Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil bara vekja athygli á því að í fyrri ræðu sinni sagði hæstv. ráðherra að þetta hefði verið ávaxtað með hagkvæmasta hætti. Síðan kemur fram hér í máli hans að einbýlishús sem hefur verið endurnýjað, stórt og vandað einbýlishús, er leigt fyrir um það bil 11 þús. kr. á mánuði. Hvernig getur það verið í samræmi við það verð sem ræður á markaðnum? Og ég spyr: Hvað er hér á seyði? Ég sé ekki að þessi eign hafi verið ávöxtuð með hagkvæmasta hætti ef hún er leigð á verði sem er sjálfsagt þrefalt eða fjórfalt undir því sem væri hægt að fá á almennum leigumarkaði. Ég held að þeir embættismenn sem ábyrgð bera á þessu hljóti að þurfa að skýra þetta nánar. Ég ætlast ekki til að ráðherra geri það, ég þykist vita að þetta hafi verið án hans vitundar og eldra mál, en á þessu hljóta að vera skýringar og þær eiga að koma fram í dagsljósið.