Vaxtalög
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Flm. (Stefán Valgeirsson) :
    Herra forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið til máls í þessu máli og þó sérstaklega hv. 1. þm. Vestf. því í grundvallaratriðum kom fram hjá honum líkt lífsviðhorf og ég hef í þessum málum. Það er eins og hv. þm. forðist að horfa á það að tekjur af fjármagni eru einu tekjurnar í þjóðfélaginu sem ekki þarf að borga skatt af. Menn virðast ekki skilja hvað í því felst, hvað af því leiðir. Það er verið að halda lágum launum niðri. Það er talað um að samið hafi verið um það. Það er að vísu rétt að það má heita það, menn sáu ekki fram á annað en þeir yrðu að semja á þann veg. Hver getur lifað af 40 þús. kr., eins og dæmi munu vera til, en yfirleitt 60 -- 70 þús. kr. á mánuði? En svo er það fjármagnið eitt sem getur tekið það sem því sýnist. Það er frelsið, það lífsviðhorfið. Er það virkilega að hv. þm. skilji ekki að það er alveg þýðingarlaust að tala um þjóðarsátt, að það geti orðið framlenging á þjóðarsátt, ef þetta fjármagnsokur á að halda áfram óbeislað. Það vil ég biðja þá fáu hv. þm. sem hér eru að hugleiða.
    En það er þýðingarlítið að ræða um þessi mál,
menn hafa misjöfn viðhorf til þess hver á að hafa meiri rétt en aðrir, hver á að hafa mestan rétt. Það fer ekki fram hjá neinum að það er viðhorfið hér að þeir sem hafa komist yfir mikla peninga eigi að hafa miklu meiri rétt en allir aðrir. Þeir sem eru fátækir hafi minnstan rétt. Þetta er viðhorfið, blákalt.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að syndga meira upp á náðina. Ég gleymdi áðan að óska eftir að þessu frv. yrði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.