Afnám vísitölutengingar fjárskuldbindinga
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Út af athugasemd hv. 2. þm. Vestf. vil ég segja það að með fullri virðingu fyrir honum efast ég um að hann stökkvi yfir nokkra sprænu í einu stökki og ég held að það gæti verið gott að stikla á steinum stundum. Það er nú staðreyndin.
    Út af athugasemd hv. 6. þm. Norðurl. e. vil ég vekja athygli á því að hann var lengi einn af dyggustu gæslumönnum Búnaðarbankans og ekki varð ég var við það að hv. þm. gerði tilraun til að losa út úr lánskjaravísitölunni. (Gripið fram í.) Ég hugsa að það þurfi enginn að efast um að ég er eins dyggur stuðningsmaður þess eins og nokkur hér að losna við lánskjaravísitöluna en ég ætla ekki að taka ábyrgð á því að það jafnvægi sem náðst hefur í inn - og útlánum bankanna hrynji með einu pennastriki á heimild til að verðtryggja innlán bankanna. Ég held að því miður, vil ég leyfa mér að segja, sé það staðreynd að það sem stundum hefur verið kallað hér hinn grái markaður og sá mikli fjöldi skuldabréfa sem þar er í umferð hafi gífurleg áhrif í þessu sambandi. Okkur hefur að mínu mati ekki tekist að hemja það eins og ég tel að æskilegt hefði verið þótt þar hafi verið gerðar ákveðnar ráðstafanir til að hafa betri stjórn á sem er vissulega góðra gjalda vert.
    En ég hef talið mér skylt að hlusta á þann aðila sem samkvæmt lögum hefur fyrst og fremst valdið, Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn getur vitanlega gert athugasemdir við það sem ríkisstjórnin leggur til en er svo skylt að fara eftir þeim. En ég hef talið mér skylt að hlusta á þau aðvörunarorð í sambandi við innlánshlið fjárskuldbindinga, að ekki sé rétt að afnema vísitölutengingu innlána með einu pennastriki.
    Ég vil einnig vekja athygli á því að í stjórnarsamningnum stendur að stefnt skuli að þessu. Og ég tel að með þeim tillögum sem nú eru komnar fram sé vissulega stefnt að því að afnema vísitölubindingu fjármagns. Ég hefði viljað fara hraðar, vissulega, en við verðum að gera það í sæmilegu samkomulagi við viðskiptabankana. Ég hef lagt mig fram um að ná þessu samkomulagi. Ég tel að með þeim fundi sem haldinn var um daginn hafi mjög stórt skref verið stigið til að auka skilning á því að draga úr vísitölutengingu fjárskuldbindinga, vonandi að afnema þær að öllu leyti. En ég vek líka athygli á því að í öllum löndum nema tveimur er þetta frjálst. Og ég vek athygli á því að í dag er boðið upp á tengingu fjármagns við erlenda gjaldmiðla. Það er frjálst. Ég er viss um að hv. 2. þm. Vestf. getur fengið sitt fjármagn þannig bundið ef hann óskar. En samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið eru nánast engar óskir um slíka bindingu fjármagns.
    Því miður erum við orðnir það háðir, að því er virðist, innlendri vísitölutengingu fjármagns að ekki er mjög auðvelt að komast út úr því og það verður að gerast í áföngum. Menn verða að stikla yfir lækinn á steinunum.