Launamál
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu vekur upp margar spurningar um vandmeðfarin álitamál sem varða nokkra grundvallarþætti íslenskrar stjórnskipunar, rétt til útgáfu bráðabirgðalaga, spurningar um þingrof, um vinnubrögð byggð á þingræðisreglu og virðingu fyrir lýðræði. Maður skyldi því ætla að forustuflokkur stjórnarandstöðunnar, sem öðrum fremur getur stært sig af því að hafa innan borðs marga löglærða menn, marga menn sem eru handgengnir hinum lögfræðilega þankagangi, fjölluðu um þessi álitamál af yfirvegun, stillingu og þekkingu en létu sér ekki nægja að efna til pólitísks upphlaups, mála hlutina í svörtu og hvítu eins og hefur verið rauði þráðurinn í ræðum þeirra hér í dag.
    Þeir hafa haft uppi stór orð um núv. ríkisstjórn og stjórnarflokka sem eins konar valdaránsmenn, brotamenn gagnvart grundvallarþáttum stjórnskipunar, siðlausa menn, valdaræningja. Á öðrum vettvangi hefur formaður flokksins líkt gerðum þessarar ríkiss
tjórnar við Estrup hinn danska sem mun vera þekktur vel úr íslenskri sögu og danskri og þeir munu læra mikið um í lagadeildinni.
    Stór orð en ekki að sama skapi vel rökstudd. Engu að síður er það svo að þetta mál sem á dagskrá er er þess eðlis að það ætti að kalla fram hér á Alþingi Íslendinga málefnalegar umræður því að orðaleppar sjálfstæðismanna duga skammt. Þeir t.d. virðast byggjast á átakanlegu pólitísku minnisleysi. Sjálfstfl. lætur eins og hann sé flokkur hinna óflekkuðu handa eða hins pólitíska meydóms sem aldrei hafi difið hendi í kalt vatn íslenskra stjórnmála. Þeir hafa kannski aldrei staðið fyrir beitingu bráðabirgðalaga. Þeir hafa kannski aldrei staðið fyrir íhlutun í eða afnámi kjarasamninga og borið við rökum um hina brýnu nauðsyn sem bar til og vegna þeirrar ábyrgðar sem þeir höfðu þá á þjóðarhag --- eða hvað?
    Formaður flokksins hlýtur að minnast þeirra daga þegar hann var framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands og beitti sér sem slíkur fyrir kjarasamningum. Hann má einnig minnast þess að sem þingmaður kom hann hér inn á hið háa Alþingi og greiddi atkvæði með því að nema þá samninga úr gildi. Hann hefur einnig átt aðild að þjóðarsátt svokallaðri sem að vísu bar ekki sambærilegan árangur á við það sem við nú ræðum og metum. Hann hefur reyndar einnig sem fjmrh. staðið fyrir kjarasamningum við opinbera starfsmenn sem voru þess eðlis að af hlaust verulegt launaskrið, þensla, verðbólgualda. Þetta er ekkert nýtt fyrir formanni Sjálfstfl., ekkert nýtt fyrir hinum þingreyndu forustumönnum Sjálfstfl., ekkert nýtt fyrir lögfræðingagengi Sjálfstfl. Þess vegna ættu þeir ekki að tala um málið eins og þeir hafi aldrei komið nálægt slíkum málum. Þeir ættu ekki í þessum málum að mála hlutina í þeim öfgakenndu litum sem þeir hafa tamið sér.
    En það er ástæða til að spyrja hinna raunverulegu spurninga sem snerta kjarna málsins sem er á dagskrá. Hefur eitthvað það gerst sem brýtur í grundvallaratriðum í bága við reglur íslenskrar stjórnskipunar? Hefur núv. ríkisstjórn unnið sér til óhelgi með útgáfu bráðabirgðalaga, með íhlutun í kjarasamninga? Hefur hún misbeitt bráðabirgðalagavaldinu? Vegna þess að ef mark ætti að taka á öllum orðaflaumi þeirra sjálfstæðismanna þá eru þeir raunverulega að segja, og þetta er flokkur lögfræðinganna, að þess sé að vænta að þessum löglausu athöfnum valdaræningjanna verði hnekkt fyrir dómi. Hvers vegna nota menn ekki tækifærið og tíunda rökin sem ætti að bera fram fyrir þeim rétti? Það er mikil spurning.
    Ég segi þessi mál vekja upp margar spurningar og fjarri sé mér að halda því fram að allt sem þeir sjálfstæðismenn hafi hér sagt sé að tilefnislausu eða tómt fleipur. Það er ekki svo. Ef þeirra málflutningur er sá að ríkisstjórnir á Íslandi hafi á undanförnum árum ofnotað bráðabirgðalagavaldið má færa veigamikil rök fyrir því. Ef þeir væru flokkurinn sem hefði í íslenskri þjóðmálaumræðu beitt sér fyrir því, hvort heldur væri hér á hinu háa Alþingi eða t.d. í stjórnarskrárnefnd, að afnema bráðabirgðalagavald ríkisstjórna svo að ég fari nú rétt með, bráðabirgðalagavald forseta, þá væri kannski meira mark á þeirra orðum takandi. Ég hef ekki heyrt í þessum umræðum né heldur umræðunum fyrr þau rök borin fram sem benda til þess að hér hafi verið framdar löglausar athafnir sem líkur eru til að hlutlaus dómstóll muni hnekkja. Allra síst ef þannig fer, sem nú mun stefna í, að meiri hluti Alþingis staðfesti bráðabirgðalögin þá hefur löggjafarvaldið lýst vilja sínum. En það eru margar spurningar sem hafa verið vaktar upp og ég vil nota þetta tækifæri til þess að svara hinum helstu þeirra.
