Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég gerði tilraun til þess fyrir hádegi að geta kynnt mér efni þeirrar brtt. sem er síðast á þskj. og ætlaði að setja mig inn í það hvað liggur til grundvallar að greiðslubyrði skuli annars vegar miðuð við 30% í sambandi við heimild til lántöku með húsbréfum og hins vegar 20% og þá hugsun sem er á bak við þessa brtt. Það hittist svo á að yfirmaður húsbréfadeildar var ekki viðstaddur þegar þessi brtt. var mótuð þó ég hafi náð honum nú áðan. Ég náði heldur ekki í forstjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins þar sem hann var upptekinn á fundi sem ekki er við að gera. En ég vil mælast til að þessi síðasta brtt. verði dregin aftur til 3. umr., sem ekki verður þá fyrr en á næsta fundi, til þess að hægt sé að glöggva sig á þeim reikningslegu forsendum sem þarna eru á milli.
    Ef við tökum dæmi af 1 millj. kr. í húsbréfakerfi má gera ráð fyrir að greiðslubyrði af þvílíku láni sé í kringum 10 þús. kr. á mánuði. Ef við á hinn bóginn lítum á margvíslegar skammtímaskuldbindingar sem þeir þurfa að svara sem búa við greiðsluerfiðleika, þá fáum við auðvitað miklu hærri fjárhæð en sem nemur því að hún sé 50% hærri. Að hugsa sér það að greiðsluerfiðleikalánin, þau sem tilfinnanlegust séu, séu þá í kringum 180 þús. kr. af milljón, ég er ekki viss um að þessi hugsun standist. Ég vil því mælast til þess við nefndina að þessi tillaga verði dregin aftur til 3. umr. þannig að mér gefist svigrúm til að skoða málið til morguns. Ég mun gera ráðstafanir til að fá hjá starfsmönnum nefndarinnar þær upplýsingar sem nefndinni hafa borist og liggja til grundvallar þessum útreikningum.
    Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en tel sjálfsagt að þetta tefji ekki fyrir afgreiðslu málsins í þinginu, heldur hljóti að vera hægt að vinna þessa litlu töf síðar. Ég vil aðeins árétta að nú dugir ekki að kasta höndunum til neins, en velta fyrir sér hvað tölur þýða á blaði, innihaldi þeirra og þeirri hugsun sem er á bak við þær.