Launamál
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Hér hafa verið fluttar margar og sér í lagi langar ræður. Það er vissulega tilbreytni í því að hæstv. ráðherrar skuli taka þátt í umræðum eins og þeir hafa gert í kvöld en óneitanlega hefði verið meiri tilbreytni í því að efni þeirra ræðna hefði verið öðruvísi en þær sem þeir hafa flutt löngum eða allt frá því í sumar um það efni sem hér er á dagskrá.
    Hæstv. utanrrh. sem hér talaði síðastur, og talar reyndar enn, vék máli sínu mest til svokallaðs lögfræðingagengis í Sjálfstfl. en var með því að tína upp m.a. röksemdir BHMR sem þeir hafa beitt í dómsmáli því sem þeir eiga í gagnvart ríkisvaldinu sem hefur svikið af þeim kjarasamninga.
    Hæstv. ráðherra velti fyrir sér hugsanlegri dómsniðurstöðu í bæjarþingsmálinu og komst að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa reifað málið bæði fyrir sjálfum sér og öðrum, að ekkert af því sem sagt hefur verið af hálfu BHMR né þeirra lögfræðinga sem skrifað hafa um þetta mál verði tekið gilt fyrir bæjarþinginu. Í raun og veru sagði hæstv. ráðherra að hann vissi þetta allt miklu betur. Hann hefði reyndar talað við sína lögfræðinga, fjölda lögfræðinga. Mér er kunnugt um það að hæstv. ráðherra var á fundi með laganemum í gær og ég er viss um að hann er betri maður eftir það.
    En nú langar mig til þess, fyrst hæstv. ráðherra kaus að klóra í bakkann með sínum lögfræðirökum, að benda honum á að einmitt þegar hann fór að ræða um þetta mál sem hér er á dagskrá, þá viðurkenndi hann að hann hefði ásamt öðrum hæstv. ráðherrum velt því fyrir sér allt frá 1. febr. hvort BHMR - samningarnir samrýmdust þjóðarsáttinni. Og hans niðurstaða var eftirfarandi og ég skal fara stuttlega með hana.
    Hann hafði samband við sína sérfræðinga. Það voru eins og hann sagði hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. sem aftur höfðu samband við lögfræðinga. Auðvitað er hæstv. utanrrh. að skjóta sér undan því að taka ábyrgð á öllu saman. Ekki benda á mig, segir í vísunni. Ekki benda á mig, segir hæstv. utanrrh., þetta var ekki mér að kenna. Og hann hengir nú bjölluna á tvo ketti í hæstv. ríkisstjórn, annars vegar forsrh. og hins vegar fjmrh. Hæstv. forsrh. hefur reyndar áður sagt að hann hafi trúað hæstv. fjmrh. í blindni. Síðan er afskaplega erfitt að fá það gefið upp hverjir þessir lögfræðilegu ráðunautar voru. Ég er að rifja þetta upp fyrir hæstv. utanrrh. vegna þess að þá trúði hann sínum ráðgjöfum. Hann trúði þeim sem höfðu talað við lögfræðinga en honum skjátlaðist.
    Nú ætla ég ekki að halda því fram að hæstv. utanrrh. viti ekki allt betur en þeir sem koma til með að dæma í bæjarþingi Reykjavíkur. Það kann vel að vera að hann viti það og ekki efast ég um að hann hafi vitað allt miklu betur en Félagsdómurinn sem komst að rangri niðurstöðu. En það kann samt að fara þannig að hæstv. ráðherra skjátlist. Ég ætla ekki að deila við hann um lögfræðileg málefni. Það liggja fyrir ýmsar greinargerðir og álitsgerðir. Ég bendi honum á fyrst, hann hefur áhuga á þessum lagalegu álitaefnum, að lesa þær aftur og kynna sér þetta og lesa síðan dóminn þegar hann kemur. Það er áreiðanlega ágætis nesti ef menn vilja lesa sér til í lögfræði.