    Fyrsta spurningin sem ber að svara er: Bar ekki brýna nauðsyn til bráðabirgðalagasetningar eftir að BHMR - samningurinn hafði verið gerður og átti að koma til framkvæmda og eftir að þjóðarsáttarsamningarnir höfðu verið gerðir? Þá segja menn gjarnan sem svo: Það var sýnt að BHMR - samningurinn var ósamrýmanlegur þjóðarsáttinni. Þess vegna átti ríkisstjórnin að grípa til aðgerða strax og segja samningnum upp eða leggja hann undir dóm Alþingis á tímabilinu einhvern tíma frá febrúar og fram að vori. Spurningin er með öðrum orðum: Hvers vegna var það ekki gert?
    Það er ekkert launungarmál að eftir að þjóðarsáttarsamningurinn var gerður, þá voru þær spurningar vaktar í ríkisstjórn Íslands hvort BHMR - samningurinn samrýmdist þjóðarsáttinni og hvort ekki væri nauðsynlegt að segja honum upp. Hér erum við komin að spurningu um túlkun. Svör þeirra sem fyrst og fremst höfðu staðið í gerð samningsins fyrir hönd ríkisvaldsins, þ.e. hæstv. forsrh. og fjmrh., voru þau að að þeirra mati væri ákvæði 1. gr. samningsins þess efnis að hann gæti ekki komið til framkvæmda vegna þess að af því hlytist röskun á launaþróun í landinu. Þetta var túlkun forsvarsmanna ríkisvaldsins studd álitsgerðum þeirra lögfræðinga sem ríkisvaldið þáði ráð hjá sem lögfræðilegra sérfræðinga.
    Forsrh. hefur síðan lýst því yfir að ef hann hefði haft ástæðu til að ætla á þeim tíma að þessi túlkun

stæðist ekki, en undir þessa 1. gr. höfðu báðir samningsaðilar skrifað að sjálfsögðu, þá hefði hann aldrei gert þennan samning. Nú geta menn sagt að öll samningsgerðin við BHMR hafi verið blekkingariðja. Það hafi aldrei staðið til að efna þennan samning. Hann hafi verið óefnanlegur, eins og menn hafa notað þau rök að kjarasamningur með ákvæði um að samningsaðilinn eigi ævinlega að fá hærra í sinn hlut, allan ávinning annarra kjarasamninga, muni ævinlega leiða til einhverrar röskunar. Að vísu eru þetta hártoganir. Staðreyndin er sú að þarna voru samningsaðilar ríkisins í góðri trú og þeir voru studdir rökum þeirra lögfræðinga sem ríkið hefur í sinni þjónustu. Það er kannski hægt að segja að lögfræðingar í þjónustu ríkisins séu þetta miklu verri lögfræðingar en aðrir. En það er engin ástæða til þess að fara mikinn og segja: Þetta er blekkingariðja frá upphafi. Við erum hér að fjalla um túlkun á kjarasamningi.
Ágreiningur varð um þá túlkun. Það var farið að réttum reglum í því. Félagsdómur túlkar ágreiningsefni. Hann er ekki venjulegur dómstóll. Hann túlkar ágreiningsefni um gerða kjarasamninga. Það er svo laukrétt mál að túlkun Félagsdóms varð önnur vegna þess að hann hélt því fram að afleiðingar samningsins hefðu verið fyrirsjáanlegar þegar samningurinn var gerður. Þetta er túlkun. Engu að síður kom það á daginn, fljótlega eftir að Félagsdómur hafði kveðið upp sinn úrskurð, að þá reyndi á forsendur þjóðarsáttarinnar sem var sú að hún var beinlínis gerð á þeirri forsendu að allir sætu við sama borð. Og hún var gerð á þeirri forsendu að vinnuveitendur höfðu skuldbundið sig til þess við forustumenn launþega í þeim samningum að ef aðrir fengju meira en þjóðarsáttin kvað á um, þá skyldi það ganga yfir alla línuna, til 90% launþega sem höfðu samþykkt þjóðarsáttarsamningana. Þannig að þessi forsenda sem Félagsdómur gaf sér, menn geta sagt að hún sé formlega rétt, en hún stóðst ekki efnislega. Svarið við spurningunni um það hvers vegna BHMR - samningurinn var ekki lagður fyrir Alþingi meðan það starfaði er raunar einfalt. Það var ekki eðlilegt að þeir sem höfðu þessa túlkun byggða á 1. gr. samningsins sæju ástæðu til þess að leggja hana fyrir þing á þeim tíma.
    Í annan stað hafa menn haldið því fram að með setningu bráðabirgðalaganna hafi ríkisstjórnin gert sig seka um það ódæði að setja lög á dómsniðurstöðu, að setja lög á dóm. Þetta stenst alls ekki. Bráðabirgðalögin voru ekki lög á dóm. Bráðabirgðalögin námu ekki úr gildi niðurstöðu Félagsdóms, sem var framkvæmd, þessi 4,5% kauphækkun sem um var að ræða upp í samningana var greidd. Síðan var samningunum sagt upp en bráðabirgðalögin námu hluta samningsins úr gildi með lögum og námu þannig úr gildi réttarheimildir samningsins. En því verður ekki haldið fram með réttum rökum að bráðabirgðalögin séu lög á dóm. Því er síðan við að bæta að dómsniðurstaða bindur ekki hendur löggjafarvaldsins. Það hefur enginn lögfræðingur haldið því fram og getur enginn lögfræðingur haldið því fram. Það er aðskilnaður löggjafarvalds og dómsvalds og framkvæmdarvalds.

