Vaxtalög
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Flm. (Stefán Valgeirsson) :
    Herra forseti. Ég vænti þess að forseti hafi séð um það að hæstv. bankamálaráðherra verði hér við umræðuna en ég mun hefja mál mitt eigi að síður.
    Á þskj. 120 hef ég leyft mér að flytja svohljóðandi frv. til laga um breytingu á vaxtalögum, nr. 25 27. mars 1987, með síðari breytingum:
    ,,1. gr. Við 6. gr. laganna bætist eftirfarandi málsgrein:
    Óheimilt er fram til 1. jan. 1992 að áskilja eða taka hærri vexti af peningakröfum en 5% ársvexti af verðtryggðum kröfum. Hámarksvextir af óverðtryggðum kröfum skulu ákveðnir af Seðlabanka Íslands og skulu þeir ákveðnir þannig að raunávöxtun óverðtryggðra peningakrafna verði ekki hærri en raunávöxtun verðtryggðra krafna.
    2. gr. Niður falli 17. -- 19. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 67/1989 (um vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða).
    3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Á 111. löggjafarþingi flutti Auður Eiríksdóttir brtt. við vaxtalög sem voru þá til meðferðar í Nd. Alþingis. Þessi brtt. var efnislega samhljóða þessu frv. Við 2. umr. um málið munaði aðeins tveimur atkvæðum að tillagan væri samþykkt. Þetta gerðist á kvöldfundi, öllum að óvörum. Var dreift nýrri dagskrá og málið tekið fyrir þótt þannig stæði á að fólk vantaði á kvöldfundinn sem vitað var að ætlaði að styðja tillöguna.
    Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð var það eitt af skilyrðunum sem Samtök jafnréttis og félagshyggju settu fyrir stuðningi við hana að raunvextir yrðu ekki hærri en 5%. Til samkomulags sættust þau á að í málefnasamningnum væri miðað við 6% en lofað var að taka síðan málið til endurskoðunar með það að markmiði að lækka þá enn frekar.
    Eftir rúmlega tveggja ára valdasetu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar eru raunvextir fyrir venjulegt fólk frá 7,75 upp í 8,75% og þeim sem verst eru settir og þurfa að skuldbreyta lánum sínum er gert að greiða allt að, eða jafnvel yfir, 10% vexti. Þeir sem eiga miklar eignir, sem eru lítið veðsettar, geta fengið lán með allt niður í 6,5% vexti, en það eru kallaðir kjörvextir. Á þessu sést hvernig það jafnrétti er í reynd sem almenningi er boðið upp á og er þó ekki öll sagan sögð. Með flutningi þessa frv. er látið reyna á hvort ríkisstjórnin stendur undir nafni sem ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju.
    Þegar hin svokölluðu Ólafslög voru til umfjöllunar á Alþingi 1979 var öll umræðan um raunvexti á þann veg að stefnt yrði að því að þeir yrðu aldrei hærri en 2 -- 3%. Flutningsmaður hefur eftir höndum blaðagrein eftir dr. Pétur Blöndal sem hann skrifaði fyrir nokkrum árum þar sem hann telur að raunvextir eigi að vera 2% og aldrei fara yfir 4%. Vaxtaokrið síðustu árin hefur orðið til þess að mjög mikil eignatilfærsla hefur orðið í þjóðfélaginu. Fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar hafa orðið gjaldþrota sem hefur svo leitt af sér ólýsanlegar hörmungar. Þar sem stjórnendur peningastofnana hafa ekki kunnað sér neitt hóf í vaxtatöku verður löggjafinn að grípa inn í með þeim hætti sem felst í þessu frv., a.m.k. fram yfir þau tímamörk sem hin svokallaða þjóðarsátt gildir. Þeir samningar um kaup og kjör gilda fram í september á næsta ári en Alþingi sest ekki á rökstóla fyrr en 10. október. Að öllu óbreyttu þykir því eðlilegt að lög þessi, ef samþykkt verða, gildi til áramóta 1991 -- 1992 til þess að ný ríkisstjórn fái ráðrúm til að gera ráðstafanir í vaxtamálum miðað við þá reynslu sem við fáum af þessari lagasetningu verði þetta frv. samþykkt og þeim viðhorfum sem meiri hluti á Alþingi þá kann að hafa.
    Það hefur nú komið fram í blöðum að undanförnu hvernig þessi mál hafa skipast. Ég gat um það í gær í ræðu minni um það mál sem við vorum að greiða atkvæði um hér áðan að í Tímanum, blaði hæstv. forsrh., er sagt frá því að á þessu ári séu að meðaltali um 8,6% vextir á óverðtryggðum skuldabréfum borið saman við 4,7% á síðasta ári. Nú skal ég ekki fullyrða það að þessar tölur séu réttar, þ.e. lægri talan, en ég hygg að það sé ekki ofsagt um þá vexti sem eru í dag.
