Launamál
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Matthías Bjarnason :
    Herra forseti. Ég var andvígur samningi ríkisins við Bandalag háskólamenntaðra manna. Ég er andvígur því að eftir að sá samningur var gerður var hann svikinn og þar með ráðist á samningsréttinn í landinu án þess að gera hina minnstu tilraun til þess að milda fyrri aðgerðir. Ég var mótfalllinn útgáfu bráðabirgðalaga og tel það hafa verið skyldu ríkisstjórnarinnar að kalla Alþingi saman. Allt ráðslag ríkisstjórnarinnar í þessum efnum sem öðrum er með þeim hætti að allir þeir sem virða samningsrétt og frjálsa skoðun manna í landinu eru mótfallnir þessum aðgerðum. Ríkisstjórnin leitaði ekki til stjórnarandstöðunnar í þessum efnum, leitaði þar aldrei ráða. Þar af leiðandi er stjórnarandstaðan alveg óbundin af slíkum gerðum sem þarna hafa átt sér stað.
    Ég tel að úr því sem komið er sé rétt að ríkisstjórnin sjálf og ein beri fjanda sinn í þessum efnum og hafi ein skömm og skaða af sínum gerðum. Því tek ég ekki afstöðu til þessa máls og greiði ekki atkvæði.