Og það er meira að segja margvísleg skipting valda í þessu þjóðfélagi, kannski, eins og einhver lögfræðingur var nýlega að benda á, flóknari en þetta. Valdinu er skipt milli ríkisvalds og sveitarfélaga, milli dómsvalds og framkvæmdarvalds en stundum eru óskýr mörk þarna á milli. En það er alveg á hreinu að dómsniðurstaða bindur ekki hendur löggjafans. Það er líka alveg á hreinu að bráðabirgðalöggjafinn hefur sama vald og löggjafinn. Því verður ekki hnekkt fyrr en Alþingi sjálft hefur breytt þeirri niðurstöðu. Löggjafinn hefur þetta óumdeilanlega vald og það er ekki rengt. Hitt er svo allt annað mál hvort menn eru þeirrar skoðunar að það væri skynsamlegt í framtíðinni að nema úr gildi rétt til setningar bráðabirgðalaga, en það hefur ekki verið gert. Ýmsir flokkar hafa flutt um það tillögur en þær hafa ekki náð meirihlutafylgi á Alþingi og ekki í stjórnarskrárnefnd þar sem þær hafa verið fluttar. Og þær hafa ekki verið fluttar af sjálfstæðismönnum.
    Því hefur verið haldið fram líka, það er eitt álitamálið, að ríkisstjórnin hafði ákveðið einhliða, án undangenginna samningaumleitana, að ógilda BHMR - samninginn eða hindra framkvæmd hans. Þetta er heldur ekki rétt vegna þess að júlímánuður fór að mjög verulegu leyti í samningaumleitanir við forsvarsmenn BHMR. Um hvað snerust þær? Þær snerust um það að fá BHMR til þess að gera þær breytingar með samningum að samningar þeirra rúmuðust innan þjóðarsáttar. Þær snerust um það að fá þá til þess að fresta framkvæmd sumra þátta samningsins. Og þær byggðust á þeim röksemdum, sem enginn fær hnekkt, að ef þessi víxlhækkanaverðbólga hefði farið af stað hefðu meðlimir BHMR, eins og allir aðrir launþegar í landinu, verið miklum mun verr settir eftir en áður, út frá beinu hagsmunagæslusjónarmiði þeirra sjálfra. Þessar samningaumleitanir báru ekki árangur. Forsrh. rakti það í ræðu sinni hér áðan að þeim hefði verið haldið áfram fram á seinustu stund þangað til komið var að því að Vinnuveitendasambandið ætlaði að fara að framkvæma útborgun á þeim 4,5% sem þeir sögðust vera skuldbundnir að láta ganga yfir alla línuna. Þá, þegar í nauðir rak, en fyrr ekki, greip ríkisstjórnin til bráðabirgðalagavaldsins og þá var ekki tími til þess að kalla Alþingi saman eins og skýrt kom fram í ræðu forsrh.
    Af ræðum þeirra sjálfstæðismanna mætti ætla að þetta væri allt saman einsdæmi, aldrei nokkurn tíma gerst annað eins. Því er haldið fram að þessi bráðabirgðalög hafi verið sértæk og þau hafi ekki haft almennt gildi og séu þess vegna brot á stjórnarskránni. Þetta er heldur ekki rétt. Bráðabirgðalögin tóku til allra gildandi kjarasamninga. Eftir að fyrir lá skjalbundið að Vinnuveitendasambandið og Alþýðusambandið, sem höfðu gert samninga fyrir 90% launþega, ætluðu að hrinda víxlhækkuninni af stað með því að greiða 4,5%, þá er það alveg ljóst að þessi bráðabirgðalög stöðvuðu víxlhækkanaverðbólgu og, ef menn vilja, framkvæmd kjarasamninga sem náðu því sem næst til 100% launþega í landinu. Þau höfðu almennt gildi, þau tóku ekki á sérstökum hópi. Þau náðu til

því sem næst allra launþega í landinu. Þau eru ekki einsdæmi og þau styðjast við ótal fordæmi. Sá flokkur sem talar hér af hvað mestri vandlætingu um þetta, Sjálfstfl., hefur sjálfur staðið ótal, ótal, ótal mörgum sinnum að bráðabirgðalögum sem hafa slíka almenna skírskotun.
    Því er haldið fram að bráðabirgðalagavaldinu hafi ekki mátt beita eftir að Félagsdómur hafði kveðið upp sína túlkun og skorið úr um ágreining á túlkun einstakra greina BHMR - samningsins. Ég spyr hina löglærðu í Sjálfstfl.: Hversu mörg dæmi eru um það að löggjafarvaldið hafi breytt lögum í framhaldi af dómsniðurstöðu af mörgum ástæðum? Vegna þess að dómurinn leiddi í ljós einhverjar veilur í löggjöfinni, vegna þess að dómurinn byggðist á túlkun sem var önnur en raunverulegur vilji löggjafans hafði verið. Fyrir þessu eru ótal, ótal mörg dæmi og hefur þó enginn haldið því fram að breytingar á slíkri löggjöf hafi verið löggjöf á dómsniðurstöðu.
    Því er haldið fram að ekki hafi borið brýna nauðsyn til að setja þessi bráðabirgðalög, það leiki vafi á um það. Svarið við því er alveg afdráttarlaust að mínu mati nei. Það er enginn vafi á þeirri brýnu nauðsyn. Eftir að Vinnuveitendasambandið og Alþýðusambandið höfðu skjalfest að þau teldu sig til knúin, vegna forsendna þjóðarsáttarinnar, að láta þetta ganga til allra launþega og vitað var að í næstu lotu gæti BHMR samkvæmt gildandi samningi sótt hið sama, þá var auðvitað búið að aftengja tímasprengju, þá var auðvitað búið að setja af stað víxlhækkanaverðbólguskriðu, víxlhækkanir launa og verðlags sem engan enda sá fyrir og hefði kollvarpað stöðugleika í þjóðfélaginu og farið verst með kjör þeirra sem þarna áttu mestan hlut að máli, launþegana í landinu sem öll reynslan tekur af öll tvímæli um. Þegar ég segi ,,búið að aftengja tímasprengju``, þá geta menn sagt: Já en sú tímasprengja var í BHMR - samningnum. Svarið við því er að það var ekki mat þeirra sem samninginn gerðu. Það var hins vegar gert með úrskurði Félagsdóms að staðfesta að svo væri og við því varð að bregðast. Ég sagði á sínum tíma í ljósi þessarar þróunar að BHMR - samningurinn hefði að þessu leyti verið mistök. Ég er þeirrar skoðunar enn. En verða menn minni menn af því að bæta fyrir mistök sín? Ég spyr: Hvað hefðu sjálfstæðismenn sagt ef ríkisstjórnin hefði horft upp á þessa hluti gerast og ekkert hafst að af því að hún þorði ekki að bæta fyrir mistök sín?
