Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Frsm. félmn. (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Farið hefur verið fram á það af hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldóri Blöndal að fresta eða draga til baka til 3. umr. þriðju brtt. sem flutt er af félmn. Það eru nú þegar komnar fram skýringar og svör við þeim spurningum sem hv. þm. bar fram hér í umræðunni, og slæmt að hann skuli ekki eira í deildinni nógu lengi til að fá þau svör sem óskað er eftir. En þar sem við höfum gert ráðstafanir til þess að hér mæti einn af þeim fulltrúum sem komu fyrir nefndina, Grétar Guðmundsson, til þess að ræða við þingmanninn og skýra þessar tölur nánar, þá er sjálfsagt að verða við því að þessi brtt. bíði 3. umr. Ég vil þó aðeins minna hv. þm. á að það er mjög mikilsvert að þetta frv. fái fljóta og góða afgreiðslu í gegnum deildina. Það er stór hópur fólks sem bíður afgreiðslu þess. Það er líka mikilsvert að ef við höfum efasemdir um það sem við erum að gera hér að við séum þá til staðar til að hlýða á svör við þeim spurningum sem við berum fram.
    Ég vil líka að það komi fram að í viðræðum við nefndarinnar við formann Félags fasteignasala, Þórólf Halldórsson, að hann óttaðist að það yrði mjög aukið álag á verðbréfamarkaðinum við afgreiðslu þessa frv. Hins vegar kom líka fram í þeirri umræðu að álagið yrði jafnvel enn meira ef frv. yrði ekki afgreitt vegna þess að þær íbúðir sem þarna er um að ræða, þær eignir sem um er að ræða, færu flestar ef ekki allar á sölumarkaðinn og mundu því að öllum líkindum flestar lenda í húsbréfakerfinu.
    Ég vil aðeins ítreka að beðið er eftir úrlausn og við höfum orðið vör við mjög mikinn þrýsting á að við afgreiðum þetta mál, ljúkum þeirri umræðu sem þegar er hafin og búin að vera í gangi í hv. félmn. Við höfum fengið alla þá til viðræðu sem um var beðið og þá sem um þessi mál fjalla. Ég vil líka, vegna þess að hér er verið að vitna í einstaka menn sem á fundinn komu, láta það koma fram að forstjóri Landsbréfa, Gunnar Helgi Hálfdánarson, sagði það mjög skýrt við nefndina að þetta væri það kerfi sem ætti framtíð fyrir sér og það kerfi sem við mundum í framtíðinni búa við. Vissulega hefðu ýmsir agnúar komið fram en þeir væru ekki stórir og nú væri verið að sníða þá af, reynslan kenndi þeim og smátt og smátt mundi þetta kerfi verða eins og við vildum sjá það.
    En ég legg mikla áherslu á það, virðulegi forseti, að málið verði afgreitt. Þar sem ég tel líka að hér hafi komið fram svör við þeim spurningum sem fram voru bornar af hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldóri Blöndal, þá vil ég fara fram á það við deildina að við afgreiðum þær brtt. sem hér liggja fyrir.