Slysavarnaráð
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Flm. (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég vil skýra þetta aðeins nánar.
Það er rétt að auðvitað liggja fyrir ýmis gögn sem þessi nefnd hefur unnið en hún hefur ekki sent þau formlega. Hins vegar hefur ráðherra aðgang að þessum gögnum vegna þess að einn af starfsmönnum nefndarinnar vinnur í heilbrrn., þ.e. á skrifstofu landlæknis. Landlæknir hefur verið mikill baráttumaður, sem ég gleymdi nú að geta um hér og hefði auðvitað átt að geta um sérstaklega, fyrir því að slíkt slysavarnaráð verði stofnað, ásamt fjölmörgum fleiri aðilum sem láta sig þessi mál miklu varða. Og ég gat um það sérstaklega, enda kemur það fram í grg., að ég flyt þetta frv. til að fylgja eftir þeirri ákvörðun ráðherrans að fara að þeim tillögum sem komu fram í nefndinni og hann hefur undir höndum óformlega. Hann hefur aðgang að þessum gögnum en það liggur ekki fyrir að hann ætli að flytja frv. um að þetta verði lögfest heldur ætlar hann einungis að skipa slíka nefnd sem er auðvitað algerlega á hans valdi. En ég vil tryggja að slíkt ráð, svo ég hafi nú rétt orð yfir það, sé lögfest. Þetta verði ekki bara eitthvað sem er tímabundið við geðþóttaákvörðun eins ráðherra heldur að þetta verði lögfest. Og þess vegna er frv. flutt.