Rannsóknir í þágu atvinnuveganna
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Hér er um að ræða frv. sem gengur út á það að Hafrannsóknastofnuninni sé heimilt að fengnu samþykki stjórnar stofnunarinnar og sjútvrh. að eiga aðild að rannsóknar - og þróunarfyrirtækjum sem séu hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð er þrói hugmyndir og hagnýti niðurstöður rannsókna - og þróunarverkefna sem stofnunin vinnur að hverju sinni.
    Með lögum frá hv. Alþingi hefur Háskóli Íslands fengið sambærilegar heimildir með lögum nr. 8/1986, síðan Iðntæknistofnun með lögum nr. 77/1986, og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins með lögum nr. 71/1990.
    Hafrannsóknastofnun vinnur að margvíslegum þróunarverkefnum og það samstarf sem m.a. hefur tekist við önnur fyrirtæki, og á ég þá sérstaklega við eitt fyrirtæki, Fiskeldi Eyjafjarðar, gerir það mjög mikilvægt að stofnunin hafi slíka heimild.
    Það er í mörgum tilfellum mun kostnaðarminna að vinna að slíkum rannsóknum í samvinnu við einstaklinga eða sérstaklega fyrirtæki sem hafa áhuga og vonandi hag af því að leggja í slíkar rannsóknir. Hafrannsóknastofnunin hefur unnið mikið starf ásamt því fyrirtæki sem ég hef nú nefnt og er enginn vafi á því að þær rannsóknir sem þar fara fram kosta mun minna fé en ef ríkissjóður hefði þurft að byggja upp þá rannsóknaraðstöðu og leggja fram þá fjármuni sem þar hafa verið lagðir af mörkum.
    Hér er um að ræða mjög einfalt frv. og skýrt sem hefur þegar nokkrar hliðstæður í löggjöf hér á landi. Vænti ég þess að það megi taka skamman tíma að afgreiða það. Það hefur nú þegar fengið afgreiðslu hv. Ed.
    Að lokinni þessari umræðu vil ég leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.