Slysavarnaráð
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Flm. (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Vegna orða hv. 8. þm. Reykn. og fyrirspurnar hans til mín varðandi flutning á þessu máli get ég upplýst það að nefndin sem ég minnist á í frv. hefur ekki skilað neinu áliti til ráðherra af þeirri einföldu ástæðu að hún hefur hætt störfum. Hún var skipuð af fyrrv. hæstv. heilbrrh. og af ýmsum persónulegum ástæðum nefndarmanna hefur hún ekki getað lokið sínum störfum. Flm. þessa frv. þótti því nauðsynlegt að koma þessu máli áfram, sem er mitt brennandi áhugamál. Ég gerði það vitandi að hæstv. heilbrrh. hefur nú þegar skrifað bréf og ákveðið að stofna slíkt ráð, en það liggur ekki fyrir að hann ætli að lögfesta slíkt ráð. Það er einungis það sem ég er að leggja áherslu á, fylgja hans ákvörðun eftir með því að leggja til að slíkt ráð verði lögfest. Það er skýringin á þessu máli.
    Ég tel mig ekki vera á neinn hátt að taka fram fyrir hendurnar á hæstv. ráðherra. Þetta er áhugamál innan þeirrar nefndar sem ég greindi frá. Ég greindi að vísu ekki frá því að hún hafi ekki getað lokið störfum af þeim ástæðum sem ég tilgreindi en sú er ástæðan, við höfum ekki getað skilað af okkur enda var það ekki þessi ráðherra sem skipaði nefndina á sínum tíma heldur fyrrv. heilbrrh. Ég hafði samráð við núv. heilbrrh. þegar hann tók við og innti hann eftir því hvort við ættum að halda áfram störfum og hann gerði ekki athugasemdir við það. Það voru ýmis atriði sem nefndin taldi mjög brýnt að vinna að strax svo að hún gæti haldið áfram sínum störfum. Þeim málum var ekki hægt að sinna. Ég ætla ekki að fara út í það hér af hvaða ástæðum það var, en þetta er ástæðan. Vænti ég þess að hv. 8. þm. Reykn. hafi fengið svör við þessum athugasemdum sínum.