Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég get bætt því við svör varðandi leigutekjur af húsinu að samkvæmt bréfi sem ég hef hér í þykkum bunka skjalagagna frá ríkisféhirði þá mun húsaleiga eins og hún er ákvörðuð af því embætti á þessari eign vera nú 11.327 kr. á mánuði. Hvaða ástæður liggja til grundvallar þeirri upphæð, þeirri ákvörðun kann ég ekki, en leigjandi greiðir hins vegar skilvíslega þá upphæð í húsaleigu sem hið opinbera embætti ákvarðar honum.
    Ég hef ekki miklu í sjálfu sér við málið að bæta að öðru leyti. Ég ætla ekki að tjá mig um þau ummæli sem hv. fyrirspyrjandi hafði hér um frammistöðu kerfisins eða stjórnvalda í þessum efnum í þessari 18 ára sögu en svara fyrir það sem til míns friðar hefur heyrt og það er að húsið verður sett á söluskrá innan tíðar og selt og ég hef þegar lýst því yfir að fullu söluandvirði hússins og framreiknuðum þeim tekjum sem Skógræktin hefur haft vegna leigu af húsinu verður ráðstafað í framhaldinu í þetta verkefni sem gjafabréfið kveður á um. Og þá má hafa það í huga að þar með nýtur verkefnið allra þeirra endurbóta sem Skógræktin hefur gert á eigninni og væntanlega auka talsvert söluandvirði hennar en samkvæmt þeim gögnum sem ég hef hér fóru fram umtalsverðar endurbætur á húsinu á árunum 1977 og 1978 þar sem húsið var nánast meira og minna endurnýjað að utan og innan, gluggar, raflögn, vatnslögn, innréttingar, baðherbergisskápar, teppi, húsið málað utan sem innan og ýmislegt fleira gert í framhaldinu sem væntanlega hefur verulega aukið verðmæti eignarinnar og kemur þá verkefninu til góða.
    Það er rétt að
hafa í huga að skilmálar erfðaskrár eða gjafabréfs voru nokkuð sérstakir og Skógræktin hefur talið það skyldu sína að reyna eftir föngum að uppfylla ákvæðin líka hvað það snertir að útvega land, en svo segir í erfðaðaskrá, með leyfi forseta:
    ,,Allar eignir mínar, fastar og lausar, hverju nafni sem nefnast, skulu eftir minn dag ganga til Skógræktar ríkisins er beri að hagnýta þær í því skyni að efldur verði trjágróður í Dalasýslu og þá fyrst og fremst í Hörðudalshreppi. Land það sem ég hef helst haft augastað á í þessu sambandi er hluti úr landi Ketilsstaða í Hörðudalshreppi og getur frændi minn, Erlingur Hansson, greint nánar frá hvar land þetta liggur. Sé þetta landsvæði ekki tiltækt úr þessu sveitabýli né nothæft land annars staðar í Hörðudalshreppi skal útvega land til ræktunar undir trjágróður á öðrum stað í Dalasýslu sem að dómi Skógræktar ríkisins er vel fallið til slíks`` o.s.frv. Þetta hefur valdið því m.a. að Skógræktin hefur talið það skyldu sína að reyna til þrautar að fá land sem samrýmdist þessum ákvæðum.
    Ég vil svo að lokum taka heils hugar undir þau orð hv. fyrirspyrjanda að hér var á sínum tíma og er enn um óvenju höfðinglega gjöf til skógræktarstarfsins að ræða og að sjálfsögðu ber öllum hlutaðeigandi skylda til að reyna að virða vilja þess sem gjöfina gaf

og koma honum til framkvæmda.