Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Út af síðustu fyrirspurn hv. þm. um það sem fram kemur í bréfi húsnæðismálastjórnar að þess megi vænta að vinnuálag á stofnunina aukist með samþykkt þessa frv. er því til að svara að ég hygg að það geti orðið tímabundið nokkuð vinnuálag meira en er á stofnuninni, sérstaklega fyrstu vikurnar eftir að þetta frv. verður samþykkt. Eins og fram kom hjá formanni félmn. er það allstór hópur sem bíður eftir að fá úrlausn sinna mála gegnum þau ákvæði frv. sem hér eru til umfjöllunar. Ég geri einnig ráð fyrir því að það taki heldur lengri tíma en nú gegnum þessi hefðbundnu húsbréfaviðskipti að afgreiða einstök greiðsluerfiðleikalán. Þau þurfi meiri og ítarlegri skoðunar við en venjuleg húsbréfaviðskipti. Það má því búast við að vinnuálag verði nokkuð aukið og kannski eitthvað lengri afgreiðslutími á að afgreiða þessi greiðsluerfileikalán en er í gegnum hefðbundin húsbréfaviðskipti.
    Varðandi fjölgun starfsmanna hefur komið fram ósk frá húsnæðismálastjórn um að stöður sem voru veittar tímabundið eða verkefnaráðið í verði framlengdar eitthvað fram á næsta ár. Ég veit ekki betur en að reynt verði að verða við því til þess að mæta þessu álagi.