Vaxtalög
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég bið um orðið eru ummæli hæstv. ráðherra. Hann þarf því miður að hverfa af fundinum þannig að ég á ekki von á því að hann svari meiru. Ég ætla að byrja á að segja frá því að ég er ekki sammála því frv. sem hér liggur fyrir og mun ekki leggja til að það verði samþykkt. Ég vil benda á að í umræðum sem fóru fram hér í gær lýsti hæstv. forsrh. því yfir að vextir á Íslandi væru þeir hæstu í heimi. Það væri eins með vexti hér og annars staðar á Norðurlöndum að það væru hæstu vextir í heimi. Nú má reyndar halda öðru fram. Það er ekki sama hvernig samanburðurinn er. Sumir bankamenn halda því fram að vextir hér á landi séu heldur lægri en annars staðar á Norðurlöndum, líklega 1 -- 2%. ( SV: Það er bara rugl.) Ég heyri að mesti sérfræðingur okkar í vaxtamálum, hv. 6. þm. Norðurl. v., segir að það sé rugl. Þetta eru nú hlutir sem hægt er að mæla með auðveldum hætti.
    Ef við skoðum lánsfjármarkaðinn hér á landi kemur í ljós að vextir eru háir. Og vextir eru háir fyrst og fremst vegna þess að eftirspurn á þessum markaði er gífurlega mikil. Þeir sem mynda eftirspurnina eru fyrst og fremst opinberir aðilar, ríkissjóður þar fremstur í flokki. Og þess má geta að fyrir hv. deild liggur nú frv. til aukalánsfjárlaga þar sem gert er ráð fyrir því að hæstv. ríkisstjórn þurfi að ná sex milljörðum kr. til viðbótar því sem áætlað var á innlenda fjármagnsmarkaðnum í ár. Og þrátt fyrir það að fyrirtækin hafi verið að greiða til baka skuldir sínar nægir það ekki. Við þurfum meiri sparnað frá einstaklingum og öðum þeim sem geta lagt til hliðar til þess að ríkissjóður geti fjármagnað hallann. Það er einmitt þessi hallarekstur ríkisins sem er stórhættulegur, svo hættulegur að Seðlabanki Íslands talar um svikalogn á lánamarkaði nú. Og dagblaðið Tíminn tekur þetta upp úr Seðlabankaskýrslunni í ítarlegri grein um þetta mál í dag. Þar er fyrirsögnin: Svikalogn á lánamarkaðinum. Þetta er í dag í málgagni hæstv. forsrh. Auðvitað eru þetta orð að sönnu því að um leið og atvinnulífið þarf að fara að hreyfast á ný, uppbygging að eiga sér stað, um leið og við þurfum að undirbúa okkur undir það að fleiri störf verði til í atvinnulífinu þurfa atvinnufyrirtækin á peningum að halda. Ef ríkissjóður nær ekki í fjármagn með öðrum leiðum eða dregur úr hallanum má búast við því að það verði mikil sprenging og vextirnir komi til með að hækka enn meir en þeir hafa gert að undanförnu.
    Því er haldið fram að það sé samband á milli afkomu í bankakerfinu og vaxta. Kannski má færa einhver rök fyrir því. En þetta er algengur misskilningur vegna þess að bankarnir nærast fyrst og fremst á vaxtamuninum. Vaxtaupphæðin, vaxtafjárhæðin, ræðst hins vegar af framboði og eftirspurn. ( Gripið fram í: Og þjónustugjöldunum.) Og þjónustugjöldunum að sjálfsögðu sem í raun og veru eru allt of lág í bankakerfinu. Þau eru svo lág að þau standa ekki undir kostnaðinum við þjónustuna. Þetta er nú sannleikur málsins og þetta á auðvitað fyrrv. formaður bankaráðs Búnaðarbankans að vita. (Gripið fram í.) Það eru ekki einungis lántökugjöld. Það eru þjónustugjöld út um allt bankakerfið og þau eru svo lág að þau standa ekki undir kostnaðinum við það að veita þjónustuna þegar á heildina er litið. En það er misræmi á milli þjónustugjaldanna innbyrðis. Það er alveg rétt. Þetta verða menn að hafa í huga. Vaxtamunurinn á Íslandi er mikill vegna þess að þjónustugjöldin eru í heild sinni lág. Þetta eru allir sammála um, ekki bara bankarnir heldur líka viðskrn. En núna að undanförnu hefur verið starfandi nefnd á vegum þessara aðila til þess að fara í gegnum þessi mál. Og ein helsta niðurstaðan varð sú að það þyrfti að laga til þjónustugjöldin einmitt með tilliti til þess að draga úr vaxtamuninum en hækka heildarfjárhæð þjónustugjaldanna. Þar með er ekki verið að segja að það megi ekki lækka sumt og hækka annað. Þetta verða menn að hafa í huga, þeir sem skoða þessar tölur og skoða þessar staðreyndir með opnum augum.
