Launamál
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Fá mál hafa vakið jafnmiklar deilur hin síðari missiri og bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar á samninga BHMR. Háværar raddir hafa verið uppi um að setning bráðabirgðalaganna hafi verið andstæð ákvæðum stjórnarskrár. Um það atriði treysti ég mér ekki til að dæma, enda munu dómstólar fjalla um þann þátt sérstaklega. Framganga stjórnar í dag í þessu máli hefur þó sýnt að óvandaðir stjórnmálamenn hika ekki við að nota heimild til setningar bráðabirgðalaga langt út fyrir þau mörk sem eðlilegt getur talist. Á því verða þeir að bera siðferðislega og pólitíska ábyrgð. Hins vegar hafa þeir nú sýnt þjóðinni að nauðsynlegt er að þrengja heimild til setningar bráðabirgðalaga verulega og jafnvel afnema hana með öllu. Og þó við látum dómstólum eftir að meta lögmæti setningar bráðabirgðalaganna þá stendur hitt óhaggað að þessi ríkisstjórn hefur með setningu þeirra og raunar fyrri verkum sínum fyrir löngu ofboðið siðferðiskennd fólksins. Hún ber fulla ábyrgð á trúnaðarbresti milli stjórnvalda og almennings sem langan tíma getur tekið að byggja aftur upp. Ég hika ekki við að segja að ég hef skömm á þessari ríkisstjórn og geðþóttasiðferði hennar sem sveiflast eftir hagsmunum ráðherranna sjálfra.
    Máltækið segir: ,,Orð skulu standa.`` Samninga sem gerðir hafa verið ber að halda. Hins vegar er hægt að gera svo slæma og vitlausa samninga að frá upphafi sé ljóst að ekki verði unnt að standa við þá án alvarlegra afleiðinga. Auðvitað átti ríkisstjórnin að viðurkenna að samningur hennar og BHMR væri slíkur samningur og ríkisstjórnin gæti ekki og mundi ekki standa við hann. Nógu oft var ríkisstjórnin vöruð við af ýmsum aðilum. Hún hafði því alla möguleika á að leita eftir viðræðum við BHMR um endurskoðun samningsins. Hefðu slíkar viðræður ekki skilað árangri gat stjórnin hins vegar auðveldlega kallað saman Alþingi og lagt þar fram lagafrv. um breytingar á samningnum. Miðað við þingstyrk stjórnarinnar má ætla að niðurstaðan hefði orðið sú sama og fékkst með setningu bráðabirgðalaganna. Ábyrgð ríkisstjórnar í þessu máli er ótvíræð og hún getur ekki vikið sér undan henni.
    En er sá kostur heppilegur að fara nú að fella bráðabirgðalögin? Er fólk tilbúið að taka áhættu á því að glata þeim stöðugleika í efnahagsmálum sem atvinnurekendur og ekki síst launþegar hafa komið á fyrir ríkisstjórnina sem gat það ekki sjálf? Þjónar það hagsmunum fólksins að fórna þeim árangri sem aðilar vinnumarkaðarins hafa óumdeilanlega náð í efnahagsmálum og æða út í kosningar núna? Ég segi nei. Þótt ég hafi skömm á þessari ríkisstjórn og vilji losna við hana sem fyrst. Það er skammt til almennra kosninga til Alþingis. Þá er ég viss um að fólkið sjálft mun draga ríkisstjórnina til ábyrgðar vegna aðgerða hennar. Þá mun fólkið sjálft velja sér forustu sem er treystandi. Og það verða ekki þeir menn sem nú stjórna.
    Hæstv. forseti. Ég greiði ekki atkvæði.