðan sem hann kemur, til þess að haldnar séu eðlilegar leikreglur í samfélaginu. Og ég virði þá, jafnt í Sjálfstfl. sem og annars staðar, sem leggja því lið.