Slysavarnaráð
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Flm. (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um slysavarnaráð sem er á þskj. 260.
    Samkvæmt 1. gr. frv. er tilgangurinn að stofna slysavarnaráð sem heyrir undir heilbrrh.
    Samkvæmt 2. gr. er hlutverk slysavarnaráðs:
    að vera ríkisstjórn, ráðherra, slysavarnanefndum í héruðum og öðrum aðilum til ráðuneytis um allt er lýtur að slysavörnum,
    að gera tillögur til heilbrigðisyfirvalda um áhersluatriði í slysavörnum á hverjum tíma,
    að sjá um og stuðla að rannsóknum á orsökum og afleiðingum slysa,
    að samræma störf þeirra aðila sem vinna að slysavörnum,
    að fylgjast með nýjungum og reynslu annarra þjóða í slysavörnum,
    að halda landsþing um slysavarnir annað hvert ár.
    Heilbrrh. skipar sjö fulltrúa í slysavarnaráð, tilnefnda af eftirtöldum aðilum: landlæknisembættinu, og skal sá vera formaður, læknadeild Háskóla Íslands, dómsmrh., Vinnueftirliti ríkisins, Slysavarnafélagi Íslands, Sambandi íslenskra tryggingafélaga og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
     Slysavarnaráð skal skipað til fjögurra ára í senn og varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Í áætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilbrigði fyrir alla árið 2000 segir m.a. að átak þurfi að gera gegn slysum, þ.e. að fækka dauðsföllum af þeirra völdum um 25% fyrir árið 2000.
    Hinn 27. febr. 1987 skipaði þáv. heilbrrh., Ragnhildur Helgadóttir, nefnd um varnir gegn slysum. Flutningsmaður þessa frv. var skipuð formaður nefndarinnar. Aðrir nefndarmenn voru: Gunnar Þór Jónsson, prófessor í slysalækningum, Haraldur Henrýsson, þá forseti Slysavarnafélags Íslands, Ólafur W. Stefánsson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneyti, Sigrún Gísladóttir skólastjóri og Vilborg Ingólfsdóttir hjúkrunarfræðingur sem jafnframt var ritari nefndarinnar.
    Í nefndinni urðu menn sammála um að með samstilltu átaki þjóðarinnar væri hægt að gera þetta markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að veruleika hér á landi. Samstilltu átaki taldi nefndin að best yrði náð með því að höfða til hvers einstaklings í því umhverfi sem hann lifir og hrærist í. Þess vegna séu mestar líkur á að það gerist með því að unnið sé markvisst að slysavörnum í hverju byggðarlagi fyrir sig. Á síðasta þingi var lögfest með breytingu á sveitarstjórnarlögum að verkefni sveitarstjórna séu m.a. að vinna að slysavörnum í sveitarfélaginu. Einnig var gerð breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu um að heilsugæslustöðvar skuli einnig hafa það verkefni á sinni verkefnaskrá. Þetta voru tvö frv. sem flm. þessa frv. flutti. Eins og áður sagði urðu þau bæði að lögum. Þannig telur flm. að búið sé að stíga það skref að færa þessi mál heim í héruð þannig að það sé best unnið að þeim á hverjum stað fyrir sig. Síðan þurfi að samræma slysavarnir um landið allt. Þetta hefur margsinnis komið fram í ályktunum frá þingum sem haldin hafa verið um slysavarnamál eða umferðaröryggismál.
    Ein af þeim tillögum, sem fram komu í nefndinni, var að lögfest yrðu sérstök ákvæði um slysavarnaráð. Þetta hefur stundum verið kallað slysaráð og er kannski matsatriði hvort er betra, en ég hallast heldur að því að það lýsi betur tilgangi frv. að tala um slysavarnaráð. Í upphaflegri útgáfu að íslenskri heilbrigðisáætlun, sem lögð var fram á Alþingi í apríl 1987 af þáv. heilbrrh., Ragnhildi Helgadóttur, var lagt til að lögfest yrði sérstakt slysavarnaráð er fyrst og fremst sinnti störfum fyrir opinbera aðila. Fyrir liggur að núverandi heilbrrh., Guðmundur Bjarnason, hefur ákveðið að stofna slysavarnaráð í samræmi við þær tillögur sem fram hafa komið frá nefndinni um varnir gegn slysum. Þetta frv. er því flutt til að fylgja eftir þeirri ákvörðun þar sem flm. frv. telur eðlilegt að lögfesta skuli slíkt slysavarnaráð, enda í samræmi við markmið íslenskrar heilbrigðisáætlunar.
    Ég tel að það eigi ekki að vera geðþóttaákvörðun hvers ráðherra fyrir sig hvort slíkt ráð sé skipað heldur skuli þetta vera fest í lögum í eitt skipti fyrir öll.
    Efnisatriði frv. byggjast á þeim hugmyndum sem fram hafa komið í nefndinni um skipan slysavarnaráðs og verkefni þess og eru í samræmi við hugmyndir hæstv. ráðherra um stofnun slíks slysavarnaráðs.
    Ég held ég hafi ekki fleiri orð um þetta frv., hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.