Vaxtalög
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég tel að flm. þess frv. sem hér er til umræðu sé með góð markmið í huga en samfara því er auðvitað óhjákvæmilegt að ræða það sem hefur verið að gerast í ríkisfjármálum, t.d. á þessu ári. Hvað er það sem orsakar þessa háu vexti og hefur gert gegnum árin? Hvers vegna eru vextir hærri hér en í nágrannalöndunum og hvers vegna fer verðbólgan alltaf af stað? Hvers vegna er verðbólga og vextir hærri hér en í helstu nágrannalöndum?
    Þessi umræða hefur því miður oft verið á villigötum, hæstv. forseti. Ég tel að ein aðalástæðan fyrir háum vöxtum fyrr og síðar sé að Alþingi Íslendinga hefur framselt lántökuákvæði stjórnarskrárinnar í 6. gr. fjárlaga með svoköllum yfirdrætti í Seðlabankanum. Með þessum svokallaða yfirdrætti greiðir ríkissjóður á hverju ári í desember fjárveitingar sem Alþingi hefur ekki gefið leyfi fyrir. Þessi athöfn framkvæmdarvaldsins er það sem leiðir til hárra vaxta og þenslu. Á þessu ári er talað um að peningamagn hafi aukist um 20% umfram verðlag. Ekki verða þessi verðmæti til úr engu. Þau koma ekki upp úr einhverjum kössum niðri í Seðlabanka. Það er óhjákvæmilegt að vextir fari hækkandi, raunvextir, þegar stjórnvöld haga sér eins og þessi stjórn gerir í dag. Í lok nóvember var þessi yfirdráttur, viðskiptareikningur ríkissjóðs í Seðlabankanum, neikvæður um 7,2 milljarða.
    Það er óhjákvæmilegt að þetta valdi þenslu og spennu á peningamarkaðnum. Jafnframt er ríkisstjórnin að ná fram markmiðum sínum í húsnæðismálum með svokölluðu húsbréfakerfi. En það er nú eins og þar stendur að skipstjóri vill sigla en byr hlýtur að ráða. Því miður hefur það allt of oft viðgengist undanfarin ár að stjórnmálamenn séu að bjóða upp á einhverjar patentaðgerðir sem engin innistaða er fyrir, eins og það að geta veitt öllum sem vilja húsbréfalán á hálfum mánuði. Háleitt markmið, en hlýtur að verða að taka mið af því hvort peningarnir eru til eða ekki. Það er akkúrat það sem þetta mál snýst um. Ef peningarnir eru ekki til eru þeir bara búnir til. Ríkisstjórnin rekur ríkissjóð með halla sem er mörgum milljörðum meiri en gert var ráð fyrir. Það þarf líka peninga í það. Hvaðan eiga þeir að koma? Hækka skatta. Þessi hæstv. ríkisstjórn hefur hækkað skatta um allt að 20 milljarða og dugar hvergi. Alltaf vantar meira samt.
    Það er því óhjákvæmilegt að það komi fram í umræðum um vaxtamál, og tek ég heils hugar undir það, að það er gífurlega þýðingarmikið fyrir atvinnulífið í landinu og þjóðina alla að vextir séu lágir. Ekkert er eins þýðingarmikið fyrir framleiðsluna í landinu og fyrir þá einstaklinga sem skulda mikið í húsnæðislánum sem öðru að vextir séu lágir. En þeir verða ekki lágir af því bara. Vextir verða lágir með því að stjórnvöld stjórni efnahagsmálum þjóðarinnar af nákvæmni, af vandvirkni og reki ríkissjóð Íslands af nákvæmni og af vandvirkni. En hvorugu þessu er til að dreifa í ríkisrekstrinum eða umgengni stjórnvalda við fjárlög yfirleitt. Það er ástæðan fyrir háum vöxtum. Ég

ætla því, hæstv. forseti, að ítreka það sem ég sagði áðan. Háleitt markmið að hafa vexti lága er mjög þýðingarmikið fyrir íslenska þjóð en óframkvæmanlegt nema stjórnvöld á Íslandi vilji viðurkenna grundvallaratriði, nákvæmni og reglusemi í umgengni við fjármál.