Launamál
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Herra forseti. Allir menn verða að njóta sannmælis. Svo er um hæstv. ríkisstjórn að á stundum hefur málsvörn hæstv. ráðherra, þrátt fyrir vafasama stjórnarstefnu, verið allsnarpleg hér í þinginu en oftast nær linleg en aldrei jafnmáttlaus og moðsuðuleg sem í dag.
    Nú hafa tveir hæstv. ráðherrar gripið til varna fyrir ríkisstjórnina í þessari umræðu, hæstv. forsrh. sem lengur getur ekki verið viðstaddur umræðuna sýnist mér og hæstv. viðskrh. Hæstv. fjmrh., sem er höfundur samningsins sem gerður var, hefur nú, þegar klukkan er að verða 10 og umræðan hefur staðið frá því á miðjum degi, ekki enn séð ástæðu til þess að gera Alþingi grein fyrir gjörðum sínum og því síður að taka til varnar og segir það kannski meiri sögu um stöðu hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli en margt annað.
    Lítum á fjögur atriði sem ætla mætti að hæstv. ríkisstjórn hefði þurft að svara í þessari umræðu.
    Í fyrsta lagi hefur hún byggt allan málflutning sinn á því að það væri algjör forsenda fyrir árangri í efnahagsmálum og í baráttu fyrir minnkandi verðbólgu og jafnvægi að lög væru brotin, að samningar væru sviknir og siðferðisreglur fótum troðnar. Allur málatilbúnaður hæstv. ríkisstjórnar hefur byggst á því að þessi fullyrðing væri sönn. Maður hefði haldið að hæstv. ráðherrar reyndu í málsvörn sinni hér að færa einhver rök að þessari kenningu. Að vísu gat enginn ætlast til þess að þeir sönnuðu hana því að það er ekki hægt. En það hefði verið svolítið hreystimerki að gera tilraun til þess að færa rök að kenningunni. En það var ekki reynt heldur einungis talað út í himinblámann eins og venjulega. Auðvitað er ekki til meiri fjarstæða en að það sé forsenda fyrir árangri í efnahagsmálum og algjört skilyrði að lög séu brotin, samningar sviknir og siðferðisreglur fótum troðnar. Ég hygg að annar eins málflutningur hafi aldrei verið borinn á borð hér í sölum hins háa Alþingis. En varðandi þetta atriði, sem er uppistaðan og ívafið í málflutningi hæstv. ríkisstjórnar, er auðvitað ekki hin minnsta tilraun gerð til þess að færa rök að kenningunni.
    Í annan stað hefði maður vænst þess að hæstv. ríkisstjórn reyndi að gera grein fyrir því hvað hún ætlar að gera ef dómsmálið tapast sem nú er í gangi. Það væri ekki óeðlilegt þegar hæstv. ríkisstjórn ver af slíku afli ólögmætar aðgerðir sínar sem nú eru fyrir dómi að hún reyndi að gera Alþingi grein fyrir því til hvaða bragða eigi að taka ef málið tapast. Engin tilraun til þess.
    Og það hefði ekki verið óeðlilegt í þriðja lagi að hæstv. ríkisstjórn, sem sett hefur lög sem taka til kjarasamninga fram til 1. sept. á næsta ári, gerði einhverja grein fyrir því hvað þá á að taka við. Hvað á að taka við þá? Hvað er hægt að gera í september sem ekki er hægt að gera nú? Engin svör utan það að hæstv. forsrh. sagði hér og birt var eftir honum í sjónvarpi að hann vonaðist til að það yrði ekki frjálshyggja. Heyr á endemi! Er það allur boðskapurinn sem hæstv. ríkisstjórn hefur fram að færa þegar slíkt

örlagamál er á ferðinni eins og hún sjálf hefur lýst, að það eru engin svör um það hvað á að taka við? Ég ætla ekki að vera með getsakir um það að leggja merkingu í þau orð hæstv. forsrh. þegar hann segir: Vonandi ekki frjálshyggja. Sumir kunna að draga þá ályktun af því að það eigi að halda áfram sömu vinnubrögðum og hann sjái enga framtíð á Íslandi nema með lögbundnum kjarasamningum. Ég hygg þó að sanni nær sé að draga þá ályktun af þessum ummælum að hæstv. forsrh. viti ekki sitt rjúkandi ráð í þessu efni.