    En bíðum nú aðeins við. Hæstv. ráðherra sagði: Við vorum að velta fyrir okkur í ríkisstjórninni hvort BHMR - samningurinn samrýmdist þjóðarsáttinni. Og hann sagðist hafa treyst orðum hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., og þó einkum orðum hæstv. forsrh. þegar hann hefði sagt --- og tökum nú vel eftir: að hann hefði aldrei gert þennan samning ef hann hefði ekki haldið að 1. greinin héldi ekki. Með öðrum orðum, hann hefði aldrei gert þennan samning ef hann hefði þurft að efna hann. Það er það sem verið er að segja, nákvæmlega það sem verið er að segja. Nú ætla ég að rifja upp fyrir hæstv. utanrrh. það sem hæstv. forsrh. sagði daginn eftir að samningarnir voru gerðir við BHMR. Þetta er orðrétt í Morgunblaðinu 20. maí 1989. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Forsrh. sagði að kostnaðarlega séð bæri að líta til þess að lítill munur yrði á kjarabótum BHMR og BSRB þá átta mánuði sem eftir væru af samningstíma BSRB. ,,Hins vegar geta menn náttúrlega deilt um þær hækkanir sem eru fram undan hjá BHMR síðar á samningstímabilinu. Mér sýnist sem BHMR fái um 15% hækkun á eins árs grundvelli. Það er staðreynd að það er of mikil hækkun,`` sagði Steingrímur en bætti svo við: ,,Það er auðvitað afar mikils virði að fá með þessum samningum jafnvel allt að fimm ára frið í skólum.````
    Ég held að það fari ekki fram hjá neinum sem les þetta að hér virðist tala maður sem ætlar að standa við þennan samning og gerir sér fyllilega ljóst að þessi samningur þýðir að hinn samningsaðilinn, BHMR, fær talsverða launahækkun. Og ég trúi því ekki að svona lagað sé sagt ef menn hafi alls ekki ætlað að efna samninginn. Síðan segir áfram í þessu viðtali orðrétt:
    ,,Steingrímur sagðist mundu standa við þær yfirlýsingar sem hann hefði áður gefið eins og í ríkisstjórninni 1985 að kjör háskólamenntaðra manna í þjónustu ríkisins ættu að vera sambærileg við það sem gerðist hjá háskólamenntuðum mönnum utan ríkisgeirans. ,,Reyndar skil ég vel þá tortryggni sem er hjá þeim vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að fá þetta fram.````
    Ég spyr hæstv. utanrrh.: Heldur hann virkilega að sá maður sem orðar hugsanir sínar svona hafi ætlað að svíkja samninginn, ekki fara eftir þessum samningi, ekki hækka launin? Og áfram ætla ég að lesa úr Morgunblaðinu orðrétt:
    ,,Forsrh. var spurður hvers vegna hann hefði ekki sem forsætisráðherra á árunum 1985 -- 1987 séð til þess að staðið yrði við yfirlýsingu hans. ,,Framkvæmdin í svona máli er náttúrlega í höndum fjmrh. sem fer með þessi mál. Ég gaf þessa yfirlýsingu á sínum tíma að ósk BHMR og samkvæmt samþykki þáv. fjmrh., Alberts Guðmundssonar,`` sagði Steingrímur Hermannsson forsrh.``

    Ég verð að hryggja hæstv. utanrrh. með því að ég held að flestir þeir, ekki einungis lögfræðingar heldur allir menn með almenna skynsemi, sem lesa viðtal á borð við þetta hefðu á þessum tíma og jafnvel nokkrum mánuðum síðar getað ætlað að hæstv. forsrh. meinti það sem hann var að segja. En með því sem hæstv. utanrrh. sagði hér áðan, þá hefur hann ekki trúað því heldur hefur hann trúað hinu að í raun og veru hafi aldrei verið ætlunin að efna þennan samning, aldrei frá upphafi. ( Gripið fram í: Hann meinti það þegar hann sagði það.) Það er þannig með þau mál sem hér er verið að ræða að menn eru að reyna að fela sig á bak við það að þessi kjarasamningur við BHMR hafi eitthvað breyst þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir. Það er hinn mesti misskilningur. Samningurinn er jafnvondur eða jafngóður og hefur sömu þýðingu og sömu áhrif, algerlega burt séð frá þjóðarsáttinni. Það er innbyggt í samninginn að BHMR - félagarnir eigi að fá kauphækkun umfram aðra. Svo einfalt er það mál. Þetta viðurkenndi reyndar hæstv. ríkisstjórn og þeir fjórir hæstv. ráðherrar sem tóku þátt í samningagerðinni með því að segja að refsiákvæðið, sem er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh., þessi 4,5% launahækkun, væri ,,upp í væntanlega hækkun``, eins og orðrétt er vitnað til samningsins. Væntanlega hækkun, var sagt þá.