    Það er staðreynd að þjóðarsáttarsamningarnir, sem eru merkilegt framlag til þess að keyra hér niður verðbólgu, koma á stöðugleika, leggja grundvöll að betri framtíð í íslenskri hagstjórn og efnahagsmálum, tryggja atvinnuöryggi, þessir merkilegu samningar hefðu aldrei verið gerðir ef ekki hefði staðist sú meginforsenda að allir skyldu sitja við sama borð. Og það er heldur ekkert launungarmál að að þeim samningum komu margir aðilar, ekki einungis launþegasamtökin, 90% launþega í landinu, vinnuveitendasamtökin, ríkisstjórnin, bankarnir, samtök bænda og allir voru sammála um þessar forsendur. Það hefur verið samstaða um það í þessari ríkisstjórn að segja: Við berum ábyrgð, hún hvílir á okkar herðum, og okkur ber siðferðileg skylda til þess að gera allt sem gera þarf innan löglegra marka til að tryggja að forsendur þjóðarsáttarinnar haldist. Við erum ekki minni menn fyrir og biðjumst ekki afsökunar á því.
    Lögfræðingagengi Sjálfstfl. hefur farið á flot með nokkrar lagakenningar sem eiga að renna stoðum undir þá fullyrðingu að bráðabirgðalögin hafi brotið í bága við stjórnarskrána. Rifjum nú upp barnalærdóm lögfræðinganna. Hvaða skilyrði þurfa bráðabirgðalög að uppfylla til þess að þau standist stjórnarskrá? Að brýna nauðsyn beri til setningar laganna. Hver metur það? Það metur löggjafinn að sjálfsögðu, vegna þess að það kann að vera pólitískt álitamál. Í annan stað að Alþingi sitji ekki og sýna megi fram á það að tímans vegna eða annarra aðstæðna sé ekki unnt með eðlilegum fyrirvara að kalla Alþingi saman. Ég hef þegar svarað því að það var ekki hægt við þessar aðstæður. Og í þriðja lagi að bráðabirgðalögin brjóti ekki í bága við stjórnarskrá að öðru leyti og verði staðfest á næsta Alþingi.
    Þeir hafa haldið því fram í lögfræðigenginu að bráðabirgðalögin brjóti í bága við 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrískiptingu valds, þessa frægu þrískiptingu: löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald. Ég hef þegar sagt: Félagsdómur er ekki venjulegur dómstóll. Hann er úrskurðaraðili sem kveður upp úrskurð um ágreiningsmál um túlkun kjarasamninga. Þótt hér væri um að ræða dómstól í venjulegri merkingu þess orðs, þá bindur niðurstaða dómstóls ekki hendur löggjafans. Bráðabirgðalögin voru ekki lög á dóm. Þau breyttu réttarheimild sem er forsenda fyrir túlkun Félagsdóms. Úrskurður Félagsdóms er ekki óumbreytanlegur. Dómsvaldið getur ekki svipt löggjafarvaldið sínu valdi samkvæmt verkaskiptingunni vegna þess að löggjafinn, hvort heldur er Alþingi eða bráðabirgðalöggjafinn, hefur óumdeilanlega þetta vald. Og að halda því fram að hér hafi verið brotið í bága við þrískiptingu valdsins er öfugmæli.
    Í annan stað segja þeir: Þetta er brot á 22. gr. stjórnarskrárinnar vegna þess að það bar ekki brýna nauðsyn til. Ég er margbúinn að svara því í raun og veru. En aðalatriðið er þó þetta að löggjafinn metur það sjálfstætt. Dómstólar hafa hingað til ekki lagt mat á það vegna þess að þeir hafa ekki lagt það í vana sinn réttilega að kveða upp sem dómarar úrskurði um pólitísk álitaefni. Það er ekki dómstóla að kveða upp úr um ágæti þjóðarsáttarsamninga eða taka afstöðu til þess hvor hafi rétt fyrir sér, ég sem segi: Þeir eru einhverjir merkustu, þýðingarmestu kjarasamningar sem gerðir hafa verið á undanförnum árum, eða sjálfstæðismenn sem tala um svikasátt. Þetta er ekki verkefni dómstóla. Dómstólar fjalla að sjálfsögðu um spurninguna: Er þetta samrýmanlegt lögum, stjórnarskrá og réttri stjórnskipun? En það er annars vegar mat á reglum sem eiga að gilda og hins vegar pólitískum veruleika. Hið síðarnefnda er ekki á verksviði dómstóla. Það er síðan hafið yfir allan vafa hverjar afleiðingarnar hefðu orðið ef BHMR - samningarnir hefðu verið framkvæmdir slíkir sem þeir voru samkvæmt túlkun

og úrskurði Félagsdóms. Það hefði leitt til keðjuverkandi kauphækkana, verðhækkana og gengisfellingar. Ég er persónulega þeirrar skoðunar að mat Þjóðhagsstofnunar á því sé í varfærnara lagi vegna þess að ég vefengi að gengið hefði staðist þá áraun. Ég efa það og tel raunverulega meiri líkur fyrir því að það hefði orðið að láta meira undan síga og verðbólgan hefði orðið enn meiri.