    Í fjórða lagi hefði maður vænst þess að hæstv. ríkisstjórn gerði einhverja grein fyrir því hvernig hún hefur staðið að málum á þessum umþóttunartíma sem Seðlabankinn segir í nýlegri skýrslu sinni að sé svikalogn og fellir þann dóm yfir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar á umþóttunartímanum, þegar hún átti að tryggja viðvarandi árangur af kjarasamningunum frá því í febrúar, að það sé svikalogn eitt. Maður hefði vænst þess að við öllum þeim spurningum, sem hér voru bornar fram í þessu sambandi, yrði gerð einhver smátilraun til þess að finna svar. En um það var ekkert einasta orð, örfáir ómerkilegir útúrsnúningar. Ég hygg að það sé að sönnu rétt að málsvörn hæstv. ríkisstjórnar hafi aldrei verið jafnaumleg og í þessu máli.
    Víkjum aðeins að einstökum ummælum þeirra tveggja hæstv. ráðherra sem hér hafa tekið til málsvarnar. Ég ætla fyrst að víkja að ummælum hæstv. viðskrh. sem er kunnur fyrir háttvísi, prúðmennsku og að meitla svo orðalag sitt að falli nákvæmlega að hugsunum hans. Það kom því nokkuð á óvart þegar hann viðhafði þau orð um afstöðu okkar sjálfstæðismanna að hún fæli í sér hræsnisyfirbragð, auðvitað án þess að rökstyðja þá fullyrðingu. Þegar maður sem hefur á sér slíkt orðspor um ráðvendni og orðheldni viðhefur slík orð, þá er ástæða til að huga að hvað að baki stendur.
    Við bentum á það sjálfstæðismenn þegar samningurinn var gerður að augljóst væri að ríkisstjórnin ætlaði að greiða hann með innistæðulausri ávísun. Við bentum á það hér á Alþingi að það væri rétt, ef hæstv. ríkisstjórn teldi forsendur breyttar, að bregðast þá við með því að óska eftir umræðum við gagnaðilann og það varð niðurstaða Félagsdóms að það hefði verið rétt upphafsaðgerð. Við vöruðum við því að ríkisstjórnin ákvæði einhliða að framkvæma ekki samninginn. Sú viðvörun var staðfest í Félagsdómi. Við vöruðum við því að þó að bráðabirgðalögin séu að formi til um kjarasamning en að efni til um niðurstöðu dómsins stönguðust þau á við almennar siðferðisreglur. Og nú er svo komið að jafnvel prófessorar í lagavísindum við Háskóla Íslands telja að ríkisstjórnin hafi verið á þeirri bjargbrún að í fyrsta skipti í manna minnum telja menn að líta hafi þurft til forseta Íslands til öryggisgæslu um stjórnarskrána vegna athafna ríkisstjórnarinnar, og taldi hæstv. forsrh. þá nauðsynlegt að ganga úr þingsalnum þegar þessi ummæli voru viðhöfð.
    Þetta er sagan á bak við málflutning sjálfstæðismanna í þessu efni. Ef Sjálfstfl. hefði tekið ákvörðun um að greiða atkvæði í þessu máli á annan veg en hefur falist í ummælum hans og afstöðu frá því að þetta mál kom fyrst upp í maí 1989, þá hefði verið hægt að tala um hræsnisyfirbragð. Því miður hefur farið fyrir hæstv. viðskrh. í þessu efni að hann hefur haft endaskipti á hefðbundinni rökvísi sinni.
    Förum þá örfáum orðum um ræðu hæstv. forsrh. Hann hóf ræðuna á því að hann hefði sem allra minnst ætlað að segja við Alþingi af þessu tilefni. Það var nokkuð athygli verð yfirlýsing í ljósi þess að hér er um að ræða mál sem hann sjálfur hafði gert að fráfararatriði og hann sjálfur hafði gert að tilefni til hótana um meira gerræði gagnvart stjórnskipun landsins en dæmi eru til um í sögunni. Og þegar það kemur til umræðu á Alþingi, þá er virðing hans fyrir þeirri stofnun sú að hann hefði helst sem minnst ætlað að segja við Alþingi af því tilefni. Hefði ekki verið eðlilegt að hæstv. forsrh. svaraði í örfáum orðum spurningum og athugasemdum um það hvers vegna hann lét hæstv. fjmrh. ráða því gegn vilja sínum að farið yrði að með ólögmætum hætti þegar hann sjálfur vissi að sú aðferð var röng? Hæstv. ráðherra gerði enga tilraun til þess að skýra þetta út. Hefði ekki verið hægt að ætlast til þess að hæstv. forsrh. gerði hér grein fyrir því hvers vegna engin lögfræðiálit eru birt nú sem hæstv. ríkisstjórn segist hafa stuðst við, hvers vegna hæstv. ríkisstjórn getur ekki beitt lögfræðiáliti ríkislögmanns um álitaefni í þessu tilviki? Lýsir það ekki nokkuð vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar að standa á gati þegar slíkar spurningar eru bornar fram? Hefði ekki verið ástæða til að hæstv. forsrh. svaraði því hér hvers vegna hann hafði að engu aðvaranir Vinnuveitendasambandsins og fjölmargra annarra aðila um það að einhliða ákvörðun um að framkvæma ekki samningana stæðist ekki lög? Engin svör við því og þannig mætti lengi telja.
