Vaxtalög
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er til umræðu frá hv. 6. þm. Norðurl. e. felur í sér svo veigamikla breytingu á því fyrirkomulagi vaxtaákvarðana sem hér hefur verið að vaxa fram undanfarin ár að það er alls ekki hægt að lýsa yfir stuðningi við það.
    Hv. þm. vekur máls á því að það hafi ekki tekist að lækka raunvexti á því tímabili sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur starfað frá haustinu 1988. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því að á því tímabili hefur einmitt orðið mjög veruleg lækkun raunvaxta. Þannig hafa vextir ríkisskuldabréfa lækkað úr 7 -- 8% í u.þ.b. 6% miðað við raunvexti. Vextir hjá öðrum lántakendum, bönkum, sveitarfélögum, fjárfestingarlánasjóðum, hafa lækkað mun meira eða um 2 -- 3%, eins og glöggar upplýsingar má fá um í fréttabréfum verðbréfafyrirtækja og Seðlabanka. Það er yfir allan vafa hafið að hér hefur orðið veruleg raunvaxtabreyting á markaðinum í heild.
    Ég vildi vekja athygli á því að meðalvextir almennra óverðtryggðra skuldabréfa voru á árinu 1988 um 33,5% að nafnvöxtum til, raunvextirnir taldir þá tæplega 12%, 11,8%. Núna er búist við að vextirnir verði á þessu ári, eins og kom fram í máli hv. 6. þm. Norðurl. e., um 8% eða rúmlega það, það er að sjálfsögðu áætlun, að raunvöxtum til. Nafnvextirnir 16 -- 17%. Þetta er geysilega mikil breyting.
    Það verður líka að horfa á það að við höfum náð mjög góðum árangri í að nálgast þau markmið sem menn settu sér haustið 1988. Þar hefur ekki allt náð fram að ganga en ég vildi vekja athygli þingmannsins á því að tölurnar tala hér sínu máli.
Þetta hefur náðst með því fyrirkomulagi vaxta sem hér ríkir. Ég vildi vekja athygli á því að frelsinu fylgir ábyrgð og undir þeirri ábyrgð hafa aðilarnir á lánamarkaðnum eftir atvikum risið vel. En það er rétt að til þess að hnykkja á þessu og til þess að tryggja það að vextir á Íslandi fari ekki mjög frá því sem algengast er í löndunum í kringum okkur þá þurfum við að gefa íslenskum fyrirtækjum og íslenskum almenningi greiðari aðgang að lánsfé frá alþjóðlegum lánastofnunum. Að því er líka stefnt og senn að vænta frv. frá ríkisstjórninni um heimildir fyrir erlendar lánastofnanir að starfa hér á landi til þess að tryggja enn betur að samkeppnin færi fólki sanngjörn vaxtakjör.
    Ég vildi líka benda á að það sem hér segir í grg. með frv. hv. 6. þm. Norðurl. e., að raunvextir fyrir venjulegt fólk séu á bilinu 7,75% og upp í 8,75% og hjá þeim sem verst eru settir og þurfa að skuldbreyta allt að 10%, er alls ekki rétt lýsing á því sem kalla má raunvaxtakjör fyrir venjulegt fólk. Ég vildi leyfa mér að vekja athygli á því að þegar menn lýsa málinu svona þá sleppa þeir að geta um hið almenna húsnæðislánakerfi með 4,5% vöxtum eða félagslega byggingalánakerfið í Byggingarsjóði verkamanna með 1% vöxtum, eða byggðalán Byggðastofnunar með 5% vöxtum. Ég vil meina það að lántakendurnir að þessum lánum, líkt og fólkið sem tekur lán í Lánasjóði ísl. námsmanna, þar sem raunvextirnir eru engir, séu

líka venjulegt fólk og beini því til hv. 6. þm. Norðurl. e. að athuga betur hvernig veruleikinn er sem hann er að lýsa. Ég ætla ekki að draga úr því að það sé erfitt undir því að rísa þegar fólk lendir í skuldavandræðum að borga þessa háu raunvexti en ég vildi líka benda á að það er með hinu frjálsa vaxtafyrirkomulagi sem okkur hefur tekist að ná betra jafnvægi á lánamarkaðnum en nokkru sinni fyrr.
    Það er ekki rétt að halda því fram að raunvextir séu nú um stundir hærri en þeir hafi nokkru sinni fyrr verið með þessari einu undantekningu. Og ég vildi benda á það að frá því í fyrravetur, frá því á síðasta ársfjórðungi síðasta árs, hafa nafnvextir lækkað úr 32% niður í 13,5% og raunvextirnir úr tæplega 12% niður í u.þ.b. 5% þegar maður miðar við óverðtryggð skuldabréf í bönkunum. Þetta er geysilega mikil breyting og reyndar komið svo að raunvextir á óverðtryggðum lánum í bönkunum eru nú lægri en verðtryggðu vextirnir hjá góðum lántakendum. Þetta er baksviðið fyrir þær umræður um vexti og vaxtaákvarðanir sem fram fara nú í viðskiptabönkunum og hv. þm. vék hér að.
    Ég vil halda því fram að með því sem ég hef hér verið að lýsa hafi verið efnt það sem fyrirheit voru gefin um haustið 1988. Að vísu vill það svo fara að menn hafi ekki náð því til fulls sem að var stefnt en hér hafa orð sannarlega staðið. Ég vænti þess að ef menn hafa vit til að treysta áfram á frjálsa viðskiptahætti á þessu sviði eins og öðrum muni árangurinn geta orðið enn betri þegar fram í sækir.
    Þetta, virðulegur forseti, eru örfáar athugasemdir við frv. og málflutninginn sem því fylgir og skýringin á því að það er ekki rétt að samþykkja þetta frv.