    Ég hefði ekki viljað standa í sporum þeirra manna sem ætluðu að bera ábyrgð á því að svo færi. Það dugar mér ekki sem rök að segja: Engin ríkisstjórn hefði látið slíkt gerast --- vegna þess að það hefði engin ríkisstjórn verið í landinu. Ef þessi bráðabirgðalög hefðu verið felld hefði ríkisstjórnin að sjálfsögðu sagt af sér. Það hefði áreiðanlega tekið langan tíma að mynda nýja ríkisstjórn. Ég leyfi mér að láta í ljós efasemdir um það að Sjálfstfl. hefði getað myndað starfhæfan þingmeirihluta og ég geri ráð fyrir því að friðurinn hefði verið rofinn og hér hefði allt verið logandi í verkföllum og pólitískt upplausnarástand. Og hverjir hefðu orðið fórnarlömb þess? Það eru þeir launþegar sem áttu stærstan hlut að máli og þá hefðu komið fyrir lítið allar yfirlýsingarnar um réttlætið og siðferðið og dyggðirnar sem sjálfstæðismenn eru að hreykja sér hér af. Enda var þetta auðvitað svo. Þetta átti ekkert skylt við eitthvert siðferðilegt mat. Þetta var bara pólitískt trikk sem átti að leika af því að þeir héldu að það mundi henta sér, en það fór nú svo að þetta reyndist vera búmerang.
    Þá hafa þeir haldið því fram í lögfræðingagenginu að bráðabirgðalögin séu brot á 67. gr. stjórnarskrárinnar um verndun eignarréttar og stutt það þeim frekari rökum að hér hafi þau aðeins tekið til afmarkaðra hópa, svipt þá eignarrétti á launum, sem átti eftir að vinna fyrir, án bóta. Því er til að svara í fyrsta lagi að hér var ekki um að ræða afmarkaðan hóp. Hér var um að ræða bráðabirgðalög sem tóku til allra launþega, því sem næst. Í annan stað stofnast ekki með réttum rökum til krafna vegna vinnuframlags til launa fyrr en vinnuframlagið hefur verið innt af hendi. Þannig geta laun fyrir óunna vinnu ekki flokkast undir eign í skilningi 67. gr. stjórnarskrár. Það segir sig sjálft. Það getur margt gerst í lífinu sem veldur því að launþeginn geti ekki innt þetta vinnuframlag af hendi og þannig skapað forsendur fyrir inneigninni. Ég tók eftir því að á umræðufundi með laganemum og kennurum í lagadeild vefengdu menn ekki þennan grundvallarþátt.
    Þessi bráðabirgðalög tóku ekki til þröngs hóps heldur almennt til launþega. Ef spurt væri hvort þetta hafi valdið launþegum tjóni, þá er svarið nei vegna þess að ef þetta hefði ekki verið gert hefðu launþegar orðið fyrir stórfelldu fjárhagslegu tjóni af óðaverðbólgu. Þetta var að sjálfsögðu tímabundin aðgerð en ekki varanleg. Og ef spurt er um jafnræðisreglu, sem þarna þarf að hafa til hliðsjónar, þá er því til að svara að að svo miklu leyti sem bráðabirgðalögin tóku til allra, þá var um jafnræðisreglu að ræða. Menn hafa nefnt eitt dæmi, þ.e. um aukinn hlut sjómanna í hlutaskiptakjörum vegna aukins afla. Það mundi ekki standast sem sambærilegt dæmi þannig að það er enginn vafi á því að tilraunin til þess að segja þetta brot á eignarréttarákvæði 67. gr. mun ekki standast.
    Þá segja þeir að lokum að þetta sé brot á 73. gr. stjórnarskrárinnar vegna þess að með bráðabirgðalögunum hafi verið rofið ákvæði um félagafrelsi, um rétt manna að tengjast böndum í félögum, stéttarfélögum sem öðrum. Þetta er ekki einu sinni svaravert. Bráðabirgðalögin koma þessu máli ekkert við og þessi grein stjórnarskrárinnar kemur þessu máli ekkert við. Eða ætla menn virkilega að halda því fram að bráðabirgðalög sem gefin hafa verið út í fortíðinni og ég hef ekki tölu á, svo mörg eru þau, hafi rofið grundvallaratriði stjórnarskrár varðandi félagafrelsi? Að sjálfsögðu ekki. Og hugrenningar manna um það að það veiki trú manna á gildi stéttarfélaga --- halda menn að það mundi standast fyrir dómi? Nei, það hefur enginn trú á því.
    Ég held að ég hafi hér farið yfir þær röksemdir sem hafa verið settar fram af lögfræðingagenginu um það hver þeirra málsrök yrðu fyrir dómi um það að bráðabirgðalögin brjóti í bága við stjórnarskrána. Ég hef að sjálfsögðu rætt þetta við fjöldann allan af lögfræðingum og ég hef engan lögfræðing hitt eða ekki getað rökrætt við neinn lögfræðing sem hefur trú á þessum röksemdum. Að vísu eru þeir menn til í innsta hring Sjálfstfl. sem eru lögfræðingar, eins og forustumennirnir í þingflokknum, sem eru að reyna eftir á að réttlæta sitt pólitíska axarskaft með þessum sýndarrökum. Þegar bráðabirgðalögin hafa verið staðfest af löggjafarvaldinu mun ég láta segja mér það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að rök af þessu tagi dugi til þess að dómstóll hnekki slíkum bráðabirgðalögum.
    Það er rétt að nefna það hér að af hálfu virðulegs prófessors í Háskóla Íslands hefur verið vakin upp athyglisverð spurning sem varðar æðsta embætti þjóðarinnar, forsetaembættið. Ef ég skildi rök Sigurðar Líndals prófessors rétt, þá taldi hann að meðan Alþingi sæti ekki og forseti lýðveldisins er handhafi löggjafarvalds beri honum sérstök skylda í íslenskri stjórnskipun til þess að veita aðhald framkvæmdarvaldshöfum til þess að gæta grundvallarreglna stjórnarskrár. Í því fælist að forsetinn hefði rétt til þess að synja um útgáfu bráðabirgðalaga eða rengja forsendur, t.d. með því að setja þá kröfu fram að Alþingi verði kvatt saman. Aðrir lögfræðingar sem ég hef borið þessa skoðun undir segja að þetta geti naumast staðist af þeirri einföldu ástæðu að vald forseta Íslands er í íslensku stjórnarskránni skilgreint með þeim hætti að forseti Íslands er án ábyrgðar á stjórnarathöfnum og framselur vald sitt í hendur ráðherrum. Þetta er álitamál sem ég ætla ekki að úrskurða um. En ef til þess kæmi t.d. að bornar væru brigður á brýna nauðsyn bráðabirgðalaga þá mundi ríkisstjórn væntanlega bregðast við með þeim hætti að kalla þing saman. Í þessu sérstaka tilviki hefði hins vegar skaðinn verið skeður, og vísa ég þá til þess sem forsrh. sagði, þannig að það hefði verið erfiðara viðfangs a.m.k. ef þeir dagar hefðu liðið sem hefði þurft til þess að

kveðja Alþingi saman.
