Launamál
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Eggert Haukdal :
    Herra forseti. Fyrir réttu ári síðan samþykkti Alþingi fjárlög fyrir það ár sem nú er senn að líða. Í fjárlögunum birtist stefna ríkisstjórnarinnar sem miðaði við að verðbólga hér á landi yrði 18% að meðaltali árið 1990. Rúmum mánuði frá afgreiðslu fjárlaga eða í febrúarmánuði voru gerðir nýir kjarasamningar að frumkvæði forustumanna aðila vinnumarkaðarins sem miðuðu við að verðbólga á árinu 1990 yrði eins stafs tala. Hefur þetta gengið eftir. Aðilar vinnumarkaðarins komu því eins og frelsandi englar og drógu ríkisstjórnina að landi með því að stórlækka verðbólgu frá því sem ríkisstjórnin hafði ætlað sér. Auðvitað hefur þessi verðbólgulækkun ekki gengið fram án þess að menn færðu fórnir og þá fyrst og fremst láglaunafólkið í landinu. En á móti kemur að lág verðbólga er ekki síst þeim til góða sem minnst mega sín. Ýmsir aðilar í þjóðfélaginu hafa hins vegar ekki spilað með sem skyldi til að varðveita þjóðarsátt. Má þar m.a. nefna bankakerfið. Það tafði að lækka vexti þegar verðlag fór hjaðnandi vegna þjóðarsáttar. Það sætir nú færi að hækka vexti meðan enginn grundvöllur er fyrir slíku, verðlag tiltölulega kyrrt og atvinnuleysi viðloðandi. Það virðist svo sem bankarnir þarfnist beinlínis verðbólgu, geti ekki án hennar verið. Er þá vissulega illa komið.
    Ríkisstjórnin hefur því miður ekki búið í haginn sem skyldi undir framtíðarþjóðarsátt með lágri verðbólgu eins og hallinn á ríkissjóði sýnir m.a. Ríkisstjórnin hefur heldur ekki gengið á undan með góðu fordæmi, sbr. kostnað við ferðalög ráðherra á þjóðarsáttartíma sem er lýsandi dæmi um eyðslu og óstjórn. Vinnubrögð hennar í kringum bráðabirgðalögin ber að fordæma sem slík.
    Virðulegi forseti. Þrátt fyrir það að þjóðarsáttin sé ekki fullkomin þá varð hún til fyrir forgöngu aðila vinnumarkaðarins og því ber að virða hana. Þess vegna greiði ég ekki atkvæði.