Brottfall laga og lagaákvæða
Þriðjudaginn 11. desember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Frv. er unnið af sérstakri þingkjörinni nefnd sem er kjörin á grundvelli þál. sem samþykkt var á hinu háa Alþingi fyrir allmörgum árum og kvað á um að hreinsa íslensk lög af ýmsum úreltum ákvæðum sem áreiðanlega var orðið tímabært. Formaður nefndarinnar var prófessor Ármann Snævarr og hefur hann unnið mjög mikinn hluta af því starfi sem fram kemur í frv. Aðrir í nefndinni voru Gils Guðmundsson, fyrrv. alþingismaður, Haraldur Blöndal hæstaréttarlögmaður, Hreinn Pálsson lögfræðingur, Margrét Rún Guðmundsdóttir blaðamaður, Már Pétursson héraðsdómari, nú bæjarfógeti og sýslumaður, Sigurður Líndal prófessor, Snædís Gunnlaugsdóttir dómarafulltrúi og Svala Thorlacius hæstaréttarlögmaður.
    Ég fékk málið í hendurnar í fyrra og lét þá fara vandlega yfir það í ráðuneytinu, senda það öllum ráðuneytum til nánari skoðunar. Ekki voru gerðar neinar brtt. við það. Ég tel að frv. sé mjög vel unnið og mjög þarft mál. Eins og hv. deildarmenn þekkja eflaust er það búið að fara í gegnum Nd. þar sem var gerð á því ein minni háttar leiðrétting. Ég geri að lokinni þessari stuttu framsögu og þeirri umræðu sem hér verður að tillögu minni að málið fari til 2. umr. og hv. allshn.