Afnám vísitölutengingar fjárskuldbindinga
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fsp. Það liggur ljóst fyrir að stjórnarsáttmálinn er ótvíræður hvað þetta varðar. Og menn hefðu þá átt að hugsa það fyrr ef það væri vandkvæðum bundið að standa við hann. Það er skrýtin kenning að það skuli taka upp sem meginreglu að ferðast í þrístökki yfir ár. Ég sé ekki hvaða tilgangi það þjónar að afnema ekki lánskjaravísitöluna eins og ákveðið var þar sem það er fullboðleg trygging hverjum manni að miðað sé við erlendan gjaldeyri til verðtryggingar fjárskuldbindingum. Hitt eru einfaldlega útúrsnúningar að það þurfi einhvern aðlögunartíma. Menn eiga hvergi í heiminum völ á betri tryggingu en þeirri sem erlendar fjárskuldbindingar bjóða upp á.
    Ég vil undirstrika það í þessu sambandi að bankarnir eru staðnir að því að hafa reiknað út verðtryggingu með tveimur aðferðum. Þeir reikna þær út með annarri aðferð á innlánum en á útlánum. Þetta er gjörsamlega siðlaust athæfi og minnir á þá gömlu kenningu biblíunnar, gamla testamentisins, sem var grundvallaratriði í siðfræði: ,,Þú skalt ekki hafa tvo mæla í húsi þínu``. En kaupmenn vildu gjarnan hafa annan mæli þegar þeir mældu kornið inn en þeir notuðu þegar þeir mældu það út.
    Ég tel þess vegna að forsrh. og viðskrh. ættu að snúa sér að því í alvöru að framkvæma það sem stjórnarsáttmálinn mælir fyrir um í þessum efnum en ekki fela sig á bak við Seðlabankann.