Afnám vísitölutengingar fjárskuldbindinga
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vona að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um það að ég og hv. fyrirspyrjandi erum samherjar í því að reyna að ná burtu lánskjaravísitölunni. Hins vegar skal ég viðurkenna fyrstur manna að það hefur reynst þyngri þrautin en ég gerði ráð fyrir. Fyrst og fremst má rekja það til þess að með lögum frá 1979 er í raun hvatt til þess að lánskjaravísitalan verði upp tekin og mun það vera eina landið í Vestur-Evrópu sem hefur slík lög. Ég vil taka það fram að í langflestum löndum er valið frjálst. Aðeins í tveimur löndum er lánskjaravísitala bönnuð með lögum. En við erum að þessu leyti í sérstöðu. Af ástæðum sem ég þarf ekki að rekja hér var talið mikilvægt að taka upp lánskjaravísitölu einnig á fjárskuldbindingar 1979 og með þeim lögum er beinlínis til þess hvatt.
    Það hefur reynst erfiðara að afnema hana. Þó hafa verið gerðar til þess tilraunir og vek ég athygli á því að fyrir tveimur árum var það bundið að lánskjaravísitala mætti ekki vera á fjárskuldbindingum til skemmri tíma en tveggja ára og sömuleiðis ekki á innlánum sem væru undir sex mánuðum. Strax og fyrrgreint ákvæði í stjórnarsáttmála gat komið til framkvæmda hóf ég viðræður við og með viðskrh. við bankana um skref til afnáms vísitöluviðmiðunar. En ég vil vekja athygli á því að í því samkomulagi ríkisstjórnarinnar segir nokkuð meira en það sem kom fram í orðum fyrirspyrjanda. Þar segir: ,,Stefnt verður að því að afnema vísitöluviðmiðanir í lánasamningum eins fljótt og unnt er. Miðað verður við að árshraði verðbólgu verði innan við 10% á sex mánaða tímabili. Vísitölutenging fjárskuldbindinga til langs tíma verður athuguð sérstaklega og þess gætt að markaðsstaða spariskírteina ríkissjóðs veikist ekki.`` Þetta er töluvert atriði að mati þeirra sem um það fjalla. ,,Áfram verður heimilt að gengistryggja lánssamninga,`` þ.e. gengistrygging verður heimiluð.
    Ég óskaði eftir tillögum frá bönkunum í septembermánuði. Þær tillögur komu 29. okt. frá Seðlabanka Íslands. Í þeim felst í örfáum orðum --- það er því miður svo lítill tími að ég get ekki rakið þær ítarlega --- að heimila í raun og veru að taka upp hvort tveggja, að bankarnir bjóði óverðtryggð lán samhliða verðtryggðum lánum. Út af fyrir sig hef ég enga athugasemd við þetta að gera. Það er sjálfsagt að reyna þetta og hafa bankarnir þegar tekið þetta upp. Hins vegar hélt ég síðan mánudaginn 3. des. fjölmennan fund þar sem um 30 manns mættu frá bönkum og fjármálastofnunum ásamt sænskum sérfræðingi, prófessor Lodin, og nokkrum ráðherrum þar sem fjallað var um það hvernig afnema bæri lánskjaravísitöluna. Það ánægjulega var að á þeim fundi kom fram mjög breið samstaða um að það bæri að afnema lánskjaravísitöluna. En það yrði að gerast í áföngum og sérstaklega er því borið við af bönkunum, og ekki síst Seðlabankanum, að afnám lánskjaravísitölunnar með, eigum við að segja einu pennastriki, gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar í sambandi við innlán í bankana þar sem sparisjóðseigendur hafa vanist verðtryggingu. Á það er einnig bent að á markaðnum er mikið magn af verðtryggðum skammtímaskuldabréfum sem ætla má að mundu draga til sín mikið af því sparifé sem ekki væri unnt að verðtryggja. Þetta eru atriði sem vissulega verður að taka tillit til.
    Hins vegar lagði viðskrh. fram á ríkisstjórnarfundi 11. þessa mánaðar í framhaldi af þessum fundi sem ég nefndi tillögur um að draga úr verðtryggingu fjárskuldbindinga í áföngum. Þar er gert ráð fyrir því í fyrsta lagi að ríkissjóður gefi út óverðtryggð spariskírteini til eins og hálfs til þriggja ára og sömuleiðis spariskírteini tengd Evrópugjaldmiðli. Jafnframt eftir umræðu í ríkisstjórninni er farið fram á það og lagt til að Seðlabankinn geri tillögur um að draga beinlínis með tilskipunum úr verðtryggingu fjármagns annaðhvort með því að lengja þann tíma sem ekki má verðtryggja úr tveimur í þrjú eða fjögur ár og lengja sömuleiðis þann tíma sem innlán verða að vera til að njóta verðtryggingar, t.d. úr sex í níu mánuði. Eða, eins og bent hefur verið á af sumum, að athuga þá leið hvort verðtryggðar fjárskuldbindingar geta orðið verðtryggðar að hluta en óverðtryggðar að því sem á vantar. Og síðan að taka annað skref í þessa átt 1. jan. 1992 og þriðja skref 1993. Ég skal ekki segja hvað ég get rætt þetta mál meira en þessar tillögur eru núna í umræðu við Seðlabanka Íslands og ég geri ráð fyrir því að fundur með seðlabankastjórum út af framkvæmd þessara tillagna verði nú í vikunni.