    Það er misskilningur líka að bankakerfið á Íslandi standi afar vel og á traustum fótum. Það má vera að kannski einn eða tveir bankanna standi nokkuð vel. Þeir sem hafa verið reknir hvað harðast að undanförnu. Ég ætla ekki að nefna nöfn á neinum banka í því sambandi en ég hygg að sumir viðstaddir viti við hvaða banka ég á. En ég staðhæfi hins vegar að aðrir bankar standi alls ekki vel og þar á meðal tiltölulega stórir bankar. Ástæðan er auðvitað sú að mörg fyrirtæki í landinu hafa verið að fara á hausinn, sem eðlilegt er þegar samdráttur á sér stað, og gjaldþrot lenda í stórum stíl á bankakerfinu. Þannig að það er rangt að halda að afkoma bankanna í ár verði stórkostlega góð.
    Staðreyndin er sú að eigiðfjármagn í íslenska bankakerfinu er mjög lágt. Og af hverju er ég að nefna þetta? Jú, það er vegna þess að hæstv. ráðherra kom hér í ræðustól og sagði að nú væri kominn tími til að hleypa erlendum bönkum inn í landið og leyfa fyrirtækjum og öðrum að taka lán erlendis. Ég hygg að hæstv. ráðherra verði að átta sig á því að það verður að fara fram undirbúningur og aðlögun. Sú aðlögun verður að felast í því að styrkja íslenska bankakerfið, auka eigiðfjármagnið í bankakerfinu þannig að íslensku bankarnir geti staðist þeim erlendu snúning vegna þess að afkoman hefur alls ekki verið góð í bankakerfinu þótt eitt og eitt ár hafi verið gott. Ef menn skoða eiginfjármagnstölur í íslenskum bönkum þá sjá menn fljótt að þær eru alls ekki háar. Þetta eru ekki eins traustar stofnanir og þær kannski líta út fyrir að vera.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að kæmi hér fram því það er sjaldan sem talað er svona hér á þinginu enda telja allir að bankakerfið sé höfuðandstæðingur bæði þings og þjóðar, og þó aðallega atvinnufyrirtækjanna, og það sé bara nóg að ákveða með lögum að lækka vexti og þá lagist allt saman á svipstundu. Slíkar hókus pókus aðferðir eru því miður ekki til og eru hvergi notaðar sem betur fer nú á tímum, a.m.k. ekki í neinu lýðfrjálsu landi.
    Hæstv. ráðherra minntist á vexti á óverðtryggðum

skuldabréfum og sagði að raunvextirnir væru lágir. Það er rétt hjá honum. Þeir eru lágir. Þeir eru lágir vegna þess að bankarnir hafa að undanförnu, og það veit formaður bankaráðs Búnaðarbankans sem hér situr, hikað við að samræma vexti á óverðtryggðum skuldabréfum vöxtunum á verðtryggðu skuldabréfunum. Og það vita allir sem um þessi mál fjalla að það er rétt sem stendur í DV í dag að á næstu tveimur til þremur mánuðum verða vextir að hækka, ætli það séu ekki um 3 prósentustig á næstu tveimur mánuðum eða u.þ.b., einmitt á þessum óverðtryggðu skuldabréfum sem hæstv. ráðherra leyfði sér að taka sem dæmi. ( Gripið fram í: Ekki almennir vextir.) Þetta eru nafnvextir. Hæstv. ráðherra var að nefna nafnvextina. Það er verið að hækka nafnvextina um þetta. Vegna þess að það þarf að samræma raunvextina á óverðtryggðum skuldabréfum og verðtryggðum skuldabréfum. Þetta er ósköp einfalt mál fyrir þá sem hafa fengist einhvern tímann við lánamál og þurfa að lána út bæði verðtryggt og óverðtryggt. En það verður auðvitað að
láta þetta fara saman. Þess vegna kom ég hér upp, til þess að benda á að hæstv. ráðherra valdi þá raunvexti sem í dag eru lægstir vegna þess að það vill svo til að bankarnir hafa ekki enn sem komið er fært þessa vexti upp en þurfa að gera það á næstu tveimur til þremur mánuðum. Þetta er sú staðreynd sem blasir við.
    Ég vil enn fremur að það komi fram í þessum umræðum, af því að rætt hefur verið um þjóðarsáttina, að hinn 1. febr. á þessu ári gerðu bankarnir, aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin með sér samkomulag. Ég veit ekki betur en að bankarnir hafi staðið við það samkomulag í einu og öllu. En það er einn aðili sem ekki hefur staðið við samkomulagið og það er sjálft ríkið. Í minnisblaði til nefndar sem starfar á vegum viðskiptabankanna, viðskrn. og fjmrn. var minnst á nokkur atriði, þar á meðal skattamál, sem þessi nefnd átti að vinna. Hæstv. ríkisstjórn með fjmrn. í broddi fylkingar hefur ekki orðið við þeim óskum sem komu fram í þessari nefnd. Þannig að sjálft ríkið hefur ekki staðið við sinn hlut af þjóðarsáttarsamningnum sem gerður var á milli aðila vinnumarkaðarins, bankakerfisins og ríkisstjórnarinnar. Þetta vil ég að komi hér fram því mér finnst það gerast allt of oft að stjórnmálamenn, og stundum meira að segja forsætisráðherrar, standi upp og segi að allt illt eigi rætur að rekja til bankakerfisins. Mér finnst vera kominn tími til að þetta sé skýrt út hér í þessari hv. deild því mér hefur sýnst eins og menn hafi viljað horfa fram hjá staðreyndum þegar rætt er um íslenska lánsfjármarkaðinn og íslenska bankakerfið.