Verslun ríkisins með áfengi
Miðvikudaginn 12. desember 1990


     Flm. (Matthías Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég leyfi mér ásamt hv. 5. þm. Vesturl. að flytja frv. um breytingu á lögum um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. Það er þess eðlis að sé áfengi og tóbak selt gegn greiðslu póstkröfu skal Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins greiða umbúða- og sendingarkostnað.
    Eins og nú háttar rekur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins 19 verslanir sem selja áfengi. Þessar verslanir eru á Akranesi, í Ólafsvík, á Ísafirði, Sauðárkróki, Siglufirði, Akureyri, Seyðisfirði, Neskaupstað, Höfn, í Vestmannaeyjum, á Selfossi og í Keflavík. Þeir sem ekki hafa búsetu á þessum stöðum eða í nágrenni þeirra skipta við Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins með aðstoð póstþjónustunnar. Þá þjónustu eru þeir látnir greiða sjáfir.
    Nú er því þannig varið að bensín og olíur, mjólk og flestar landbúnaðarafurðir eru seldar á sama verði hvar sem er á landinu. M.a.s. fer það nú í vöxt að heildsölur hér í Reykjavík taki þátt í eða greiði jafnvel að öllu leyti sendingarkostnað. Ég tel að allir þegnar þjóðfélagins eigi að búa við það sama í þessum efnum sem öðrum. Ég sé enga ástæðu til þess að ef menn biðja um að senda sér þessa vöru frá einhverri útsölu á landinu til staða þar sem ekki er útsala að þá eigi viðkomandi að greiða sendingar- og umbúðakostnað fyrir hana. Frv. gerir ráð fyrir því að verslunin sjálf greiði þennan umbúða- og sendingarkostnað. Þetta er í samræmi við það, eins og ég sagði hér áðan, sem þekkist víða annars staðar með aðrar vörur sem eru mun nytsamlegri og allir þurfa á að halda. En þetta er bara einn þátturinn í því sem verið hefur í mörg ár, að fólki er mismunað. Við flm. þessa frv. leggjum til að því verði hætt.
    Áfengis- og tóbaksverslun greiðir sendingarkostnað á öllu tóbaki hvert sem er á landinu til verslana, hvort sem þær eru útsölur frá Áfengisversluninni eða ekki.
    Eftir að farið var að selja bjórinn er þetta orðinn æði mikill kostnaður því að kostnaður við minnstu sendingu er 525 kr. Það væri gott álag ef einhver hófsemdarmaðurinn í þessum efnum pantaði sér eina rauðvínsflösku að hækka hana um 525 kr. vegna sendingar- og póstkröfukostnaðar. Sendingarkostnaður við einn bjórkassa er 660 kr. Áfengis- og tóbaksverslunin greiðir allan sendingarkostnað út á land til þeirra staða þar sem útsölur eru. Ég tel að hér sé um sjálfsagt réttlætismál að ræða, sem ég vænti að hæstv. fjmrh. taki vinsamlega í og styðji. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð því greinargerðin skýrir sig sjálf. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.