    Hér segir, með leyfi forseta, að þetta komi fram í hagtölum Seðlabankans um vaxtaþróun yfirstandandi árs. Þar kemur einnig fram að raunvextir verðtryggðra lána eru sömuleiðis háir. Þeir hafa verið jafnt og þétt að þokast upp á við allt frá gildistöku þjóðarsáttar og stefna enn upp á við. Í október í fyrra voru meðalraunvextir af verðtryggðum lánum 7,4%. Í byrjun þessa árs voru þeir 7,8%. Sl. vor voru þeir 7,9%, í sumar urðu þeir 8% og í haust 8,2%. Og enn mun þetta meðaltal hækka ef ríkisbankarnir hækka vexti hjá sér næstu daga eins og nú er búist við.
    Og í lok forsíðugreinar Tímans, sem er með stríðsletri, segir að að árinu 1988 frátöldu hafi raunvextir aldrei verið hærri en nú á ári þjóðarsáttar. --- Þetta segir Tíminn.
    Ég hef reynslu fyrir því hvernig þetta okur er. Ég þurfti að bjarga fjölskyldumeðlimi um að losna við skuldabréf sem var brýnt að losna við. Mér var tjáð af manni í bankanum að vextirnir á bréfinu, þeir voru óverðtryggðir, yrðu eins og vextir Landsbankans á hverjum tíma. Þetta voru 1500 þús. Þegar kom að því að afgreiða þetta bréf voru afföllin, þetta var fjögurra ára bréf, 10%. Af þessum 1500 þús. kr. voru afföllin 150 þús. Bankastjóri sem ég talaði við taldi að þetta væri nú gott miðað við það sem væri annars staðar. Kostnaðurinn við þessi bréfakaup var til viðbótar 40 þús.
    Í því blaði, sem ég vitnaði í áðan, er viðtal við Guðmund J. Guðmundsson, formann Dagsbrúnar. Fyrirsögnin er: ,,Bankarnir láta ekki að stjórn við framkvæmd þjóðarsáttar``. Og áfram: ,,Hart að bankarnir einir maki krókinn á þjóðarsátt.``
    Með leyfi forseta vil ég lesa þetta viðtal því það er lærdómsríkt:
    ,,Bankarnir virðast alveg standa á öndinni yfir því að verðbólga hafi lækkað og óttast beinlínis um líf sitt þess vegna. Að fróðra manna yfirsýn er álitið að

hagnaður af rekstri banka og sparisjóða í heild árið 1990 verði 2,5 -- 3 milljarðar. Samt ráðgera bankarnir nú 1% vaxtahækkun.`` --- Þetta er viðtal í Tímanum 6. des. ,,Þetta eru orð Guðmundar J. Guðmundssonar, formanns Dagsbrúnar og Verkamannasambandsins, í gær. Guðmundur sagði að mjög væri þungt í launþegum vegna framkomu banka og peningastofnana í þjóðarsáttarmálinu, ekki síst nú þegar nýbúið væri að framlengja samningunum. ,,Það er hart að í öllu þessu írafári og bardaga um þjóðarsátt þá skuli einn aðili sleppa frá því að taka á sig byrðar vegna hennar, --- bankarnir,`` sagði Guðmundur og bætti við að það væri ansi hart að raunvextir skuli vera jafnháir og þeir eru þrátt fyrir að lánskjaravísitala hafi hrapað niður.
    Guðmundur sagði að bæði vaxtahækkanir og tregða bankanna til að breyta vöxtum í samræmi við þjóðarsáttina hefði skilað bönkunum mjög miklum tekjum umfram tekjur síðasta árs. En bankarnir ætluðu ekki að láta þar við sitja og því væri uggur í launþegum, enda blikur á lofti. Olíuverð stefnir upp á við, síldarsölusamningar eru tvísýnir og sama er að segja um loðnuvertíðina. ,,Maður gæti búist við að í þessum slag við að halda verðbólgunni niðri legðu bankarnir baráttunni eitthvert lið, en það er öðru nær. Þvert á móti ætla þeir að svara með 1% vaxtahækkun. Núna fyrir jólin er víst meiningin að skella yfir fólk vaxtahækkunum en predika svo fyrir öðrum að ekkert annað megi hækka. Ætla þeir að heilsa þannig upp á okkur eftir að þjóðarsáttin hefur nú verið framlengd? Ætla þeir að standa fyrir hækkuðu vöruverði og hærri fjármagnskostnaði hjá atvinnufyrirtækjum í undirstöðugreinum?
    Maður spyr: Hvað á að segja við láglaunafólk með 40 -- 60 þús. kr. laun sem ekki hækka á sama tíma og bankarnir hækka útlánsvexti þrátt fyrir mun betri afkomu en í fyrra?
