Afnám vísitölutengingar fjárskuldbindinga
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 203 legg ég fram fsp. til hæstv. forsrh. um afnám vísitölutengingar fjárskuldbindinga.
    Þegar Borgfl. gekk til liðs við þáv. ríkisstjórnarflokka og mynduð var ný ríkisstjórn var það eitt af þeim atriðum sem eining var um á milli þingflokka stjórnarflokkanna að bæta inn í fyrirliggjandi málefnasamning að aftengja lán vísitölu. Var um það samkomulag, eins og segir í málefnasamningnum, að þegar verðbólga hefur verið undir 10% samfellt í sex mánuði skuli settar fram tillögur um hvernig staðið skuli að afnámi vísitölutengingar fjárskuldbindinga. Nú hefur verðbólgan mælst undir 10% sl. 12 mánuði og því er von að spurt sé, eins og fram kemur í fsp.: Hvenær verður vísitölutenging fjárskuldbindinga afnumin?
    Í Morgunblaðinu í gær, 12. des., er í fyrsta skipti vakið máls á einhverjum möguleikum í þessum málum. Þar er haft eftir hæstv. viðskrh. að tillögur hafi komið fram um að selja ríkisskuldabréf sem beri nafnvexti en fjárhæðin ekki bundin vísitölu. Út af fyrir sig ber að fagna þessari hugarfarsbreytingu hæstv. viðskrh. En ég trúi því ekki að þar verði látið staðar numið og þar með sagt að þetta atriði málefnasamningsins hafi komist til framkvæmda.
    Í framsögu með fsp. ætla ég ekki að fara mörgum orðum um vísitölutengingu. Hins vegar hlýt ég að benda á þau rök sem haldið hefur verið á lofti í tengslum við nafnvaxtahækkanir að undanförnu og hvaða áhrif vísitölutenging hefur haft þegar þær hækkanir hafa verið ákveðnar. Forsvarsmenn bankakerfisins hafa notað þau einu rök fyrir nafnvaxtahækkunum að verið sé að jafna kjörin á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána og notað vísitöluna til að réttlæta hækkunina. Þeir hafa hins vegar ekki notað efnisleg rök um hvort væri nauðsynlegt að hækka vexti og hvort ekki mætti lækka raunvexti verðtryggðra lána svo samræmi yrði milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána.
    Að lokum. Á tímum þjóðarsáttar hlýtur sú ríkisstjórn sem tryggja á stöðugleika að krefjast þess að einn aðili njóti ekki góðs af ástandinu á kostnað hinna sem fært hafa fórnir.