Vaxtalög
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Flm. (Stefán Valgeirsson) :
    Herra forseti. Mér þótti ákaflega fróðlegt að heyra í hæstv. bankamálaráðherra. Hann t.d. nefndi vexti í Byggðastofnun 5%. Veit bankamálaráðherra ekkert hvernig vextir eru í þjóðfélaginu? Ég held að hann sé að segja okkur það.( Viðskrh.: Sérstakra byggðalána.) Það er undantekning. Ég held að það séu kannski fimm, sex lán á ári. ( Viðskrh.: Ég nefndi það alveg sérstaklega.) Það bendir til þess að ráðherrann hafi bara ekki hugmynd um hvað hann er að tala um. Ég tel mig alveg vita hvernig þetta gengur fyrir sig í bönkunum. Það eru fleiri hér inni sem vita það dálítið, t.d. formaður stjórnar Byggðastofnunar sem hér situr og hefur stundum látið í sér heyra hvernig þessi mál eru.
    Það er ekki nóg að segja að það séu 6,5 og 6,75% vextir á lánum sem undantekningarlítið eru ekki lánuð. Það getur vel verið að bankamálaráðherra geti farið inn í banka ef hann á fasteign sem lítið eða ekkert er á og geti fengið slíkt lán. En þeir sem eru með einhver lán að ráði á sínum fasteignum, þó það sé nóg trygging, þurfa að taka lán með vöxtum sem eru á milli 8 og 9%, 8,75% í Íslandsbanka. Þetta er nú allur sannleikurinn. Það hringdi í mig maður fyrir þremur dögum og sagði mér að hann hefði verið að skuldbreyta. Það var að vísu í sparisjóði en hann varð að sætta sig við 10,5%.
    Það eru nefnilega atvinnuvegirnir sem eru í fjötrum, launafólkið er í fjötrum, en peningarnir eru frjálsir. Það eru peningarnir sem deila og drottna í þessu þjóðfélagi. Það hefur aldrei verið meiri eignatilfærsla í þjóðfélaginu en núna síðustu árin. Og þetta styður, að manni virðist, hæstv. bankamálaráðherra og ef til vill ríkisstjórnin í heild. Eru það einhverjar tilviljanir að fólk í hundraðatali er að missa íbúðirnar sínar? Það þýðir ekkert að benda á vextina hjá húsnæðismálastjórn. Það þýðir ekkert að gera það. Við vorum að tala um bankana þegar við vorum að mynda þessa ríkisstjórn. Þau orð hafa ekki staðist. Og ráðherrann sagði í raun og veru með óbeinum orðum að þessi frétt í Tímanum væri röng. Hann sagði það ekki en hann sagði það sama sem. Ég stend í þeirri trú að hún sé rétt. Þó ekki sé allt rétt sem stendur í Tímanum þá held ég að þetta láti nærri a.m.k. um það sem er. Ég hef ekki haft tíma til að fara ofan í hvernig þetta var á sl. ári.
    En það finnst mér hastarlegt ef það verður tilfellið að öllu verði haldið í fjötrum nema peningunum, nema þeim sem eiga fjármagnið. Og ofan á það bætist að ég held að Ísland sé eina landið í Evrópu, eftir því sem ég veit best, sem leggur ekki neinn tekjuskatt á vaxtatekjur. Þeir sem eiga peninga þeir deila og drottna. Það er jafnaðarmaðurinn, hæstv. viðskrh., sem lýsir því hér yfir á Alþingi að þetta verði að vera svona áfram.
    Það sem var talað um þegar við mynduðum þessa ríkisstjórn stendur ekki. Orð standa ekki. Og það að raunvextir hafi lækkað, eins og hann segir, frá því að þessi ríkisstjórn var mynduð, ríkisstjórn Steingríms

Hermannssonar, um 3%, stenst heldur ekki. Að þessu leyti hafa orð ekki staðið. Ef svo á nú enn að hækka vexti og það á að líða, þá held ég að ég mundi ráðleggja þessari ríkisstjórn að reyna í fyrra fallinu í vor að koma sér af stólunum.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta hér lengur en ég tel að þeir sem fylgja þessari stefnu geti varla flaggað því að vera jafnaðarmenn. Þeir ættu þá að setja ó - ið fyrir framan.