    Það er vissulega þakkarvert að hæstv. utanrrh. skuli nú viðurkenna að hann og þeir hafi gert mistök. Svo bætir hann við: En við höfum bætt fyrir þessi mistök. Það er nú einu sinni þannig að það er ekki sama hvernig menn bæta fyrir mistökin og um það stendur slagurinn nú. Slagurinn stendur um það hvort hæstv. ríkisstjórn bætti fyrir mistökin, svo ég noti orðalag hæstv. ráðherra, með réttum hætti eða hvort hún lét undir höfuð leggjast að bæta fyrir mistökin þangað til það var orðið of seint og óréttlætanlegt að grípa til þeirra aðgerða sem gripið var til. Um það snýst þetta mál.
    Það er líka ánægjuefni þegar hæstv. ráðherra viðurkennir að peningamálastjórnin sé slakleg. En hann ætlar ekki að kenna samráðherra sínum um, hæstv. viðskrh. Nú er það Seðlabankanum að kenna. Og hvert er nú svarið? Hvernig á að bregðast við? Það á að bregðast við með því að gera Seðlabankann sjálfstæðari. Með svarinu viðurkennir auðvitað hæstv. ráðherra það sem er staðreynd, að Seðlabankinn er háður ríkisvaldinu og ríkisstjórninni. Enginn hefur minnt jafnáþreifanlega á það í dag og hæstv. viðskrh. þegar hann las upp úr lagagrein um Seðlabankann. Vissulega get ég deilt skoðun minni með hæstv. utanrrh. og tekið undir það að það er án efa rétt stefna að gera Seðlabankann sjálfstæðari, og þá er ég jafnframt viss um að hæstv. ríkisstjórn sem nú situr og aðrar slíkar geti ekki pantað þau álit hjá Seðlabankanum sem hún hefur verið að gera að undanförnu.
    Hæstv. ráðherra gerir mikið úr því að sjálfstæðismenn hafi bent á að þessi ríkisstjórn hafi tekið upp aðferðir við stjórn efnahagsmála sem ekki eiga við í Vestur - Evrópu og í lýðræðisríkjum. Hver var það sem sagði við upphaf þessarar ríkisstjórnar að vestrænar

leikaðferðir í efnahagsmálum ættu ekki við hér á landi? Var það stjórnarandstaðan? Var það formaður Sjálfstfl.? Nei, það var hæstv. forsrh., Steingrímur Hermannsson. Hann orðaði sínar hugsanir þannig. Og í ræðu hér fyrr í kvöld lýsti hann því yfir að þjóðarsáttin og frjálshyggjan, sem ég veit nú ekki hvort hann veit hvað er, eigi ekki samleið, séu andstæður. Kem ég síðar að því í minni ræðu. (Gripið fram í.) Já, já, þetta hef ég lesið og hlustað á.
    Hæstv. fjmrh. tók hér þátt í umræðunum og flutti langt mál um það hvað hann hefði verið góður við opinbera starfsmenn og einkum og sér í lagi Bandalag háskólamenntaðra manna í ríkisþjónustunni. Hann hefði haldið hér um bil 20 fundi og sumir hafi jafnvel staðið yfir í nokkra klukkutíma og hann segist hafa stungið upp á ýmsum hugmyndum. Allt er þetta afar athygli vert. Það er bara eitt sem er að og það er að fyrirliðar þessara samtaka hafa lýst því yfir aftur og aftur að þeir treysti ekki hæstv. fjmrh. Það sé skortur á trausti og það sé því miður ekki hægt að semja við þann mann sem sé tilbúinn til að svíkja samninginn um leið og blekið er þornað á pappírnum. Þessu hafa núverandi fyrirliðar BHMR oftsinnis lýst yfir, þar á meðal flokksbræður hæstv. ráðherra sem þar hafa jafnvel gengið fram fyrir skjöldu.
