Vextir á lánum Húsnæðisstofnunar
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 204 legg ég fram fsp. til hæstv. félmrh. um vexti á lánum Húsnæðisstofnunar ríkisins.
    Við sölu fasteigna hefur það þótt kostur að yfirtaka lán frá Húsnæðisstofnun ríkisins og hefur fólk almennt talið að þau lán væru hagstæðari en önnur lán. Það má til sanns vegar færa því að almennt eru húsnæðisstjórnarlán með annaðhvort 3,5 eða 4,5% vöxtum umfram verðtryggingu en vextir lífeyrissjóðslána og bankalána með á bilinu 7 -- 8,5% vexti umfram verðtryggingu. Komið hefur í ljós að þessi regla er ekki algild. Þeir sem yfirtekið hafa húsnæðisstjórnarlán frá árunum 1975 -- 1978 búa við önnur og verri kjör. Þeir þurfa, að því er mér hefur verið tjáð, að greiða mun hærri raunvexti af sínum lánum.
    Ég fékk talnaglöggan mann til að reikna út fyrir mig vexti af láni sem tekið var árið 1987 sem samkvæmt upphaflegum skilmálum bar 9,75% vexti og 40% lánsins var bundið byggingarvísitölu. Hann fær það út að miðað við hækkun byggingarvísitölu frá tímabilinu 1. maí 1989 til 1. maí 1990 beri höfuðstóll lánsins 9,18% vexti umfram vísitölu byggingarkostnaðar en 13,72% raunvexti sé miðað við hækkun lánskjaravísitölu þetta tímabil. Hljóta þetta að teljast óhóflegir vextir og ef útreikningur þessi er réttur, sem ég dreg í sjálfu sér ekki í efa, má með sanni segja að um okurvexti sé að ræða af hálfu Húsnæðisstofnunar.
    Mér er kunnugt um að fólk hafi farið fram á það bæði við Húsnæðisstofnun og félmrn. að breyting verði á lánskjörum þessara lána og þeim leyft að búa við sömu kjör og aðrir. Eftir því sem ég kemst næst hefur þeim sem keypt hafa íbúð með áhvílandi láni frá árinu 1978 verið veitt slík heimild. Ég veit ekki um lán tekin 1977 en mér er kunnugt um að þeim hafi verið neitað um skuldbreytingingu sem yfirtóku lán sem gefin voru út árið 1975 og 1976.
    Fsp. sem ég legg fyrir hæstv. félmrh. af þessu tilefni er svohjóðandi:
    ,,Eru hugmyndir uppi í félmrn. eða Húsnæðisstofnun ríkisins að gefa þeim, sem við fasteignakaup hafa yfirtekið lán frá Húsnæðisstofnun ríkisins frá árunum 1976 og 1977, kost á skuldbreytingu svo að þeir þurfi ekki að búa við það óréttlæti að greiða yfir 9% af þeim lánum meðan almennir vextir af húsnæðisstjórnarlánum eru 4,5% eða lægri?``