    Kjarni þessa máls lýtur auðvitað að þeim markmiðum sem menn hafa sett sér, annars vegar þeim að standa svo að stjórnarathöfnum að þær samræmist lagareglum og siðgæðiskröfum og hins vegar þau að vinna hér markvisst að því að ná jafnvægi í efnahagsmálum. Fjölmörgum spurningum var af því tilefni beint hér til hæstv. forsrh. Á daginn hefur komið og umræðan hefur leitt í ljós að það er fyrst og fremst hæstv. ríkisstjórn sem með stjórnarathöfnum sínum er að skara eld að verðbólgunni. Það hefur verið innt eftir því í umræðunni hvers vegna peningamagn í umferð hefur aukist langt umfram verðlagsforsendur á þessu ári. Við því fengust engin svör. Ég hef áhyggjur af því, sagði hæstv. forsrh. Og þegar spurt var um það hvers vegna vextirnir hefðu hækkað en ekki lækkað eins og lofað var, þá svaraði hæstv. forsrh.: Ég hef áhyggjur af því. Og þegar hann var inntur eftir því hvers vegna Seðlabankinn kæmist að þeirri niðurstöðu að það ríkti svikalogn í efnahagsmálunum á þeim umþóttunartíma sem hér um ræðir, þá sagði hann: Það kemur mér á óvart. Eru þetta einu svörin sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að bera hér fram?
    Það liggur fyrir að þessi atriði geta og munu ráða úrslitum um það hvort hér er um tímabundið svikalogn að ræða eða hvort við náum varanlegum árangri við stjórn efnahagsmála. Og það stendur upp á hæstv. ríkisstjórn að svara þessum spurningum, jafnvel hæstv. utanrrh. þó hann eyði mörgum dögum ársins og sé langdvölum erlendis. Það er nú einu sinni svo að það eru þessar spurningar sem ráða því hvort árangur næst, en hér fást engin svör. Engin svör. ,,Það kemur mér á óvart, ég er aldeilis hissa og þetta er mér áhyggjuefni,`` eru svörin þegar spurt er um vexti og svikalogn. Og þegar spurt er um ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um nýja skatta sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sagt að brjóti algjörlega gegn forsendum þjóðarsáttarsamninganna, þá vitnar hæstv. forsrh. enn í fjárlögin og hótar því að leggja skattana á. Eru þetta svörin sem á að flytja út í þjóðfélagið?
    Hér var að því spurt hver væri munurinn á því að hækka laun um eina krónu eða leggja einnar krónu skatt á launin sem greidd eru í fyrirtækjunum. Það felst sami kostnaðarauki í því fyrir atvinnufyrirtækin. Hann ætti með sama hætti að fara út í verðlagið og raska gengisforsendum. En hæstv. ríkisstjórn segir: Það leiðir til verðbólgubáls ef launin eru hækkuð um eina krónu en það hefur engin efnahagsleg áhrif ef launakostnaður er hækkaður um eina krónu vegna þess að við ætlum að taka meiri skatta. Er þetta það sem hæstv. ríkisstjórn er að bera á borð fyrir Alþingi og þjóðina? Er þetta röksemdafærslan? Nei, hér skortir öll skýr svör. Peningamagn í umferð eykst miklu hraðar en verðlagsforsendur og kyndir undir verðbólgu. Það er verið að skjóta ríkisfjármálum á bak við uppistöðulón og kynda undir verðbólgu. Það er verið að leggja á nýja launaskatta sem kynda undir verðbólgu með sama hætti og launahækkanir. Það eru þessi atriði sem ögra þjóðarsáttinni.