    Síðan sneri hæstv. ráðherra sér að stjórnskipun Íslands. Það gerði reyndar hæstv. utanrrh. líka. Og þegar hæstv. utanrrh. er að segja frá því að Sjálfstfl. hafi oft staðið að útgáfu bráðabirgðalaga, þá staðhæfi ég á móti að Sjálfstfl. hefur aldrei staðið að útgáfu bráðbirgðalaga með þeim hætti sem átti sér stað í sumar, þvert ofan í æðsta dóm í málefnum til að útkljá kjarasamning. En hæstv. fjmrh. tók að ræða stjórnskipun Íslands. Og nú var helst að skilja á honum að í raun og veru hefði það verið Sjálfstfl. að kenna að gripið var til þessa óyndisúrræðis með bráðabirgðalögum vegna þess að fyrir mörgum, mörgum árum hafi hann og hv. þm. Ragnar Arnalds stungið upp á því í stjórnarskrárnefnd að nema ætti bráðabirgðalöggjafarréttinn úr gildi en þá hefðu menn í Sjálfstfl. verið á móti því.
    Nú er það svo
að það er ekki skylda að gefa út bráðabirgðalög. Og ef hæstv. ráðherra hefði viljað hefði verið hægt að kalla saman Alþingi. Það voru engir sjálfstæðismenn til að tefja það í hæstv. ríkisstjórn. ( Fjmrh.: Ég var bara að spyrja um stefnu Sjálfstfl.) Við skulum aðeins hinkra við, hæstv. ráðherra, vegna þess að það var nægur tími til þess. Þá kem ég að því sem kannski allt of lítið hefur verið rætt í þessari umræðu og það er að bráðabirgðalögin eru gefin út 3. ágúst en í raun og veru þurfti ekkert að setja þau, efnis þeirra vegna, fyrr en einhvern tímann í ágúst eða fyrir 1. sept. því að efni bráðabirgðalaganna er að kalla aftur 4,5% hækkunina frá 1. sept. Þess vegna var nægilegt ráðrúm til að kalla þingið saman ef vilji hefði verið fyrir hendi, en þann vilja skorti.
    Hæstv. ráðherra sagðist vera að spyrja um stefnu Sjálfstfl. Hvenær hefur hæstv. ráðherra, þegar raunverulega hefur þurft á því að halda, verið að biðja um

stefnu Sjálfstfl.? Hvernig stóð þá á því þegar hæstv. ráðherra stóð frammi fyrir því að bráðabirgðalögin gætu fallið að hann sneri sér ekki til Sjálfstfl. og spurði: Eigum við að reyna að finna einhverja sameiginlega lausn á þessum málum? Gerði hæstv. ráðherra það? Hann fer með völdin. Gerði hæstv. forsrh. það? Nei. Fyrst af öllu lýstu þeir því yfir að þeir ætluðu ekki að tala við einn einasta mann heldur láta á þessi lög reyna. Síðan eyddi hæstv. ráðherra löngu máli í svör okkar nokkurra frambjóðenda í Reykjavík í blaði sem gefið var út á vegum Heimdallar. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi alls ekki lesið þessi svör vegna þess að það er rétt sem hann sagði, að borgarstjórinn í Reykjavík svaraði því til að hann vildi afnema skattana. En hann hafði opið, og því vona ég að hæstv. ráðherra hafi tekið eftir, að það væri hægt að reka ríkissjóð með halla um nokkurt skeið því það væri ómögulegt að ná báðum markmiðunum samhliða. Og sá sem hér stendur svaraði þessu ekki með já. Svaraði því hins vegar til að hann vildi reka ríkissjóð hallalausan. Þetta eru þau stefnuatriði sem kannski eru ólík hjá þessum tveimur mönnum sem hér eru tilnefndir. En þetta eru ekkert mál sem stangast á ef menn skoða báðar hliðarnar. En það sem hæstv. ráðherra hefur gert er að hann hefur bæði stórhækkað skattana og um leið hafa útgjöldin hækkað meira en skattarnir. Þetta er sú fjármálastjórn sem hann hefur fylgt. Það er von að hann biðji um tillögur sjálfstæðismanna. En það gerir hann ekki þegar hann er að semja fjárlagafrv. Það gerir hann ekki á þeim stigum málsins sem kannski mest gagn væri að. Það gerir hann ekki fyrr en hann hefur sjálfur siglt málum í strand.
    Það var athygli vert og í raun og veru er það kannski svar við öllu því sem hæstv. fjmrh. sagði, það sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. þegar hann lýsti því yfir að líklega þyrfti nýjan meiri hluta á Alþingi til að gera þær breytingar sem nægðu til að koma lagi á ríkisfjármálin. Þetta er sú einkunn sem hæstv. utanrrh. gefur hæstv. fjmrh., eftirmanni sínum í fjármálastjórn ríkisins.