    Það leikur ekki nokkur minnsti vafi á um það hverjar afleiðingarnar hefðu orðið ef þessi víxlhækkanaskriða hefði farið af stað. Um það þarf ekki út af fyrir sig neinar álitsgerðir, hvorki frá Seðlabanka eða Þjóðhagsstofnun. Það vita allir menn og þeir best, forustumenn atvinnulífsins á Íslandi, bæði úr röðum launþega og atvinnurekenda, samanber þau ummæli sem þeir menn hafa valið forustumönnum Sjálfstfl. fyrir að hafa ætlað að sýna af sér þetta botnlausa ábyrgðarleysi. Ríkisvaldið hefði vissulega brugðist og ef ég hefði verið í stjórnarandstöðu, þá hefði ég borið fram vantraust á ríkisstjórn sem hefði látið slíka atburði gerast án þess að grípa til þess valds sem hún hafði, þ.e. bráðabirgðalagavaldsins.
    Athyglisvert er það að hv. þm. Sjálfstfl. segja: Afleiðingarnar hefðu ekki orðið svona vegna þess að að lokum hefði verið mynduð einhver ný ríkisstjórn og hún hefði auðvitað gripið til einhverra aðgerða. Hvaða aðgerða hefði hún gripið til hér í logandi verkföllum og hatrömmum, illvígum kjaradeilum þegar hún hefði tekið við? Þeir svara því náttúrlega sjálfir. En ef þeir meina það sem þeir segja um ábyrgðarkennd sína og siðgæði og siðferði og siðferðilega ábyrgð á málum þá hefðu þeir auðvitað beitt lagavaldinu ef þeir hefðu getað það. Efasemdir mínar eru um það að þeir hefðu ekki haft meiri hluta á bak við sig.
    Ein er sú röksemd sem lögfræðingagengið í Sjálfstfl. hefur beitt sem er vitlausust af þeim öllum og hún er þessi: Það sem stefndi þjóðarsáttinni í voða var yfirlýsing Vinnuveitendasambandsforustunnar um að þeir teldu sig skuldbundna til þess að greiða öllum sínum samningsaðilum, 90% launþega, þessi 4,5%. Þess vegna hefði ríkisstjórnin, til að verja þjóðarsáttina fyrir þjóðarsáttarmönnum, átt að setja lög á 90% af launþegum, setja lög á þjóðarsáttina. Þetta er rökvísi sem heitir að fara eins og köttur í kringum heitan graut og þetta er það vitlausasta sem ég hef heyrt af því öllu. En þetta mun sá sem kenninguna setur fram telja vera af því tagi að það sanni endanlega rökvísi sína og snilli. Þjóðarsáttarsamningarnir hefðu aldrei verið samþykktir eins og öllum er kunnugt ef ekki hefði verið um það samið fyrir fram að allir sætu við sama borð. Síðan kemur lögfræðingurinn og segir: Nei, við hefðum átt að setja lög á þá, við hefðum átt að setja lög á þjóðina. Sá lögfræðingur sem þessu heldur fram er auðvitað að segja: Ríkisstjórnin hefði átt að rjúfa öll grið og allan frið á vinnumarkaðinum sem auðvitað hefði af þessu hlotist til að bjarga þjóðarsáttinni. Önnur eins öfugmæli hef ég ekki heyrt og ég mun láta segja mér það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar ef einhver virðulegur dómstóll sem er að fjalla um stjórnskipan Íslands mun taka mark á svona blaðri.
    Efnislega er kjarni málsins auðvitað þessi: Hefðu meðlimir BHMR eða launþegar almennt á Íslandi verið betur settir ef þessi bráðabirgðalög hefðu ekki verið sett og þessi víxlhækkanaskriða hefði farið af stað? Svarið er mjög einfalt. Þeir vita það sjálfir og það vita það allir og þeir vita það, sjálfstæðismenn að að

hefðu allir verið verr settir eftir en áður. Þess vegna bar brýna nauðsyn til að setja bráðabirgðalög til þess að forða raunverulegum þjóðarvoða. Þann skaða hefði enginn bætt þeim í hærri verðbólgu, í hærri vöxtum, í hærri greiðslubyrði skulda, í lakari lífskjörum, í ótraustara atvinnuöryggi. Því miður hefði enginn getað bætt þeim það.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson bar fram þá spurningu, og bað sérstaklega um að við ráðherrar Alþfl. svöruðum henni líka, hvort við teldum það samrýmast þingræðisreglunni að rjúfa þing og setja með bráðabirgðalögum launa - og verðlagsstöðvun í þrjá mánuði eins og áform voru uppi um. Svarið við því er mjög einfalt. Ég hefði ekki einasta talið það samrýmast þingræðisreglu, ég hefði líka talið það samræmast lýðræðisreglu. Nefnilega að ef ríkisstjórn stendur frammi fyrir því að einhver hópur, hvort heldur hann er utan þings, ég tala nú ekki um ef hann myndast á þingi, um það að hnekkja bráðabirgðalögum og hleypa af stað þessu ástandi, þá tel ég skyldu ríkisstjórnar að bregðast við. Það er misskilningur hjá hv. þm. að áform ríkisstjórnarinnar hafi verið þau að setja á sömu bráðabirgðalögin. Alls ekki. Hæstv. forsrh. hefur þegar leiðrétt þetta. Áformin voru þau að setja á nánast frystingu launa og verðlags í óbreyttu ástandi þrjá mánuði eða þann tíma sem það tæki að skjóta hinu stóra deilumáli um þjóðarsátt eða þjóðarsundrungu undir þjóðardóm samkvæmt lýðræðisreglu. Þau bráðabirgðalög hefðu að sjálfsögðu verið almenn. Það hefði að sjálfsögðu borið brýna nauðsyn til og hefði staðist alla þá mælikvarða sem íslensk stjórnskipun gerir til þess. Þau hefðu verið nauðsynleg.