    Þegar hæstv. ráðherra vitnaði til spástefnunnar og sagði að það væri eitt af því fáa jákvæða sem þar hefði komið fram að einhverjum hefði orðið að orði að vænta mætti vaxtalækkunar á næsta ári eftir þær umtalsverðu raunvaxtahækkanir sem orðið hafa á þessu ári, þá er slík yfirlýsing athygli verð í ljósi þess að hæstv. forsrh. hefur látið svo sem allt leiki í lyndi en á spástefnu Stjórnunarfélagsins virðist sú eina von hafa komið fram að í ræðu eins manns hafi verið gefin ástæða til að ætla að vextir gætu lækkað á næsta ári. Það var öll vonin sem hæstv. forsrh. fékk á spástefnu Stjórnunarfélagsins. En jafnvel þessi von hefur brugðist ef hæstv. ráðherra er búinn að lesa þá skýrslu sem hér hefur komið til
umræðu í dag frá Seðlabankanum og gefin var út í byrjun þessa mánaðar. Þar segir berum orðum, með leyfi forseta:
    ,,En hér þarf ekki mikið út af að bera til að aðstæður breytist verulega svo að hið opinbera eða aðrir geirar þurfi að sætta sig við meiri erlend lán en að er stefnt. Slík staða kynni einnig að leiða til þess að vextir á innlendum lánamarkaði hækkuðu.``
    Með öðrum orðum: Eina hálmstráið á spástefnu Stjórnunarfélagsins sem hæstv. ráðherra lýsti var tekið hér til baka og Seðlabankinn er að gefa til kynna að á eftir svikalogninu sé von á enn meiri vaxtahækkunum á næsta ári.
    Um þann árangur sem náðst hefur á lánamarkaði segir Seðlabankinn svo, með leyfi forseta:
    ,,Hér er um nokkur straumhvörf að ræða og þarf væntanlega að leita langt aftur til þess að finna sambærilega þróun. Að líkindum má rekja þennan árangur til breyttrar vaxtastefnu en háir raunvextir undanfarinna ára hafa örvað innlendan sparnað og dregið úr eftirspurn eftir lánsfé.``
    Með öðrum orðum: Seðlabankinn telur að sá árangur sem náðst hefur í því að ná jafnvægi á lánamarkaði sé breyttri vaxtastefnu að þakka. En hæstv. forsrh. hefur ekki barist jafnhatrammlega gegn nokkrum hlut eins og þeirri breyttu vaxtastefnu sem skilað hefur þessum árangri.
    Og svo segir Seðlabankinn: ,,Vissar líkur benda því til að nú sé svikalogn á lánamarkaðnum og það geti breyst skyndilega.`` Og síðan: ,,Hætt er við að stjórntæki á sviði peninga- og lánamála nægi ekki til að viðhalda jafnvæginu þegar efnahagshjólið fer að snúast hraðar heldur verði að treysta á verulegt framlag ríkisfjármála í þeim efnum.`` Og fyrir liggur að á því sviði er allt í uppnámi.
    Það eru þessi atriði sem hæstv. ríkisstjórn þarf að svara launafólkinu í landinu. Það var athygli vert þegar hæstv. forsrh. fór að snúa út úr ummælum mínum á einkar ómerkilegan hátt þegar ég ræddi um árangur af launastefnu í framkvæmd hér og annars staðar með því að reynslan hefur sýnt að of oft hafa slíkar tilraunir misheppnast vegna þess að um er að ræða mikla miðstýringu sem leiðir oft til þess að miklum vanda er safnað fyrir og þegar til kastanna kemur verður verðbólgusprengingin meiri en reynt var að koma í veg fyrir í upphafi. Of oft hefur þetta verið reynslan. En ég tók skýrt fram: Eigi að síður töldum við sjálfstæðismenn, og höfum oftsinnis talið, rétt að standa að slíkum tilraunum og það töldum við rétt í þetta sinn. Samt sem áður sá hæstv. forsrh. ástæðu til að snúa út úr þessum ummælum á einkar ómerkilegan hátt, kannski í trausti þess að einmitt slíkir ómerkilegir útúrsnúningar yrðu helst fréttaefni fjölmiðlanna en hinar efnislegu umræður fengju ekki að koma þar fram.
    Það var talað um frjálshyggju. Það að launafólkið í landinu fengi að standa að kjarasamningum með frjálsum hætti var flokkað í máli hæstv. forsrh. undir hina verstu frjálshyggju. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra: Eftir ræðu hv. þm. Geirs Gunnarssonar, sem efnislega er með miklu markvissari orðum, sagði nákvæmlega þá sömu hugsun og ég hér fyrr í dag um að hér væri um að ræða stund milli stríða, ætlar hæstv. forsrh. eftir ræðu hv. þm. Geirs Gunnarssonar að halda því fram enn að þessi gagnrýni feli í sér einhverja skelfilega frjálshyggju? Ef skilja á orð hæstv. ráðherra á þann veg að hugsjón hans sé sú ein að binda kjarasamninga ævarandi með lögum og ekkert annað ráð sé til gegn verðbólgu en ólög og sviknir samningar og kaupmáttarrýrnun en frjálshyggja sé hið gagnstæða, þá er ég ánægður með lýsinguna. Og ég fæ ekki skilið annað en að það sem fyrir hæstv. ríkisstjórn vakir og það sem er hugsjón hennar sé þetta eitt, að í baráttunni við verðbólguna eigi að beita ráðum svika, lögbrota og kaupmáttarrýrnunar en öll almenn efnahagsstjórn eigi að fara lönd og leið. Þetta er í raun og veru sú lýsing sem hæstv. forsrh. er sjálfur að gefa með útúrsnúningum sínum í varnarræðu sinni hér fyrr í dag.