    Ég ætla ekki að leika mér að því enn einu sinni að rifja upp þegar hæstv. fjmrh. var í stjórnarandstöðu árið 1987 um haustið og kom hér inn á þing. Þá bar hann þáv. fjmrh., hæstv. utanrrh., þungum sökum og sagði: Ef þú tekur ekki burt matarskattinn þá skaltu ekki voga þér að tala við verkalýðshreyfinguna.
    Þá var hæstv. fjmrh. hér staddur vegna fjarveru Geirs Gunnarssonar, kom hér inn á þing um stundarsakir og heyrðist hátt í honum. Manni gat helst skilist að hans helsta hugðarefni væri að koma í veg fyrir matarskattinn svokallaða. Hæstv. ráðherra fékk tækifæri til þess, hann varð fjmrh., og hvað hefur hann gert? Tekið matarskattinn úr sambandi, var það ekki? Hefur hann gert það? Ég nenni ekki einu sinni að svara spurningunni.
    Það kom nokkuð á óvart að heyra hæstv. forsrh. segja að Eiríkur Tómasson hefði mætt á fund ríkisstjórnarinnar og væri þess vegna einn þeirra sem leitað hefði verið álits hjá. Ég spurði, og þetta var svar

við þeirri spurningu, til hverra hefði verið leitað eftir að kjarasamningar við opinbera starfsmenn voru gerðir og átti þá að sjálfsögðu við til hvað lögfræðinga var leitað áður en málið fór til Félagsdóms. Það kann vel að vera að Eiríkur Tómasson hafi komið að málinu eftir 1. júlí, en þá var hæstv. ríkisstjórn búin að klúðra þessum málum öllum. En það stendur eftir sem Eiríkur Tómasson segir, og ef hæstv. forsrh. trúir ekki Þjóðviljanum, en ég las úr honum, þá get ég vitnað í Tímann. Þar hefur blaðamaður Tímans eftir Eiríki Tómassyni að bráðabirgðalögin í sumar séu dæmi um siðferðiskreppu í stjórnmálum.
    Ég ætla ekki að hafa hér mörg orð um vexti. Það er til umhugsunar að hlusta á hæstv. fjmrh. segja að vextir hafi stórlækkað á meðan hæstv. forsrh. segir að allt hafi farið úr böndum og hér séu hæstu vextir í heimi, eins og annars staðar á Norðurlöndum. Auðvitað eru vextir háir hér og vextirnir eru háir vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur rekið ríkissjóð með slíkum halla að sækja verður verulega fjármuni á fjármagnsmarkaðinn. Þar á meðal liggur nú fyrir frv. til aukalánsfjárlaga þar sem þess er getið að hæstv. ríkisstjórn hafi þurft og þurfi á þessu ári að ná í 6 milljarða umfram það sem áætlað var á innlendum fjármagnsmarkaði. Auðvitað þrýstast vextirnir upp og skiptir þá engu máli þótt menn þykist vera að reyna að halda þeim niðri með handafli eins og hæstv. forsrh. er frægur fyrir.
    Hæstv. forsrh. var spurður að því hvað tæki við að lokinni þjóðarsátt. Í spurningunni var þess getið að hæstv. ráðherrar hefðu gefið út tvenns konar loforð. Annars vegar loforð til aðila vinnumarkaðarins um að verðbólgan fari ekki af stað. Hins vegar loforð til BHMR um það að frestað yrði að hækka launin hjá þeim samkvæmt kjarasamningum sem gerðir voru í fyrra. Þetta eru loforð sem ekki geta staðið saman og þess vegna var spurt.
    Hæstv. forsrh. kaus að fara undan og segja það sem svar sitt að það sem tæki við væri vonandi ekki frjálshyggjan því frjálshyggjan og þjóðarsáttin gætu ekki farið saman. Af þessu tilefni get ég sagt að sé það frjálshyggja að koma í veg fyrir skattahækkanir, sé það frjálshyggja að reyna að koma í veg fyrir halla á ríkissjóði, sé það frjálshyggja að prenta ekki peninga án þess að eiga innstæður fyrir og sé það frjálshyggja að koma sæmilega fram við launafólk og launþegasamtök þá er ég ósköp ánægður með það að vera frjálshyggjumaður. En ég spyr að því: Vilja menn ekki frekar slíka frjálshyggju heldur en það sem hæstv. forsrh. gat um að hann hefði ætlað að gera ef hann hefði rofið þing? Það væri að setja ný lög um almenna launa- og verðstöðvun, algild lög. En það var einmitt það sem Alþb. hafnaði í sumar. Því hafnaði Alþb. og því fór sem fór.
