Afnám vísitölutengingar fjárskuldbindinga
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson) :
    Herra forseti. Ég fagna því að eitthvað er nú að gerast í þessum efnum og vona að þær hugmyndir sem fram komu hjá hæstv. forsrh. komi til framkvæmda eins fljótt og auðið er.
    Ég verð að segja það að þó að líftími þessarar ríkisstjórnar eigi að vera langur þá finnst mér árin 1992 og 1993 vera komin svolítið langt fram yfir kjörtímabilið. Svo að ég átti von á því að forsrh. gæfi mér þau svör hér að verið væri að vinna í þessum málum þannig að þetta atriði málefnasamningsins yrði efnt áður en þessi ríkisstjórn færi frá völdum og vil því taka undir það sem fram kom hjá hv. 2. þm. Vestf. Ólafi Þ. Þórðarsyni, að að sjálfsögðu á frumkvæði allt að vera innan ríkisstjórnarinnar, hjá forsrh., hjá viðskrh., en ekki eilíflega að benda á aðra aðila og kenna þeim um að ekki hafi verið tekið á þessum málum.