    Ég ætla nú að leiða hjá mér málfundaæfingar hv. stjórnarandstæðinga þegar þeir síðan fara frá lögfræðinni sinni og byrja á hefðbundnum stjórnarandstöðuræðum um það að ríkisstjórnin hafi sjálf grafið undan þjóðarsáttinni með stefnu sinni í efnahags - og peningamálum. Ég læt það nánast liggja milli hluta í þessari umræðu. Þetta er það deilumál sem eðlilegt er að við deilum um frá degi til dags og við gerum það í stjórn og stjórnarandstöðu. En það mun enginn sannfærast á þessu kvöldi, það mun hvorugur sannfæra annan um það hvor hafi rétt fyrir sér í því efni. Rökin sem þeir hafa notað eru þau að það er halli á ríkisbúskapnum. Og ef sá hallarekstur heldur áfram ýtir hann undir verðbólgutilhneigingar, það er rétt. Á hitt er að líta að þessi halli í ríkisbúskapnum er hlutfallslega minni nú en hann var, talsvert minni. Honum hefur verið haldið í um það bil 1% af þjóðarframleiðslu en var fyrir þremur árum um 2,4%. Ef við berum saman við grannlönd okkar er það minni halli en víðast hvar annars staðar. Það hefur með öðrum orðum mjakast í rétta átt. Því er síðan við að bæta að það skiptir sköpum til þess að draga úr þensluáhrifum að þessi halli er nú að langmestu leyti fjármagnaður innan lands. Það er líka breyting til bóta.
    Ég ætla ekki að draga úr því að eitt af stærstu vandamálum næsta kjörtímabils verður að takast á við innbyggða þenslu og útgjaldaauka í ríkisbúskapnum. Það má segja að á þessu kjörtímabili hafi talsvert

áunnist. En fram undan eru stór verk að stokka upp nokkur gjaldþrota kerfi, sjóðakerfi í ríkisbúskapnum. Því miður er það svo að um það verður að kjósa og um það verður að mynda nýjan þingmeirihluta því það er ekki samstaða á Alþingi Íslendinga um að gera það og um það liggja fyrir staðreyndirnar um afgreiðslu og afstöðu þingflokka. Ég er að tala um aðgerðir til þess að bjarga fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins, Byggingarsjóðs verkamanna, bjarga Lánasjóði ísl. námsmanna sem er enn eitt gjaldþrota apparatið, sjúkratryggingum ríkisins, landbúnaðarstefnunni eins og hún leggur sig og þannig mætti lengi telja. Menn munu ekki grafast fyrir rætur þessa vanda fyrr en samstaða er um það að spretta upp þessum kerfum og breyta forgangsröð ríkisútgjalda. Það er nauðsynlegt fyrst og fremst af einni ástæðu. Þau okkar sem hafa þá pólitísku sannfæringu að við viljum festa í sessi og tryggja burðarstoðir velferðarkerfisins á Íslandi, við sem það viljum verðum að taka á þessu vandamáli. En það verður langtíma vandamál, það verður eitt af erfiðustu pólitísku úrlausnarefnunum ásamt breytingu á grundvallarþáttum í landbúnaðar - og sjávarútvegsstefnu sem bíður næsta kjörtímabils.
    Þeir segja í annan stað að áformaðar skattahækkunartillögur ríkisstjórnarinnar grafi undan þjóðarsáttinni, ýti undir verðbólgu. Hverjar eru staðreyndirnar um það? Staðreyndirnar um það eins og þær blasa við nú í fjárlagaafgreiðslunni eru þessar: Það hafa verið gerðar breytingar á tekjuöflunarlögum ríkissjóðs sem leiða til minni tekna að óbreyttu en ella hefði orðið. Ég er hér að vísa í breytingar á virðisaukaskattinum þar sem menn hafa verið að bora götin sín, undanþágu fyrir bækur og endurgreiðslan á vinnuþættinum varðandi viðhald húsnæðis, sem mun valda ríkissjóði verulegu tekjutapi. Okkur greinir á um tölurnar reyndar nokkuð. Og sú skuldbinding okkar að lækka jöfnunargjald og afnema það mun valda ríkissjóði nokkru tekjutapi. Þessu tekjutapi þarf að mæta og tillögur þurfa að verða um tekjuöflun í staðinn. Engu að síður eru forsendur þessarar fjárlagagerðar óbreytt tekjuöflun sem hlutfall af landsframleiðslu, rúmlega 27%. Tekjuöflunin er tilfærsla innan tekjuöflunargeirans en ekki nettóaukning skattbyrði.