    Virðulegi forseti. Ég spurði nokkurra spurninga. Ég fékk svar við sumum þeirra, öðrum ekki. Það var athygli vert þegar hæstv. fjmrh. var að svara þeirri spurningu hvað það þýddi að vera persónulega og pólitískt skuldbundinn af niðurstöðu kjarasamninganna þegar hann hélt því fram að í raun og veru væri þetta

allt Gallup að kenna hvernig farið hefði. Þeir hefðu ekki staðið sig sem skyldi um þau grundvallaratriði í samningnum sem var launasamanburðurinn. Það var athygli vert. Síðan sagði hæstv. ráðherra að 4,5% væru bara allt annað mál af því að verðbólgan hefði orðið minni en ríkisstjórnin ætlaði. Þjóðarsáttin snerist um það að hæstv. ríkisstjórn tók að sér að tryggja það að aðrir samningar sem hæstv. ríkisstjórn hafði staðið að gengju ekki á svig við þjóðarsáttarsamningana. Það var ekki gert og það var vitað allan tímann að þarna var þessi hætta á ferðum. Það breytir engu hvert verðbólgustigið hefði verið og varð vegna þess að í samningnum við BHMR var gert ráð fyrir alla tíð að þeir mundu verja kauphækkun sína. Og það eru ekki 4,5% heldur líklega 9 -- 13% þegar skoðað er ofan í kjölinn hvað felst í þessum samningi.
    Ég spurðist fyrir um það hvort hæstv. ráðherra teldi það samrýmast þingræðisreglunni að rjúfa þing ef þeir nytu ekki meirihlutafylgis eða frv. á þeirra vegum og setja síðan aftur lög um sama efni, jafnvel þótt þau væru aðeins öðruvísi orðuð. Það var athygli vert að hlusta á hæstv. utanrrh. segja að hann teldi svo vera. Með öðrum orðum, það skiptir ekki nokkru máli hvort hér er minni hluti eða meiri hluti. Minni hlutinn á að geta sett lög eins og honum sýnist. Og það er athygli vert að hæstv. utanrrh. skuli þora að upplýsa álit sitt á þessu máli.
    Það sem var kannski samt furðulegast í kvöld í þessum umræðum var það að hæstv. fjmrh. kaus að þegja þunnu hljóði um þá ræðu sem kannski var beinskeyttust í hans garð. Það var ræða hv. þm. Geirs Gunnarssonar. Hv. þm. Geir Gunnarsson sagðist telja ákvörðun Alþb. hættulegan undanslátt í mannréttinda- og verkalýðsmálum og hélt því fram að sú afstaða gæti orðið upphafið að frekara fráhvarfi flokksins frá grundvallarstefnu í þeim efnum. Hann sagði svo að ýmsir héldu því fram að það hefði ræst. Hæstv. ráðherra kaus að svara þessu engu. Er hann þó formaður Alþb. Hv. þm. sagði jafnframt í sinni ræðu að afstaða sín hefði legið fyrir enda þótt enginn af hæstv. ráðherrum, hvorki úr hans flokki né öðrum, hafi spurt hann fyrr en hæstv. menntmrh. hafi gert það 27. nóv., þ.e. fyrir örfáum dögum. Með öðrum orðum, hann lýsti andstöðunni í sumar en engum datt í hug að spyrja manninn. Og hæstv. ráðherra taldi ekki ástæðu til þess að svara þessu í sinni ræðu.
    Hv. þm. Geir Gunnarsson sagði hér í kvöld í sinni ræðu að þessar aðfarir allar væru með þeim ólíkindum að hann hefði að óreyndu ekki trúað því að hann ætti eftir að sjá slíkri valdníðslu beitt gegn stéttarfélagi og dómstólum landsins af nokkrum stjórnmálaflokki og þá síst af hans eigin, því hér væri ekki einungis ráðist á samningsréttinn, heldur er dómsvaldið bælt niður í einni og sömu aðgerðinni. Ekki orð um þetta.
