Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Flm. (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem er á þskj. 259 og er frv. til laga um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Frv. er stutt, aðeins tvær greinar. Ég ætla að leyfa mér að lesa hér 1. gr. frv. en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við 1. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr töluliður svohljóðandi:
    Sala á barnabílstólum, bílpúðum sem festir eru með bílbeltum eða öðrum viðurkenndum öryggisbúnaði fyrir börn í bifreiðum, svo og sala á öryggishjálmum fyrir reiðhjóla- eða vélhjólaakstur.``
    Gert er ráð fyrir að þessi lög öðlist gildi 1. júlí 1991.
    Tilgangur þessa frv. er væntanlega ljós. Hann er sá að stuðla að verðlækkun á öryggisbúnaði fyrir börn í bifreiðum og fyrir þá sem aka um á reiðhjólum og vélhjólum með því að fella niður virðisaukaskatt á þessum búnaði en virðisaukaskatturinn nemur 24,5% eins og kunnugt er.
    Það er talið sannað að slíkur öryggisbúnaður geti orðið til þess að koma í veg fyrir alvarleg slys, hvort sem um er að ræða börn í bifreiðum, á reiðhjólum eða í vélhjólaakstri. Frv. þetta er flutt samhliða frv. um breyting á umferðarlögunum sem ég hef nú fyrir skömmu mælt fyrir og er flutt af mér ásamt fleiri þingmönnum þessarar hv. deildar.
    Ég vænti þess, hæstv. forseti, að ég þurfi ekki að hafa mörg orð um þetta frv. svo ljós er tilgangur þess. Ég held að óhætt sé að segja að öllum sé orðið ljóst að það skiptir miklu máli að koma í veg fyrir slys sem verða í umferðinni vegna þess að börn eru á reiðhjólum, eru ekki bundin í bílbeltum og nota ekki hlífðarhjálma. Því þykir flm. þessa frv. nauðsynlegt að stuðla að verðlækkun á þessum öryggisútbúnaði sem er auðvitað töluverður kostnaður fyrir foreldra, annars vegar það sem snýr að hlífðarhjálmum og hins vegar öryggisbúnaði í bifreiðum. En á bílstólum er jöfnunargjald 5% og virðisaukaskattur 24,5% sem gerir samtals 30,7% álag. Af reiðhjólahjálmum eru engin opinber gjöld önnur en virðisaukaskatturinn en hann er 24,5%.
    Ég þykist vita að margir þingmenn séu ekki mjög áhugasamir fyrir því að bæta við undanþágurnar frá virðisaukaskattinum og ég get vel tekið undir það. En ég tel að svo margar undanþágur hafi nú þegar verið gerðar að þær sem hér eru lagðar til, sem skipta miklu máli fyrir þá aðila sem það varðar, skipti litlu máli fyrir ríkissjóð því ég tel að ekki geti þarna verið um háar fjárhæðir að ræða sem ríkissjóður hagnast á. Hann mundi hins vegar hagnast á því að lækka kostnað af sjúkrahúsvist eða slysum að því leyti sem sá kostnaður er borinn uppi af því opinbera.
    Að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.