    Að því er varðar gagnrýni á aukið peningamagn í umferð þá er það réttmæt gagnrýni. Hún beinist að peningamálastjórninni fyrst og fremst og stjórn Seðlabankans að því er það varðar. Ég held að þessi gagnrýni sé réttmæt. Hún er röksemd fyrir því að það þurfi að lagfæra þá veilu í hagstjórninni sem þetta lýsir. Til þess eru ýmsar leiðir. Ein væri sú að gera Seðlabankann að sjálfstæðari stofnun en nú er. Þá þyrfti að setja honum frá grunni nýja löggjöf og nýja stefnu og láta hann starfa með talsvert öðrum hætti en hann gerir nú. Alla vega er reynslan sú að það hefði verið slaklega stjórnað á þessu sviði og það er auðvitað fyrst og fremst á ábyrgð Seðlabankans, enda er ástæða til að taka undir með stjórnarandstæðingum þegar þeir eru að spyrja: Hefur Seðlabankinn skilað, eins og honum er skylt að gera, tillögum í núverandi kerfi til stjórnvalda um það hvernig hann hyggist ná

fastari tökum á stjórn peningamála, t.d. að því er varðar peningamagn og fleira? Ég hef ekki séð þær tillögur. ( Gripið fram í: En tillögur ríkisstjórnarinnar?) Þær eru margvíslegar. ( Gripið fram í: Hefur Seðlabankinn séð þær?) Ég er ekki í nokkrum vafa um það að þetta hefur verið á vettvangi umræðu milli bæði viðskrh. og fjmrh. í umræðum þeirra við Seðlabanka. Það segir sig sjálft. Það er á verksviði þessara ráðherra þó ég kunni ekki að greina frá því í einstökum atriðum.
    Virðulegi forseti. Þessi ræða um það að ríkisstjórnin sé að grafa undan þjóðarsáttinni er ekki mjög sannfærandi. Hún er ekki fremur sannfærandi en þegar t.d. formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl., greip til þess hér á eldhúsdegi og hefur gert það í blaðagreinum sínum að halda því fram að hagstjórn á Íslandi hafi verið að færast í átt til austur-evrópskra hagstjórnaraðferða í vaxandi mæli. Mér finnst að þeir menn sem stundum tala um nauðsyn þess að lyfta íslenskri þjóðmálaumræðu á eitthvert hærra plan og að hún megi gjarnan vera málefnalegri eigi ekki að vera með slíka sleggjudóma. Og í þessu efni ætla ég láta mér nægja að gera aðeins einn hlut.
    Ég sagði áðan: Við munum ekki sannfæra hvor annan á þessu kvöldi úr þessum ræðustól. Stundum er það nú svo að Íslendingar, stjórnmálamenn þar með taldir, taka meira mark á umsögnum hlutlausra erlendra aðila um hagstjórn. Það eru nokkrir erlendir aðilar sem hafa það verkefni að fjalla um hagstjórnaraðferðir og árangur Íslendinga og skila um það álitsgerðum, kveða upp eins konar úrskurði. Það gerir OECD, það gerir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Nýjasta greinargerð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 21. nóv. á þessu ári um breytingarnar á hagstjórn og árangur í efnahagsmálum í tíð þessarar ríkisstjórnar rúmast ágætlega í fyrstu málsgreininni í þeirri umsögn. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Grundvallarþættir íslensks efnahagslífs hafa tekið stórstígum framförum á síðustu árum. Stjórnun ríkisfjármála og peningamála hefur batnað til muna. Verðbólga hefur verið lækkuð í þriðjung þess sem hún var fyrir 1 -- 2 árum og hagkerfið kemur út úr samdráttarskeiði betur í stakk búið til þess að mæta tímum hagvaxtar.``
    Skjalið er ítarlegt. Það er afar jákvætt og óvenjulegt sem heimildarskjal um þann árangur sem náðst hefur í hagstjórn á Íslandi á undanförnum árum við erfið ytri skilyrði.
Og það þarf ekki að setja á langar ræður til þess að Íslendingar átti sig á því að þetta er rétt. Þar hafa margir aðilar lagst á eitt. Ríkisstjórnin getur ekki þakkað sér einni allan þann árangur. En hún má eiga það að frá hausti 1988 brást hún rétt við erfiðleikaskeiðinu fyrst og fremst með því að fara ekki út í gengiskollsteypu, sem hefði rofið frið og grið á vinnumarkaðinum og endað hér í 100% verðbólgu, heldur að byrja að vinna sér ráðrúm með verðstöðvun um tíma og síðan að setja sér það mark að leiðrétta raungengi krónunnar í áföngum. Því verki hafði hún lokið um það bil sem komið var að kjarasamningum. Þar

með hafði hún skapað forsendur fyrir því að hægt var að fara inn á nýjar brautir í kjarasamningum. Hún skapaði þannig forsendur fyrir þjóðarsáttarsamningunum. Þess vegna hefur tekist svo gott samstarf milli forustumanna þessarar ríkisstjórnar, forustumanna launþegasamtakanna á Íslandi og forustumanna atvinnulífsins á Íslandi um það að byggja á þessum árangri. Þarna var skapað tækifæri til þess að gera kjarasamninga sem áttu ekki að gefa mönnum svikna mynt, 20% kauphækkun, heldur með hóflegum kauphækkunum að keyra niður verðbólgu, að keyra niður vexti og að skapa stöðugleika í verðlagi og bæta þannig lífskjörin, skapa þannig grundvöll til þess að byggja á nýtt hagvaxtarskeið og nýtt framfaraskeið í íslenskum efnahagsmálum. Um þetta tókst samstaða. Það er þetta allt saman sem var í húfi ef þessi bráðabirgðalög hefðu ekki verið sett. Ég verð að játa það að ég trúði því ekki fyrir fram að forustumenn Sjálfstfl., sem skilja þetta mætavel af sinni reynslu og ætla sér kannski stóran hlut að taka hér við landsstjórn, annaðhvort einir eða með einhverjum öðrum á seinni hluta þessa áratugar, ég trúði því ekki fyrir fram að þeir væru svo ábyrgðarlausir að þeir vildu, í von um einhvern pólitískan skyndiávinning, verða til þess að rjúfa þessa þjóðarsamstöðu og efna hér til verkfalla, upplausnarástands í pólitík og efnahagsmálum, allt í nafni einhvers pólitísks ávinnings flokksins, skammtímaávinnings sem síðan enginn varð. Ég skil það vel að mennirnir þurfi að setja á langar ræður um siðferði og helst bæði rökfræði og siðferði. En helst hefðu þeir þurft að vanda lagatextana svolítið betur.
    Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.