    Hv. þm. Geir Gunnarsson leyfði sér að spyrja. Hann spurði: ,,Hefur valdbeiting og gerræði, ofbeldi og valdníðsla ekki verið réttlætt með góðum tilgangi með þeim afleiðingum sem þjóðir hafa kynnst öld eftir öld nógu oft og nógu víða í heiminum til þess að

Alþingi Íslendinga láti það ekki verða hlutskipti sitt þessa dagana að bætast þar í hópinn? Því að þetta mál er eingöngu réttlætt á þeirri forsendu, og þeirri forsendu einni, að tilgangurinn helgi meðalið.``
    Hann spurði enn fremur: ,,Hvert erum við að stefna og skyldi eftirleikurinn ekki geta orðið einhverjum auðveldur hér á hv. Alþingi ef þessi valdníðsla nær fram að ganga?``
    Hæstv. ráðherra kaus að þegja yfir þessu líka. Ekkert einasta orð um þetta. Og er þó hv. þm. Geir Gunnarsson sá maður sem nú hefur ákveðið að standa upp og gefa hæstv. ráðherra eftir sæti sitt.
    Svona mætti lengi telja. Í lokin ætla ég að minna á það sem hv. þm. sagði þegar hann orðaði það svo í sinni ræðu: ,,Þeir sem hyggjast hér á hv. Alþingi staðfesta bráðabirgðalögin og fylgja þannig eftir valdbeitingu gegn félagsmönnum BHMR og Félagsdómi skáka þessa dagana mjög í skjóli þess að þeir hafi almenningsálitið með sér og að skoðanakannanir séu þeim hliðhollar. Ég hygg að hin gömlu sannindi ,,skamma stund verður hönd höggi fegin`` eigi eftir að sannast áður en lýkur. Það hefur æði oft og víða gerst að mannfjöldinn hefur heimtað Barrabas lausan en krossfest þann sem síst skyldi.``
    Þetta eru þung orð og líkingar sem fólkið þekkir. Við hvern skyldi hafa verið átt? Af hverju kaus hæstv. ráðherra að þegja yfir þessu?
    Virðulegi forseti. Það er ástæðulaust fyrir mig að hafa fleiri orð um það sem hér hefur komið fram. Það er ljóst að það verður að halda fund í nefndinni á milli 2. og 3. umr. til þess að afla frekari upplýsinga og fá staðfestingu á nokkrum málum sem hér hafa verið rædd og reyndar komið fram í fjölmiðlum. Ég þarf ekkert að segja fleira en það sem stendur í nál. Ég skrifaði ítarlegt nál. sem liggur fyrir þar sem sýnt er fram á að í raun er það ríkisvaldið sjálft eða hæstv. ríkisstjórn sem hefur ekki staðið við sinn hluta þjóðarsáttarinnar og er um leið að grafa henni gröf.
    Ég vil að allra síðustu fá að vitna hér í ummæli úr Morgunblaðinu hinn 14. maí 1989, orðrétt, með leyfi forseta. Þessi ummæli eru á þennan veg:
    ,,Við viljum hafa hér lýðræðislegt þjóðfélag með frjálsum samningsrétti. En lýðræðið þolir ekki frjálsræði ef engin ábyrgð fylgir því. Ábyrgð er ekki verslunarvara sem menn kaupa úti í búð. Hún er eiginleiki, hugarfar, ákveðið siðgæði. Lagasetning sem kemur í veg fyrir eiginhagsmunapot ákveðins þjóðfélagshóps leysir hann undan þessari ábyrgð. Hún mundi ýta undir ábyrgðarlaust hugarfar. Við skulum bara leika okkur og sjá hvað við komumst langt. Ég tel að við stöndum hér á ákveðnum tímamótum, við eigum að neita okkur um lagasetningu og halda áfram að byggja upp þá ábyrgðartilfinningu sem komið hefur fram í öðrum kjaradeilum.``
    Þessi orð voru látin falla á lokadögum verkfalls BHMR á vordögum 1989. Og hver skyldi nú hafa sagt þetta? ( Fjmrh.: Það er alveg klárt.) Það er alveg klárt, segir hæstv. fjmrh., það er alveg klárt, hæstv. fjmrh., vegna þess að auðvitað þekkir hann það sem hann hefur sjálfur sagt.

    Ég ætla, virðulegi forseti, að láta öðrum um að dæma hvort hæstv. ráðherra hefur fylgt því sem hann sagði í þessu viðtali við Morgunblaðið sem ég var að vitna til.