    Vaxtahækkanirnar fara nefnilega beint út í verðlagið að stórum hluta. Og annað verra: Það verða alls konar hækkanir fóðraðar vegna þeirra. Það er því furðulegt að þeir sem hvað erfiðast er að fá til að standa við bakið á markmiðum þjóðarsáttar eru peningastofnanir, meira að segja þær þeirra sem eru í eigu ríkisins. Peningastofnanirnar hafa bókstaflega ekki látið að stjórn.``
    Guðmundur gagnrýndi einnig Seðlabankann fyrir að hafa lítið beitt sér í því að halda niðri vöxtum. ,,Ég er hræddur um að stjórnendur hans séu að dunda eitthvað annað,`` sagði hann. ,,En bankarnir láta ekki bara við það sitja að heimta síhækkandi raunvexti á útlán. Þeir hafa stórhækkað þjónustugjöld, fjölmörg þeirra um helming, og tekið upp gjaldtöku fyrir þjónustu sem áður var ókeypis.``
    Sem dæmi um hið síðarnefnda segir Guðmundur að Íslandsbanki hefði nýlega tekið að innheimta sérstakt afgreiðslugjald af launum sem greidd væru af atvinnurekanda í Íslandsbanka en síðan send áfram til annarrar peningastofnunar. Þú hefur lántökugjald verið hækkað á gildistíma þjóðarsáttar úr 1,5% í 1,8% 1. júlí og hjá Íslandsbanka í 2% frá 1. sept. Við bankasamrunann um síðustu áramót hækkaði leiga fyrir

bankahólf í gamla Alþýðubankanum við Laugaveg um 100%. ,,Íslandsbanki er almennt hæstur með allt nema innlánsvexti,`` sagði Guðmundur.``
    Mér hefur þótt rétt að þetta komi fram hér á hinu háa Alþingi þegar tekist er á um bráðabirgðalög, þegar tekist er á um að reyna að halda verðbólgunni niðri. Það kemur líka fram í skýrslu Seðlabankans að Íslandsbanki sem átti að verða, að sögn hæstv. bankamálaráðherra, til þess að keppa um og lækka vextina er alltaf hæstur. Og hér vitna ég í Guðmund J. Guðmundsson enn fremur um það.
    Þegar ég tók þátt í því að mynda ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar þá lögðum við þunga áherslu, eins og áður hefur verið sagt, á að sporna við þessu fjármagnsokri. Ég held að í átta greinum í málefnasamningnum sé komið inn á að það á að lækka vextina, það á að reyna að skuldbreyta, það á að reyna að hjálpa fjölskyldum vegna húsnæðiskaupa o.s.frv.
    Og því vil ég spyrja hæstv. bankamálaráðherra, nú er stutt til kosninga, hvar eru efndirnar? Ég man eftir því að hæstv. ráðherra sagði í sambandi við samningana við Atlantsálshópinn að orð skuli standa. Gildir eitthvað annað um þau loforð sem almenningi í þessu landi eru gefin? Það sem sett er í stjórnarsáttmálann, á það ekki að standa? Hvað ætlar ráðherrann að gera í því máli? Nú reynir á það, hæstv. ráðherra, hvort það hefur bara verið til þess að fá okkur til þess að standa við bakið á þessari ríkisstjórn sem þetta loforð var gefið og átti aldrei við að standa. Nú er tækifærið að lækka vextina, setja þá fasta á meðan þjóðarsáttin ríkir og sýna það í verki að hugur hafi fylgt máli.
    Það væri hægt að segja margt um þetta mál og hvernig það er. Ég gæti lesið upp fleiri greinar, t.d. greinar eftir dr. Pétur Blöndal sem hann skrifaði fyrir nokkrum árum um vexti og hans afstöðu og af því það er vitnað svo oft í hann. En ég ætla ekki að gera það að þessu sinni. Ég kæri mig ekki um að tefja fundinn. En ég vil fá svör við því hjá hæstv. bankamálaráðherra hvað hann ætlar að gera í sambandi við þá þróun sem hefur orðið. Tíminn, blað forsrh., segir að raunvextir hafi aldrei verið eins háir nema 1988 og hafi stórhækkað eftir að þjóðarsáttin var gerð. Ég held að ríkisstjórnin í heild sinni þyrfti að hysja upp um sig í þessu máli.
    3. des. var sagt í morgunfréttum frá því hvernig vextir væru hér á landi miðað við nágrannalöndin. Ég held það heiti ,,morgunauki`` og síðan hafi í umfjöllun um þessi viðskiptamál verið talað um ,,viðskiptavaka``. Þar var sagt frá því að raunvextir væru 7,2% og þá er líklega átt við að það er tekið meðaltal af öllum vöxtum og m.a.s. þeim sem aldrei er farið eftir.
    Ég fékk í ferð minni þegar ég var í Bretlandi um daginn vitneskju um hvernig þetta er þar og hefur verið hjá járnfrúnni. Þar kemur fram að á árinu 1987 hafi verðbólgan verið 4,2% en í ár 10,9%. Vextirnir voru 1987 9,7% en núna 14,9%, eða raunvextir 4%.
    Það er dálítið athyglisvert hvernig fjölmiðlar, meira að segja ríkisfjölmiðlar, haga sér í þessum og ýmsum öðrum málum. Þetta kemur fram í ,,morgunauka``. Það er endurtekið í hádeginu. Svo skýra sum blöðin frá þessari speki og síðan taka fjölmiðlarnir þetta aftur. Auðvitað í þeim tilgangi að einhverjir trúi þessu.
    En ég vonast til þess að ég fái einhver svör við þessum spurningum.