    Það var vikið að álitum Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka. Það er um margt athygli vert að þessar merku stofnanir skuli komast að svo ólíkri niðurstöðu en þó ekki. Ég hygg að bæði þessi álit eigi við gild rök að styðjast, allt fer það eftir því hvaða forsendur menn gefa sér. Auðvitað er það svo að afnám eða fall bráðabirgðalaganna getur í framhaldi, þegar víxlverkunarákvæði annarra samninga koma til framkvæmda, leitt til mjög vaxandi verðbólgu, hugsanlega jafnvel meiri verðbólgu en Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir. Með öðrum orðum: Þetta getur gerst. En hin spurningin er: Þarf þetta að gerast? Og þá segi ég nei. Álit hagfræðideildar Seðlabankans er einmitt byggt á þessu. Þetta þarf ekki að gerast ef vilji er fyrir hendi.
    Hæstv. forsrh. hefur aldrei leitað eftir þjóðarsátt hér á Alþingi um framkvæmd þessara mála. En það hefði kannski verið farsælla, þegar hann lenti í minni hluta í ríkisstjórninni vegna þeirrar staðföstu ákvörðunar hæstv. fjmrh. að fara að ólögum í málinu, að leita þjóðarsáttar hér á Alþingi hjá öðrum öflum, jafnvel meiri hluta Alþb. sem ég er sannfærður um að hefði ekki fylgt hæstv. fjmrh. í því máli. Hefði ekki verið nær að leita þjóðarsáttar hér á Alþingi? Og ætli það sé ekki svo að jafnaugljóst og það er að ef það hefði verið gert, þá stæðu menn í öðrum sporum en í dag, að það er enn hægt að leita þeirrar þjóðarsáttar? Það er enn hægt að freista þess að ná hér meirihlutasamstöðu um vinnubrögð sem eru í samræmi við lög og reglur og almenna siðgæðisvitund fólksins í landinu. Ég held að það sé þetta sem hagfræðideild Seðlabankans hefur haft í huga og ég hygg að hver einasti maður í landinu geri sér grein fyrir því. Afnám bráðabirgðalaganna gæti leitt til verðbólgu en það þarf ekki að gera það. Það er kjarni málsins.
    Við sjálfstæðismenn höfum lýst því yfir að við værum tilbúnir til viðræðna við hvern sem er, aðra stjórnmálaflokka og hagsmunasamtök í landinu til þess að tryggja þann árangur. Ég minni hæstv. forsrh. á, sem fer hér með miklar lýsingar á því hvað mundi gerast ef kjarasamningar háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna yrðu nú opnaðir, að hann sjálfur hefur sett lög sem segja þeim samningum upp í september á næsta ári. Og hver er nú munurinn? Það fer kannski eftir því hvað menn horfa langt fram á við þegar þeir setja sér efnahagsleg markmið. Þegar ég er að tala um þjóðarsátt í baráttunni við verðbólguna er ég að tala um að hún geti staðið a.m.k. allan næsta áratug og menn horfi ekki skemur fram í tímann. Ef menn setja sér það mark að allan næsta áratug, til loka þessarar aldar, hleypum við ekki verðbólgunni af stað á nýjan leik, hverju munar þá hvort samningar opnast átta eða níu mánuðum fyrr eða seinna? En það getur kannski munað hjá þeim sem hugsa svo skammt að

það eigi aðeins að skapa hér svikalogn rétt fram yfir kosningar.
    Í raun og veru bar varnarræða hæstv. forsrh., svo máttlaus sem hún var og merkingarlaus, ekkert annað með sér en að markmið hæstv. ríkisstjórnar væru ekki háleitari og skilaboðin sem hún hefði að færa til launafólksins í landinu, sem fært hefur að fórn 15% kaupmáttarrýrnun, væru ekki önnur en þau að hæstv. ríkisstjórn væri að búa sér til svikalogn fram yfir kosningar eins og Seðlabankinn hefur rækilega bent á í gagnmerkri greinargerð.